3. Framreikningur landsframleiðslu
Í þessum kafla er birtur framreikningur landsframleiðslu til ársins 2054.1 Framreikningurinn byggir á þeim forsendum sem fjallað hefur verið um hér að framan. Hann liggur til grundvallar umfjöllun um opinber fjármál í kafla 4.
Birtar eru tvær sviðsmyndir:
- Sviðsmynd án áfalla byggir á þeim forsendum sem taldar eru eðlilegastar. Byggt er á miðspá mannfjöldaspár og forsenda um vöxt framleiðni byggir á þeim viðmiðum og þeirri þróun sem fjallað var um í kafla 2.1. Ekki er gert ráð fyrir neinum hagsveiflum í sviðsmynd án áfalla. Það þýðir ekki að hagsveiflur séu taldar ólíklegar heldur endurspeglar það að ekki er hægt að spá um þær svo langt fram í tímann.
- Sviðsmynd með áföllum varpar ljósi á áhrif þess ef djúpar efnahagskreppur af þeim toga sem einkennt hafa hagþróun það sem af er 21. öldinni, með langvarandi neikvæðum áhrifum á framleiðni, halda áfram að einkenna hana á næstu þremur áratugum. Auk þess er gert ráð fyrir minni fólksfjölgun, einkum vegna minni aðflutnings, sem leiðir af sér óhagstæðari aldurssamsetningu en í sviðsmynd án áfalla. Samanlagt er hagvöxtur minni og sveiflukenndari en í sviðsmynd án áfalla.
Í sviðsmynd með áföllum er gert ráð fyrir efnahagslegum áföllum sem á 10 ára fresti hafi varanleg neikvæð áhrif á framleiðni og framleiðslugetu þjóðarbúsins. Áföll og lægri vöxtur framleiðni gætu stafað af þeim áhættuþáttum sem fjallað var sérstaklega um í kafla 2.2 eða einhverjum allt öðrum.
Frá aldamótum hafa stór efnahagsleg áföll riðið yfir tvisvar sinnum. Í fjármálakreppunni minnkaði landsframleiðsla varanlega frá því leitnistigi sem hún var á fyrir kreppuna. Það sama virðist hafa gerst í einhverjum mæli í heimsfaraldrinum þótt of snemmt sé um það að segja. Í þeim áföllum sem í dæmaskyni er gert ráð fyrir þrisvar á tímabili greiningarinnar – 2030, 2040 og 2050 – er gert ráð fyrir að leitnistig landsframleiðslu minnki varanlega um 5% í hvert skipti. Það jafngildir um helmingi af þeim áhrifum sem fjármálakreppan virðist hafa haft.
Í sviðsmyndunum er til áranna 2029-2030 notast við þjóðhagsspá Hagstofu Íslands í október 2024, þá sömu og liggur til grundvallar fjárlögum 2025. Framreikningur ráðuneytisins tekur við eftir 2030.
Tafla: Forsendur að baki framreikningi landsframleiðslu
| Sviðsmynd án áfalla | Sviðsmynd með áföllum |
Íbúafjöldi og aldurssamsetning | Miðspá Hagstofu Íslands, nóvember 2024. | Lágspá Hagstofu Íslands, nóvember 2024. |
Vöxtur framleiðni vinnuafls | 1,4% á ári að meðaltali 2029-2054. | Í grunninn 1,3% á ári en 0,7% að teknu tilliti til varanlegra neikvæðra áhrifa niðursveiflna. |
Hagsveiflur | Engar eftir 2030. | Á 10 ára fresti (2030, 2040 og 2050) er gert ráð fyrir niðursveiflum sem hafa varanleg neikvæð áhrif á framleiðslugetu sem nemur 5% í hvert skipti. Gert er ráð fyrir 2% framleiðsluslaka þegar hann er mestur. |
Spá fyrir 2024-2029 | Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands í október 2024 | |
Helstu niðurstöður eru þessar:
- Í sviðsmynd án áfalla er hagvöxtur að meðaltali 2,6% á ári árin 2025-2054. Þótt það væri minna en hagvöxtur var að meðaltali 1994-2023 (3,3%) væri það engu að síður allmikið í samanburði við nýlegt mat á langtímahagvaxtargetu samanburðarríkja. Hér endurspeglast horfur um tiltölulega hagstæða lýðfræðilega samsetningu landsmanna, einkum þar sem gert er ráð fyrir meiri aðflutningi ungs fólks til landsins en víðast hvar í samanburðarríkjum. Aðeins nýlega hefur mannfjöldaspá Hagstofunnar gert ráð fyrir verulegum aðflutningi fólks til landsins – eins og verið hefur á undanförnum árum – allt fram á miðja öldina.
- Í sviðsmynd án áfalla eru horfur á 30% meiri landsframleiðslu árið 2050 en í LTH 2021. Frá því að sú skýrsla kom út hefur landsframleiðsla vaxið meira en spáð var vegna örari efnahagsbata eftir heimsfaraldurinn. Það skýrir þó aðeins brot af þeirri breytingu sem er á horfum um landsframleiðslu um miðja öldina frá því fyrir þremur árum. Megnið skýrist af horfum um meiri hagvöxt fram á veginn; í LTH 2021 var aðeins gert ráð fyrir 1,9% hagvexti á ári að meðaltali 2025-2050 eða hátt í 1 prósentustigi minna en nú er gert ráð fyrir í sviðsmynd án áfalla.
Hagvöxtur á mann er að meðaltali 1,3% í sviðsmynd án áfalla 2025-2054. Þegar kemur að efnahagslegri velsæld hvers íbúa landsins skiptir landsframleiðsla á mann meira máli en landsframleiðslan sjálf. Samkvæmt framreikningnum vex landsframleiðsla á mann u.þ.b. jafn mikið og framleiðni vinnuafls. Þeir þættir sem gætu valdið mismun þarna á milli, og fjallað var um hér að framan, hafa því í heildina lítil sem engin áhrif á landsframleiðslu, ýmist af því að framreikningur bendir til þess að áhrifin séu lítil að gefinni mannfjöldaspá Hagstofunnar (hlutfall starfandi) eða sú forsenda er gefin að þeir breytist ekki (meðalvinnutími).- Horfur um landsframleiðslu á mann eru svipaðar í sviðsmynd án áfalla eins og í grunnsviðsmynd LTH 2021 þrátt fyrir forsendu um minni framleiðnivöxt. Ástæða þess er m.a. sú að nú er útlit fyrir að hlutfall starfandi fólks fari heldur hækkandi ólíkt LTH 2021 þar sem talið var að það myndi lækka til 2050.
- Uppsafnaður vöxtur landsframleiðslu á mann er um helmingi minni í sviðsmynd með áföllum en í sviðsmynd án áfalla. Í sviðsmynd með áföllum er hagvöxtur á mann að meðaltali 0,7% á hverju ári 2025-2054. Hann er einnig sveiflukenndari en í sviðsmynd án áfalla enda er gert ráð fyrir niðursveiflum þar sem landsframleiðsla á mann dregst saman um allt að 6% milli ára.
Ef framreikningurinn gengur eftir verður vöxtur landsframleiðslu á mann hlutfallslega nokkuð hægari næstu 30 ár en á undanförnum 30 árum, einnig í sviðsmynd án áfalla. Horft til svo langs tíma felst í því töluverð einföldun að mæla efnahagslegt þróunarstig með landsframleiðslu. Það má búast við því að tæknibreytingar yfir svo langt tímabil breyti samsetningu hagkerfisins með hætti sem landsframleiðsla mælir ekki fyllilega. Þar nægir að benda á að fyrir 30 árum var stór hluti þeirrar tækni sem leggur grunn að nútímasamfélagi ekki til. Í aukinni fjölbreytni hagkerfisins og úrvali fyrir neytendur felast verðmæti, rétt eins og í auknum kaupmætti og framleiðslu.
1 Einnig kallað verg landsframleiðsla og skammstafað VLF.
Langtímahorfur
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.