Hoppa yfir valmynd

Verklagsreglur um tilhögun frumathugunar, áætlunargerðar og verklegar framkvæmdir við opinberar framkvæmdir

1. Frumathugun

 Frumathugun er fyrsti áfangi opinberrar framkvæmdar. Á því stigi fær verkefnið sem tekið hefur verið til skoðunar efnislega meðferð og könnun með það að markmiði að leiða í ljós þörf, umfang og helstu forsendur þess. Í könnuninni eru dregnir fram þeir kostir sem koma til greina við lausn verkefnisins, hagkvæmni þeirra er metin og gerð er rökstudd tillaga um eina ákveðna lausn. Sú tillaga er að því búnu tekin til nánari skoðunar og lýkur með heildstæðri greinargerð um lausn verkefnisins á grundvelli hennar. Hún getur t.d. falist í kaupum eða leigu á mannvirki fyrir starfsemina, lagt sé til að farið verði í byggingu mannvirkis eða að verkefnið verði leyst með einhverjum öðrum hætti. Með greinargerðinni skal fylgja áreiðanleg áætlun um kostnað þar sem gerð er grein fyrir vikmörkum.

Útfærsla frumathugunar fer nokkuð eftir því verkefni sem um ræðir en almennt inniheldur hún tvo meginþætti.
  • Forathugun
  • Frumáætlun
Fara skal skilmerkilega í gegnum þessa tvo þætti frumathugunarinnar og skal forathugun ljúka með ákveðinni niðurstöðu áður en ráðist er í frumáætlun. Í báðum meginþáttunum felast undirþættir og getur vægi þeirra verið misjafnt eftir verkefnum en þeim skal öllum sinnt eins og kostur er.

Hlutaðeigandi ráðuneyti sér um gerð frumathugunar í samræmi við þær reglur sem um hana gilda. Ráðuneytið getur falið öðrum að vinna að gerð frumathugunar, en ber allt að einu ábyrgð á henni og framlagningu hennar.

1b.1 Forathugun

1.1.1. Lýsing verkefnis
Verkefninu er lýst og ítarleg rök færð fyrir ástæðum þess að ráðast skuli í það. Gerð er grein fyrir þeim markmiðum sem ætlað er að ná með verkefninu og þau sett í samhengi við þróunaráætlun viðkomandi málaflokks og eftir atvikum stærri uppbyggingaráform viðkomandi starfsemi.

1.1.2. Hagsmunaaðilar
Gerð er grein fyrir hverjum verkefnið á að þjóna, hverjir verði notendur og hvaða hagsmunaaðilar og opinberir aðilar komi til með að standa að því.

1.1.3. Þarfagreining - húsrýmisáætlun
Gerð er grein fyrir eðli og umfangi verkefnisins og sú þörf skilgreind sem ætlunin er að leysa með því. Almennt skal miða við þróun starfseminnar 5-10 ár fram í tímann, en jafnframt hugað að lengri framtíð eftir því sem aðstæður leyfa. Þegar þessar forsendur liggja fyrir skal efna til samráðs við notendur mannvirkis á grundvelli þeirra en mikilvægt er að sjónarmið notenda komist til skila á þessu stigi. Við mat á rýmisþörf starfseminnar skal taka tillit til þeirra viðmiða sem sett verða fyrir almenna og sértæka notkun húsnæðis á vegum ríkisins ásamt reynslu af gerð sambærilegra mannvirkja.

1.1.4. Skoðun lausna
Tekið er saman yfirlit yfir þá valkosti sem koma til álita við lausn þarfanna og hverjir séu helstu kostir þeirra og gallar. Notagildi hverrar lausnar og tengsl þeirra við aðra þætti málsins er skoðað og borið saman. Færð eru ítarleg fagleg rök fyrir mismunandi valkostum með tilliti til kosta og galla.

1.1.5. Mat á stofn- og rekstrarkostnaði lausna
Framkvæmt er gróft mat á stofnkostnaði þeirra lausna sem koma til álita. Í áætluninni skal eftir því sem við á gera grein fyrir framkvæmdakostnaði, lóðarverði, tengikostnaði, kostnaði við hönnun, umsjón og eftirlit ásamt kostnaði við innréttingar, listskreytingar og búnað. Áætlun skal gerð á grundvelli reynslutalna.

