Hoppa yfir valmynd

09 Almanna- og réttaröryggi

Forsætisráðuneytið
Dómsmálaráðuneytið

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð dómsmálaráðherra og forsætisráðherra. Það skiptist í fimm málaflokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2023–2025.

Heildarútgjöld í m.kr.

Helstu áherslur 2026–2030

Öryggi og réttlæti

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Borgarar landsins upplifi öryggi í daglegu lífi sínu. Löggæsla og landamæraeftirlit, bæði á sjó og landi, verði öflug. Rannsóknir og málsmeðferð hjá lögreglu, ákæruvaldi og dómstólum verði réttlát, markviss og skilvirk. Löggæsla verði efld til muna með fjölgun lögreglumanna og tekið verði á skipulagðri brotastarfsemi, netbrotum, mansali og kynbundnu ofbeldi af festu. Þá verði lögð áhersla á forvarnir og samfélagslöggæslu til að koma í veg fyrir afbrot ungmenna.

Stefna málefnasviðsins

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar er lögð áhersla á að efla löggæslu og landamæraeftirlit til að tryggja öryggi almennings. Megináhersla er að tryggja almannaöryggi með öflugri löggæslu og landamæraeftirliti og sporna við skipulagðri brotastarfsemi. Brýnt er einnig að efla netöryggi og berjast gegn hvers kyns stafrænum ógnum. Megináherslur endurspegla að sama skapi áskoranir sem lögregla stendur frammi. Lögregluyfirvöld þurfa að vera í stakk búin til að mæta þeim áskorunum sem m.a. leiðir af skipulagðri brotastarfsemi, netbrotum og auknum vopnaburði, auk þess að sinna hefðbundinni útkallsþjónustu og rannsóknum sakamála. Ofbeldi hefur farið vaxandi í íslensku samfélagi en ýmis teikn eru á lofti um að ofbeldi meðal barna og ungmenna hafi jafnframt aukist. Á næstu árum hyggst dómsmálaráðherra fjölga lögreglu­mönnum og taka á skipulagðri brotastarfsemi og kynbundnu ofbeldi. Með fjölgun lögreglumanna verði jafnframt forsendur fyrir því að leggja aukna áherslu á forvarnir og samfélagslöggæslu og koma þannig í veg fyrir afbrot meðal ungmenna. Þá stendur til að endurnýja löggæsluáætlun, m.a. með hliðsjón af framangreindum áskorunum. Á næstu árum verður lykilverkefni að vinna að styttingu málsmeðferðartíma innan réttarvörslukerfisins. Þá er stefnt að því að meta þörfina á auknum heimildum til löggæslu, m.a. vegna framangreindra brotaflokka.

Varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eru mikilvægar fyrir trúverðugleika fjármálakerfisins sem og að sporna við skipulagðri brotastarfsemi. Ísland verður áfram virkur þátttakandi í hinum alþjóðlega fjármálaaðgerðahópi Financial Action Task Force (FATF) þar sem fimmta úttekt hér á landi verður gerð 2025–2027.

Unnið er að heildstæðri stefnumótun fullnustumála. Fullnustukerfið stendur frammi fyrir miklum áskorunum, m.a. hefur lengd boðunarlista verið verulegt vandamál sem hefur leitt til þess að refsingar hafa verið að fyrnast. Þá þarf að efla stuðning við fanga á meðan afplánun í fangelsum stendur. Taka þarf til skoðunar hvort frekari afplánun utan fangelsa geti komið til greina, auk þess að taka ákvörðun um framtíðarfyrirkomulag þegar kemur að afplánun með ökklaböndum eða samfélagsþjónustu. Undirbúningur að byggingu nýs fangelsis í stað fangelsisins Litla-Hrauns stendur yfir og gert er ráð fyrir að nýtt fangelsi taki til starfa í lok árs 2028.

Mikilvægt er að innviðir samfélagsins, þ.m.t. lögregla, almannavarnir og Landhelgisgæsla, séu í stakk búnir til að mæta hvers kyns hættum. Staða alþjóðamála kallar á eflingu borgaralegra innviða. Ein stærsta áskorun Landhelgisgæslunnar um þessar mundir er að tryggja björgunar- og eftirlitsgetu á leitar- og björgunarsvæði Íslands og standa undir kröfum sem Ísland hefur undirgengist með alþjóðlegum samningum. Aukin áhersla er nú á viðnámsþol ríkja, m.a. hjá Evrópusambandinu og NATO. Vinna er hafin við að greina viðnámsþol á ýmsum sviðum samfélagsins og munu niðurstöður úr þeirri vinnu að öllum líkindum kalla á ýmsar breytingar á núgildandi löggjöf. Stefnt er að því að leggja fram frumvarp til nýrra laga um almannavarnir á haustþingi 2025.

Slysavarnafélagið Landsbjörg gegnir ómetanlegu hlutverki hér á landi í því að koma í veg fyrir slys og bjarga mannslífum og verðmætum. Björgunarsveitir hafa jafnframt gegnt lykilhlutverki við þær áskoranir sem tengjast jarðhræringum á Reykjanesskaga. Fyrir liggur að taka þarf á tímabilinu til skoðunar umgjörð og hlutverk björgunarsveita.

Framtíðarsýn öryggisfjarskipta er umfangsmikið verkefni sem mikilvægt er að hefjast handa við þar sem undirbyggja þarf hvaða leið eigi að velja til framtíðar og vinna grunn að verkefnisáætlun ásamt kostnaðarmati.

Helstu breytingar á fjármögnun málefnasviðsins

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Nýjar fjárveitingar hækka útgjaldaramma málefnasviðsins um 2,8 ma.kr. Á móti er gert ráð fyrir lækkun útgjalda vegna hagræðingar og tímabundinna framlaga sem falla niður. Tímabundin framlög til byggingar nýs fangelsis aukast á tímabilinu um 3,4 ma.kr. og falla niður 2029 er fangelsið verður tekið í notkun. Breyting fjárheimilda málefnasviðsins nemur því 1,6 ma.kr. til lækkunar.

Útgjaldarammi í m.kr.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta