Hoppa yfir valmynd

Reglur um opinberar framkvæmdir

1. gr.

Reglur þessar gilda um skilamat vegna framkvæmda samkvæmt lögum nr. 84/2001 um skipan opinberra framkvæmda og reglugerð um skipulag opinberra framkvæmda frá 21. september 2001.

2. gr.

Að lokinni verklegri framkvæmd og úttekt á henni skal Framkvæmdasýsla ríkisins láta fara fram skilamat þar sem fram kemur hvernig framkvæmd hefur tekist miðað við áætlun ásamt samanburði við hliðstæðar framkvæmdir sé þess kostur.

Skilamat skal gefið út án tafar og skal við það miðað að það liggi fyrir eigi síðar en 6 mánuðum frá verklokum.

3. gr.

Sé framkvæmd skipt í fleiri en einn sjálfstæðan áfanga sem teknir eru í notkun hver á eftir öðrum skal gera skilamat fyrir hvern þeirra um sig.

Hafi framkvæmd legið niðri í eitt ár eða lengur vegna þess að fé hefur ekki verið veitt til hennar á fjárlögum eða vegna annarra orsaka skal gera sérstakt skilamat um þann hluta sem lokið er.

Við minniháttar verk eða framkvæmdir sem hafa lítið samanburðar- eða upplýsingagildi er heimilt að einfalda umfjöllun í skilamati.

4. gr.

Skilamat skiptist í eftirfarandi meginkafla:
1. Undirbúningur
Gera skal almenna lýsingu í hverju framkvæmd felst, hver sé verkkaupi, helstur stærðir, og lýsing á þeim kostum sem athugaðir voru við frumathugun. Tilgreina skal ráðgjafa sem unnu að áætlunargerð, ásamt upplýsingum um stofn- og rekstrarkostnað samkvæmt áætluninni. Geta skal þess hvenær fjármálaráðuneyti heimilaði áætlunargerð og verklega framkvæmd.

2. Verkleg framkvæmd
Gera skal grein fyrir útboði framkvæmdarinnar, samningum við verktaka og framvindu verksins. Gerð skal grein fyrir helstu breytingum sem verða á verkinu frá áætlunargerð. Hafi tafabótum eða öðrum viðurlögum verið beitt skal það sérstaklega tekið fram. Gera skal grein fyrir tilhögun framkvæmdaeftirlits.

3. Reikningslegt uppgjör
Gera skal grein fyrir þeim fjárveitingum sem veittar eru til framkvæmdarinnar ásamt raunkostnaði hennar. Bera skal saman áætlanir og raunkostnað og skýra frávik.

4. Samantekt og niðurstöður.
Í samantekt skal lagt heildarmat á það hvernig framkvæmd tókst til. Bera skal saman kostnað framkvæmdarinnar við aðrar hliðstæðar framkvæmdir. Við samanburð kostnaðar skal annars vegar halda aðgreindum öllum þeim kostnaði sem fellur á verkið á undirbúnings- og framkvæmdatíma og hins vegar kostnaði vegna búnaðar og annars sem nauðsynlegt er til að hefja notkun mannvirkis. Fjárhæðir skulu tilgreinar bæði á verðlagi hvers árs og uppreiknuðu verðlagi.

5. gr.

Framkvæmdasýsla ríkisins tekur saman reynslutölur úr skilamötum sem hafa skal aðgengilegar fyrir þá sem vinna að undirbúningi opinberra framkvæmda.

6. gr.

Reglur þessar eru settar samkvæmt 16. gr. laga nr. 84/2001 um skipan opinberra framkvæmda og öðlast þegar gildi.

 

Reykjavík, 21. september 2001

 

f.h. Framkvæmdasýslu ríkisins.
Óskar Valdimarsson

 

Ofangreindar reglur staðfestast hér með
af fjármálaráðuneytinu

Reykjavík, 21. september 2001.

f.h.r.
Baldur Guðlaugsson
Síðast uppfært: 5.6.2018 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta