Mannanöfn
Skylt er að gefa barni nafn áður en það verður sex mánaða gamalt. Barn öðlast nafn við skírn í þjóðkirkjunni eða skráðu trúfélagi eða með tilkynningu um nafngjöf til Þjóðskrár Íslands, prests eða forstöðumanns skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags eða til einstaklinga sem starfa í umboði forstöðumanns skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags og fengið hafa löggildingu sýslumanns.
Þjóðskrá Íslands tekur við tilkynningum um nafnbreytingar, öðrum en þeim sem varða óskir um nafnbreytingar við upptöku íslensks ríkisfangs. Þær eru afgreiddar hjá Útlendingastofnun.
Mannanafnanefnd
Mannanafnanefnd starfar á grundvelli laga um mannanöfn. Helstu verkefni hennar eru:
- Að semja skrá um eiginnöfn og millinöfn sem teljast heimil, svonefnda mannanafnaskrá.
- Að vera prestum, forstöðumönnum skráðra trúfélaga, Þjóðskrá Íslands og forsjármönnum barna til ráðuneytis um nafngjafir og skera úr álita- og ágreiningsefnum um nöfn.
- Að skera úr öðrum álita- eða ágreiningsmálum sem upp kunna að koma um nafngjafir, nafnritun og fleira þess háttar.
Sjá nánar:
- Upplýsingar um mannanafnanefnd
- Úrskurðir mannanafnanefndar
- Beiðni til mannanafnanefndar um eiginnafn eða millinafn, sem ekki er á mannanafnaskrá
Skriflegum erindum skal beint til mannanafnanefndar á neðangreindan máta:
Mannanafnanefnd
b.t. Þjóðskrár Íslands
Borgartúni 21
105 Reykjavík
[email protected]
Mannanafnaskrá
Mannanafnanefnd semur skrá um eiginnöfn og millinöfn sem teljast heimil skv. mannanafnalögum, svonefnda mannanafnaskrá, gefur hana út, kynnir hana og gerir aðgengilega almenningi. Foreldrar geta haft skrána til viðmiðunar við nafngjöf, en sé það nafn sem þeir hafa í huga ekki í skránni geta þeir fyllt út sérstakt eyðublað og farið þess á leit að hún skeri úr um hvort nafnið teljist leyfilegt lögum samkvæmt. Áður en mannanafnanefnd úrskurðar um nafn þarf að greiða lögboðið gjald hjá Þjóðskrá Íslands. Heimili nefndin nafn verður því bætt á mannanafnaskrá.
Mannanafnaskrá er vistuð á Ísland.is.
Meginreglur um mannanöfn
Skylt er að gefa barni nafn áður en það verður sex mánaða gamalt. Fullt nafn manns er eiginnafn hans eða eiginnöfn, millinafn, ef því er að skipta, og kenninafn (þ.e. föður- eða móðurnafn eða ættarnafn).
Eiginnöfn og millinafn mega aldrei vera fleiri en þrjú samtals. Engin skylda er að gefa barni millinafn.
Menn geta borið
- Eitt eiginnafn (t.d. Sigríður Jónsdóttir)
- Eitt eiginnafn og millinafn (t.d. Sigríður Arnfjörð Jónsdóttir).
- Tvö eiginnöfn (t.d. Sigríður Þorbjörg Jónsdóttir).
- Tvö eiginnöfn og millinafn (t.d. Sigríður Þorbjörg Arnfjörð Jónsdóttir).
- Þrjú eiginnöfn (t.d. Sigríður Þorbjörg María Jónsdóttir).
Menn geta aldrei borið:
- Fleiri en eitt millinafn (t.d. ekki Sigríður Arnfjörð Bjarndal Jónsdóttir).
Enginn má taka upp nýtt ættarnafn hér á landi.
Eiginnöfn
Hverjum ber skylda til að gefa barni nafn?
- Forsjármönnum barns (sem oftast eru foreldrar þess).
Hvernig öðlast barnið nafn?
- Barn öðlast nafn við skírn í þjóðkirkjunni eða skráðu trúfélagi eða með tilkynningu um nafngjöf til Þjóðskrár Íslands, prests eða forstöðumanns skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags eða til einstaklinga sem starfa í umboði forstöðumanns skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags og fengið hafa löggildingu sýslumanns.
Hvernig má nafnið vera?
- Nafnið þarf að geta tekið íslenskri eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
- Það má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.
- Það skal ritað í samræmi við íslenskar ritvenjur nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
- Það má ekki vera þannig að það geti orðið þeim sem ber það til ama.
Hvaða nöfn eru leyfileg?
- Þau nöfn sem eru á mannanafnaskrá.
Hver sker úr um það hvort nafn sé leyfilegt?
- Mannanafnanefnd. Hún á að kveða upp úrskurð sinn eins fljótt og við verður komið og ekki síðar en innan fjögurra vikna frá því að mál berst henni.
Hvað gerist ef nefndin úrskurðar að nafn sé óleyfilegt?
- Þá er nafnið ekki fært á þjóðskrá. Sé það nafn sem um ræðir eina nafn barnsins verða forsjármenn þess (oftast foreldrar) að velja því annað nafn.
Hvernig fer opinber skráning á nafni fram?
- Nöfn eru skráð á þjóðskrá og mannanafnaskrá.
Ef Þjóðskrá Íslands fær tilkynningu um nafn sem ekki er á mannanafnaskrá verður það ekki skráð að svo stöddu, heldur skal málinu vísað til mannanafnanefndar þegar lögboðið gjald hefur verið greitt.
Hvað gerist ef barni er ekki gefið nafn innan sex mánaða frá fæðingu þess?
- Þá skal Þjóðskrá Íslands vekja athygli forsjármanna barnsins á þessu ákvæði í lögunum og skora á þá að gefa barninu nafn án tafar. Ef þeir sinna þessu ekki áður en mánuður er liðinn og tilgreina ekki gildar ástæður fyrir því að nafngjöf hefur dregist er Þjóðskrá Íslands heimilt að leggja dagsektir á forsjármennina.
Millinöfn
Leyfilegt er að gefa barni eitt millinafn ásamt eiginnafni eða eiginnöfnum, en slík nafngjöf er þó engin skylda. Millinöfn eru eins og ættarnöfn að því leyti að bæði karlar og konur geta borið sama nafnið. Dæmi: Jón Arnfjörð Guðmundsson, Guðrún Arnfjörð Hallgrímsdóttir. Millinöfn eru á hinn bóginn eins og eiginnöfn að því leyti að þau er hægt að gefa við skírn eða nafngjöf. Það er þess vegna engin nauðsyn að fleiri en einn í fjölskyldu beri sama millinafn. Þannig er t.d. heimilt að gefa þrem alsystkinum hverju sitt millinafnið, s.s. Arnfjörð, Reykfjörð og Viðfjörð, að gefa þeim öllum sama millinafnið, að gefa aðeins einu þeirra eitthvert millinafn o.s.frv.
Millinafn skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Það má ekki vera þannig að það geti orðið þeim sem ber það til ama.
Til hægðarauka má skipta millinöfnum í almenn millinöfn og sérstök millinöfn.
Hvernig eru almenn millinöfn?
- Almennt millinafn skal dregið af íslenskum orðstofnum eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli en má þó ekki hafa nefnifallsendingu. Dæmi: Arnfjörð, Sædal, Vattnes.
- Almenn millinöfn eru öllum heimil og eru því skráð í mannanafnaskrá.
Hvernig eru sérstök millinöfn?
- Þótt millinafn fullnægi ekki þeim reglum sem gilda um almenn millinöfn er það heimilt þegar þannig stendur á að nákominn ættingi þess sem á að bera nafnið (eitthvert alsystkini, foreldri, afi eða amma) ber eða hefur borið það. Dæmi: Þetta myndi eiga við um nafn eins og Bern, sem er ekki dregið af íslenskum orðstofni og hefur ekki unnið sér hefð í íslensku máli (og er ekki ættarnafn á Íslandi).
- Þeir sem bera ættarnafn mega breyta því í millinafn og þeir sem ekki bera eitthvert tiltekið ættarnafn en eiga rétt á því mega taka það upp sem millinafn. Þeir sem eiga nákominn ættingja (alsystkini, foreldri, afa eða ömmu) sem ber ættarnafn mega taka það upp sem millinafn. Enn fremur er leyfilegt að bera ættarnafn maka sem millinafn.
- Heimilt er að nota eiginnafn foreldris í eignarfalli sem millinafn. Dæmi: Guðrún og Jón mega hvort heldur þau vilja gefa Önnu dóttur sinni nöfnin Anna Guðrúnar Jónsdóttir eða Anna Jóns Guðrúnardóttir.
- Sérstök millinöfn eru ekki skráð í mannanafnaskrá.
Kenninöfn
Kenninöfn eru tvenns konar, föður- eða móðurnöfn og ættarnöfn. Á Íslandi er algengast að menn noti föður- eða móðurnafn, t.d. Jónsson og Jónsdóttir (föðurnafn) eða Margrétarson og Margrétardóttir (móðurnafn). Föður- og móðurnöfn skulu ávallt dregin af eignarfallsmynd eiginnafns foreldris. Dæmi: Sigurðsson eða Sigurðarson (en ekki Sigurðson, með aðeins einu s-i).
Leyfilegt er að nota bæði móður- og föðurnafn. Dæmi: Börn Ólafs og Þorgerðar heita Þorsteinn og Steinunn. Fullt nafn þeirra má þá skrá á eftirfarandi hátt (og enn fremur er leyfilegt að skammstafa fyrra kenninafn af tveimur, eftir sérstökum reglum Þjóðskrár Íslands):
Steinunn Ólafsdóttir, Steinunn Þorgerðardóttir, Steinunn Þorgerðardóttir Ólafsdóttir, Steinunn Ólafsdóttir Þorgerðardóttir.
Þorsteinn Ólafsson, Þorsteinn Þorgerðarson, Þorsteinn Þorgerðarson Ólafsson, Þorsteinn Ólafsson Þorgerðarson.
Þegar kenninafn er myndað af erlendu eiginnafni foreldris má sækja um að kenninafnið verði lagað að íslensku máli, en slík aðlögun er þó engin skylda. Dæmi: Maður heitir Sven (t.d. Sven Þorsteinsson eða Sven Jensen). Hann getur þá sótt um að börn hans fái kenninöfnin Sveinsson og Sveinsdóttir, en einnig er heimilt að börnin séu nefnd Svensson og Svensdóttir (en ekki Svenson og Svendóttir, án eignarfallsendingar í kenninafnsstofninum).
Þeir sem nú bera ættarnöfn mega bera þau áfram, svo og niðjar þeirra. Enginn má taka upp nýtt ættarnafn hér á landi.
Þeir sem eiga rétt á að bera ættarnafn mega bera það til viðbótar því að kenna sig til föður eða móður. Dæmi: Steinunn Þorgerðardóttir Briem. Enn fremur er heimilt að breyta ættarnafninu í millinafn. Dæmi: Steinunn Briem Þorgerðardóttir.
Íslenskur ríkisborgari má ekki taka sér ættarnafn maka síns. Honum er hins vegar heimilt að taka ættarnafn maka síns upp sem millinafn. Dæmi: Steinunn Ólafsdóttir giftist Þorsteini Þorgerðarsyni Briem. Hún má þá taka Briem upp sem millinafn og nefnast Steinunn Briem Ólafsdóttir (en hvorki Steinunn Ólafsdóttir Briem né aðeins Steinunn Briem).
Sérstakar reglur um fólk af erlendum uppruna
Ef annað foreldri barns er eða hefur verið erlendur ríkisborgari má gefa því eitt eiginnafn og/eða millinafn sem er gjaldgengt í heimalandi foreldrisins, jafnvel þótt nafnið eða nöfnin samræmist ekki íslenskum nafnareglum. Barninu verður þó að gefa a.m.k. eitt eiginnafn sem samræmist íslenskum reglum.
Maður sem fær íslenskt ríkisfang má halda nafni sínu óbreyttu. Kjósi hann svo má hann líka taka sér eiginnafn, millinafn og/eða kenninafn sem samræmist íslenskum nafnareglum.
Þeir sem áður hafa fengið íslenskt ríkisfang með því skilyrði að þeir breyttu nafni sínu geta sótt um það til Þjóðskrár Íslands að fá að breyta nafni sínu til fyrra horfs, að hluta eða að öllu leyti. Sama gildir um niðja þeirra.
Erlendur ríkisborgari sem giftist Íslendingi má halda kenninafni sínu eða taka sér kenninafn maka síns, hvort sem um er að ræða ættarnafn eða föður- eða móðurnafn. Honum er enn fremur heimilt að kenna sig til föður eða móður maka síns. Dæmi: Mary Smith giftist Jóni Jónssyni og Anne Baker giftist Pétri Ægissyni Thors. Mary má þá nefna sig Mary Smith, Mary Jónsson eða Mary Jónsdóttir og Anne má nefna sig Anne Baker, Anne Ægisson Thors eða Anne Ægisdóttir. Annað dæmi: John Smith kvænist Maríu Jónsdóttur. Honum er þá heimilt að nefna sig John Smith eða John Jónsson.
Nafnbreytingar
Þjóðskrá Íslands getur við ýmsar aðstæður sem nefndar eru í VI. kafla mannanafnalaga leyft breytingu á eiginnafni, millinafni og/eða kenninafni (t.d. að barn verði kennt til stjúp- eða fósturforeldris). Slíkar breytingar skulu þó aðeins leyfðar einu sinni nema sérstaklega standi á.
Það telst ekki nafnbreyting í eiginlegum skilningi þótt fullorðinn einstaklingur leggi niður kenninafn sem hann hefur borið og taki upp annað kenninafn sem hann á rétt á í þess stað. Ekki er því þörf á sérstöku leyfi til slíkrar nafnritunarbreytingar heldur skal hún tilkynnt Þjóðskrá Íslands. Dæmi: Dóttir Maríu og Guðmundar Karls er nefnd Guðmundsdóttir en má þess í stað nefnast Maríudóttir eða Karlsdóttir.
Sérstöku máli gegnir þó um breytingu á kenninafni barns. Standi svo á að það foreldri barnsins sem það er kennt til sé breytingunni andvígt verður það foreldrið sem sækir um breytinguna að leita eftir leyfi Þjóðskrár Íslands fyrir henni.
Þjóðskrá Íslands getur leyft aðrar breytingar á ritun nafns á þjóðskrá, án þess að um sé að ræða eiginlega nafnbreytingu. Dæmi: Maður getur óskað eftir að fella eitt eða fleiri af nöfnum sínum úr þjóðskrá eða að skammstafa eitt eða fleiri af nöfnum sínum (t.d. millinafn).
Skráning og notkun nafns
Á öllum opinberum skrám og öðrum opinberum gögnum skulu nöfn manna rituð eins og þau eru skráð á þjóðskrá á hverjum tíma.
Í skiptum við opinbera aðila, við samningsgerð, skriflega og munnlega, svo og í öllum lögskiptum skulu menn tjá nafn sitt eins og það er ritað á þjóðskrá á hverjum tíma.
Hvert á fólk að snúa sér ...
með ósk um upplýsingar um nöfn?
- Til mannanafnanefndar.
með ósk um upplýsingar um mannanafnalögin?
- Yfirleitt til mannanafnanefndar en stundum er þó nauðsynlegt að snúa sér til dómsmálaráðuneytisins eða Þjóðskrár Íslands.
með ósk um upplýsingar um skráningu á nöfnum?
- Yfirleitt til Þjóðskrár Íslands, í síma 515 5300.
með ósk um að fá að gefa sérstakt millinafn?
- Yfirleitt er nóg að tilkynna slíka nafngjöf til Þjóðskrár Íslands.
með ósk um að fá að nota tiltekið kenninafn?
- Feli ósk í sér beiðni um eiginlega kenninafnsbreytingu, t.d. að barn verði kennt til stjúpforeldris, skal viðkomandi snúa sér til Þjóðskrár Íslands. Beiðni um notkun á kenninafni sem viðkomandi á rétt til skal ennfremur beina til Þjóðskrár Íslands. Óski foreldrar t.d. eftir því að barn þeirra beri ættarnafn sem það á rétt á er slík ósk tilkynnt Þjóðskrá Íslands annað hvort með nafngjafartilkynningu eða skýrslu frá þjóðkirkjunni, skráðu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi.
með ósk um að fá nafn skráð á mannanafnaskrá?
- Til mannanafnanefndar. Fylla þarf út þar til gert eyðublað og afhenda Þjóðskrá Íslands beiðnina.
Gjald fyrir beiðni til mannanafnanefndar um að setja nýtt nafn á mannanafnaskrá er 4.300 kr. Gjaldið greiðist hjá Þjóðskrá Íslands við innlagningu beiðnarinnar sem framsendir hana mannanafnanefnd.
með ósk um eiginlega nafnbreytingu?
- Til Þjóðskrár Íslands. Fylla þarf út þar til gert eyðublað á vefnum www.skra.is.
með ósk um breytta ritun nafns?
- Til Þjóðskrár Íslands. Fylla þarf út þar til gert eyðublað á vefnum www.skra.is.
Sjá einnig:
Lög og meginreglur
Mannanafnanefnd
Gagnlegir tenglar
Persónuréttur
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.