Einnig skal taka saman áætlun um rekstrarkostnað mismunandi lausna bæði að því er varðar húsnæði og kostnað vegna breytinga á rekstrarumhverfi starfseminnar. Í rekstraráætluninni skal gera samanburð á núverandi rekstrarkostnaði starfseminnar við rekstrarkostnað hennar eftir að mannvirkið hefur verið tekið í notkun.

1.1.6. Mat á hagkvæmni lausna
Bornar eru saman þær lausnir sem til greina koma og mat er lagt á hagkvæmni þeirra. Leitast skal við að bera saman ólíkar lausnir á hlutlægum grunni. Til viðbótar þarf að skoða aðra þætti er haft geta áhrif.

1.1.7. Niðurstaða og afgreiðsla
Á grundvelli samanburðar um valkosti skal gera tillögu að lausn og rökstyðja hana á einfaldan og skýran hátt. Hlutaðeigandi ráðuneyti tekur niðurstöðu forathugunar til umfjöllunar, ef annar aðili hefur séð um gerð hennar, yfirfer forsendur hennar og tekur afstöðu til framhalds málsins á grundvelli hennar.

1.2 Frumáætlun

1.2.1. Forsendur lausnar
Á grundvelli niðurstöðu forathugunar og ákvörðunar hlutaðeigandi ráðuneytis liggur á þessu stigi fyrir ákveðin tillaga að lausn á verkefninu.

Á þessu stigi skal setja fram skýrar forsendur varðandi gerð og gæði mannvirkis að því er varðar efnisval og byggingaraðferðir, ásamt kröfum um endingu og kostnað að því marki sem við getur átt. Þegar um nýframkvæmd er að ræða skal setja fram megindrög að hönnunarforsendum mannvirkis ásamt því að huga að lóð, skipulagi og öðrum atriðum sem talin eru skipta máli.

Sé niðurstaða forathugunar á þá leið að mælt er með kaupum eða leigu á mannvirki getur hlutaðeigandi ráðuneyti óskað eftir því við fjármálaráðuneytið að auglýst verði eftir hentugu húsnæði. Samanburður og mat á framkomnum tilboðum er þá hluti af frumáætluninni. Leiði slíkt mat til þess að ákveðin lausn er talin henta fyrir starfsemina skal miðað við þá tilteknu lausn til loka frumáætlunar.

1.2.2. Frumuppdrættir
Gera skal frumuppdrætti eða skissur að fyrirkomulagi mannvirkis í smáum mælikvarða ef nauðsyn er talin á til að átta sig á stærð, samhengi og innbyrðis tengslum starfseminnar ásamt aðgengi og fyrirkomulagi lóðar. Tilgangur uppdrátta er ekki að hafa mótandi áhrif á gerð mannvirkis heldur veita yfirsýn yfir fyrirkomulag mannvirkisins, t.d. með hliðsjón af skipulagsforsendum ákveðinnar lóðar.

1.2.3. Áætlanir
Yfirfara skal og aðlaga kostnaðaráætlun og rekstraráætlun sem gerðar hafa verið miðað við þær forsendur sem lagðar hafa verið við afgreiðslu forathugunarinnar hjá ráðuneyti.

Gera skal tímaáætlun þar sem gert er ráð fyrir eðlilegum tíma til áætlunargerðar og verklegrar framkvæmdar. Einnig skal gera lauslega greiðsluáætlun vegna framkvæmdanna sem tekur mið af tímaáætluninni.

1.2.4. Niðurstaða
Frumathugun lýkur með vandaðri greinargerð um þá lausn sem ákvörðun hefur verið tekin um.

Niðurstaða frumathugunarinnar er grundvöllur að næsta stigi opinberrar framkvæmdar sem er áætlunargerðin. Þess skal gætt að allar forsendur og ákvarðanir í frumathugun séu settar fram á skýran og skilmerkilegan hátt þannig að unnt sé að tengja saman og vinna úr þeim á síðari stigum framkvæmdarinnar.

Samningar við hönnuði og aðra ráðgjafa á síðari stigum skulu byggjast á samþykktri frumathugun. Forsendur frumathugunar skulu jafnframt vera hluti samkeppnisgagna ef ákveðið er að efna til hönnunarsamkeppni um verk.

