Þróun heilsufars og lífshamingju (rammagrein)
Heilsa er einn mikilvægasti grundvöllur lífsgæða sérhvers einstaklings og þróun heilsufars landsmanna hefur mikla þýðingu fyrir langtímahorfur í efnahagsmálum og opinberum fjármálum. Lífshamingja er nátengd líkamlegri og andlegri heilsu sem og fjárhagslegri stöðu. Líklega er ekki ofsögum sagt að lífsgæði fólks felist að uppistöðu til í þessum þáttum.
Aldursleiðrétt dánartíðni, þ.e. líkurnar á því að látast miðað við aldur, hefur lækkað nokkuð stöðugt undanfarna áratugi miðað við nýjustu gögn Hagstofunnar sem ná til ársins 2021. Lækkun dánartíðni hefur einkum verið drifin af fækkun andláta úr hjarta- og blóðrásarsjúkdómum.1 Í auknum mæli lifir fólk svo lengi að það deyr úr sjúkdómum sem gera einkum vart við sig í hárri elli, svo sem heilabilun.
Þessi þróun endurspeglast í mati eldra fólks á eigin líkamlegri heilsu. Hjá fólki á áttræðisaldri fækkaði þeim töluvert milli 2007 og 2022 sem töldu heilsu sína ekki góða, sérstaklega á síðustu árum. Bætt heilsa eldra fólks og minni dánartíðni getur skýrst af bæði framförum í heilbrigðisþjónustu og öðrum áhrifaþáttum lýðheilsu. Upp að því marki sem hið síðarnefnda er raunin má búast við því að álag á heilbrigðisþjónustu vaxi minna með öldrun þjóðarinnar en ella væri raunin.
Sömu jákvæðu þróun heilsufars er aftur á móti ekki að greina í öllum aldurs- og samfélagshópum. Hjá fólki á aldrinum 30-60 ára hefur þeim fjölgað undanfarna tvo áratugi sem telja líkamlega heilsu sína ekki vera góða. Fjölgun innflytjenda á þátt í því þar sem erlendir ríkisborgarar telja heilsu sína vera verri en aðrir Íslendingar að jafnaði. Hún skýrir þróunina þó ekki að fullu. Á aldrinum 30-49 ára telja um þriðjungi fleiri konur en karlar að líkamleg heilsa þeirra sé ekki góð og hefur munurinn heldur aukist undanfarna tvo áratugi; ekki er viðlíka kynjamunur í öðrum aldurshópum.
Mat landsmanna á andlegri heilsu sinni hefur síðan þróast hratt til hins verra á undanförnum árum. Sú þróun er að miklu leyti kynslóðadrifin þar sem ungt fólk telur andlega heilsu sína vera sífellt lakari en fyrri kynslóðir. Þannig taldi tæplega helmingur 18-22 ára fólks árið 2022, þ.e. fólks sem fætt var skömmu eftir aldamót, að andleg heilsa sín væri ekki góð, mun fleiri en fólk sem var á sama aldri 2007-2017. Undanfarna tvo áratugi hefur þó einnig fjölgað í hópi þeirra sem telja andlega heilsu sína ekki vera góða hjá þeim kynslóðum sem fæddar eru 1975-1990. Samhliða þeirri þróun hefur aukist hlutfall bæði endurhæfingar- og örorkulífeyrisþega á aldursbilinu 18-66 ára af búsettum einstaklingum á Íslandi. Frá aldamótum til ársins 2023 hækkaði hlutfall endurhæfingarlífeyrisþega úr 0,5% í 2,4%. Hlutfall örorkulífeyrisþega hækkaði á sama tíma úr 5,9% í 8,1%. Síðustu ár hefur endurhæfingarlífeyrisþegum fjölgað hraðar. Nánar er fjallað um útgjöld hins opinbera vegna heilbrigðisþjónustu og almannatrygginga í kafla 4.
Kynslóðabundin þróun til hins verra er enn meira áberandi þegar kemur að mati fólks á hamingju sinni. Þar er jafnframt meira áberandi kynjamunur en hvað varðar mat á heilsufari; ungir karlar telja hamingju sína vera mun minni en ungar konur, sérstaklega hjá fólki með íslenskt ríkisfang. Beðnir um að meta hamingju sína á skalanum 1-10, þar sem 1 er lægst og 10 hæst, töldu landsmenn að hamingja sín væri að meðaltali 7,5 árið 2022 (7,9 árið 2017) og 13% töldu að hún væri 5 eða lægri. Meðal erlendra ríkisborgara töldu 23% að hún væri svo lág, meðal fólks undir þrítugu voru 22% sama sinnis og meðal karla í þeim aldurshópi var hlutfallið 32%, ríflega tvöfalt hærra en meðal kvenna á sama aldri. Hjá kynslóðum sem fæddar voru fyrir 1970 er hamingja töluvert meiri og hefur ekki breyst mikið síðan 2007.2
Það er eðlilegt að álykta að neikvæð þróun í lífshamingju yngri kynslóða skýrist af áhrifaþáttum sem hafa verið að verki um nokkurt skeið og gætu áfram haft áhrif á næstu áratugum. Hverjir svo sem þeir eru má telja að þeir hafi töluverða samfélagslega þýðingu og mögulega þýðingu fyrir efnahagsmál og opinber fjármál. Hér gefst ekki ráðrúm til þess að greina þá til hlítar. Þess verður þó getið að mat á eigin hamingju hefur lækkað bæði hjá þeim sem meta eigin fjárhagsstöðu betri og hjá þeim sem meta hana verri en annarra á landinu. Hamingja mælist enn sem áður fyrr meiri hjá tekjuháum en tekjulágum og fylgnin þar á milli fór, ef eitthvað er, heldur vaxandi á tímabilinu 2007-2022.
1 Sums staðar erlendis hefur dauðsföllum af völdum notkunar ópíóíða og annarra sterkra vímuefna fjölgað verulega, svo mikið að talað er um faraldur, og í svo miklum mæli að það hefur sums staðar haft töluverð áhrif á vænta meðalævilengd. Ungt fólk er fjölmennt í þeim hópi. Hér á landi hefur fjölgað töluvert síðustu ár andlátum þar sem skráð dánarorsök er óhappaeitrun samkvæmt tölum Hagstofu Íslands, en af mjög lágum grunni. Andlátum sem flokkuð eru af völdum ytri orsaka, þ.m.t. óhappaeitrunum, hefur ekki fjölgað undanfarinn áratug í hlutfalli við íbúafjölda og leiðrétt fyrir breytingum í aldurssamsetningu.
2 Þær upplýsingar um mat Íslendinga á eigin heilsu og hamingju 2007-2022 sem fjallað er um í þessari rammagrein byggja á rannsókn embættis landlæknis, Heilsa og líðan Íslendinga, og útreikningum fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Sjá: Andrea Gerður Dofradóttir, Jón Óskar Guðlaugsson, Sigríður Haraldsdóttir Elínardóttir og Védís Helga Eiríksdóttir (2024). Heilsa og líðan á Íslandi 2022: Framkvæmdaskýrsla. Reykjavík: Embætti landlæknis.
Langtímahorfur
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.