1.2.5. Afgreiðsla
Hlutaðeigandi ráðuneyti yfirfer niðurstöður frumathugunar og greinargerðar með henni og ef það fellst á forsendur hennar sendir það frumathugunina til fjármálaráðuneytis til meðferðar. Henni telst lokið þegar samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir hefur yfirfarið hvort hún uppfylli skilyrði laga og reglugerðar og fjármálaráðuneyti hefur formlega fallist á hana.

2. Áætlunargerð

Áætlunargerð sem oft er nefnt hönnunarstigið, er annar áfangi opinberrar framkvæmdar. Eftir að frumathugun er formlega lokið getur fullnaðarhönnun mannvirkisins á grundvelli hennar farið fram. Markmið áætlunargerðar er að fyrir liggi nákvæmar forsendur fyrir gerð mannvirkis áður en verkleg framkvæmd hefst.

Í samræmi við útboðsstefnu ríkisins ber að bjóða út öll stærri hönnunarverkefni, sbr. lög um opinber innkaup nr. 94/2001. Leitast skal við að velja hönnuði á grundvelli verðs og gæða t.d. með hönnunarsamkeppni. Varðandi nánari upplýsingar um val og kaup á ráðgjöf vísast til ritsins "Kaup á ráðgjöf " útgefnu af fjármálaráðuneytinu.

Hafi niðurstaða frumathugunar verið á þá leið að kaupa húsnæði eða taka á leigu húsnæði og húsnæðið sem varð fyrir valinu telst ekki fullbúið og ljóst er að beinn kostnaður sem fellur á leigjanda vegna þess er hærri en sem nemur viðmiðunarfjárhæð laga um skipan opinberra framkvæmda, skal fara fram áætlunargerð og verkleg framkvæmd eins og um aðrar opinberar framkvæmdir.

Áætlunargerð skiptist í eftirtalda fjóra meginþætti:
  • Frumhönnun
  • Verkhönnun
  • Útboðsgögn
  • Áætlanir og afgreiðsla
Hér á eftir er lýst ferli áætlunargerðar fyrir byggingu mannvirkis. Fyrir endurbætur eða endurnýjun mannvirkis eða við gerð óhefðbundinna mannvirkja kann að vera nauðsynlegt að aðlaga ferlið að viðkomandi verkefni eftir því sem við á. Í sumum tilvikum getur þurft að huga að öðrum þáttum svo sem umhverfi, mengun, öryggi og áhættu og hafa frumkvæði að könnunum og rannsóknum sem nauðsynlegar eru í slíkum verkefnum.

Hlutaðeigandi ráðuneyti sér um áætlunargerðina í samræmi við þær reglur sem um hana gilda. Ráðuneytið getur falið öðrum að vinna að áætlunargerðinni, en ber allt að einu ábyrgð á henni og framlagningu hennar. Ráðuneytið nýtur aðstoðar Framkvæmdasýslu ríkisins við samningsgerð við þá hönnuði og ráðgjafa sem vinna að áætlunargerðinni fyrir ráðuneytið.

2.1 Frumhönnun

2.1.1. Val á ráðgjöfum
Fyrsta skrefið í áætlunargerðinni er val og ráðning ráðgjafa svo sem verkefnisstjóra og hönnuða. Það getur átt sér stað með útboði, hönnunarsamkeppni, hæfnisvali eða annarri viðurkenndri aðferð. Hönnunarsamkeppni nær almennt til frumhönnunar og gerðar kostnaðaráætlana.

Hlutaðeigandi ráðuneyti eða sá aðili sem ráðuneytið felur að vinna að áætlunargerðinni hefur samráð við Framkvæmdasýslu ríkisins um tilhögun hennar að því er varðar val á ráðgjöfum og samræmingu á samningum við ráðgjafa.

Í slíkum samningi skal m.a. taka á atriðum er varða:
  • Skilgreiningu verkefnis ráðgjafa
  • Tilgreiningu hönnunarstjóra og samræmingaraðila
  • Tilgreiningu samningsskjala
  • Samningsgreiðslur og hvað sé innifalið í þeim
  • Greiðslufyrirkomulag
  • Kostnaðargát
  • Tímasetningar
  • Ábyrgð ráðgjafa og tryggingar
  • Frávik frá ÍST 35 ef um slíkt er að ræða

Við samningsgerð skal miða við að samningsgreiðslur taki til allrar vinnu ráðgjafa út verktímann, þar með talda ráðgjöf á framkvæmdatíma, gerð reyndarteikninga og þátttöku í úttektum. Við afmörkun verkefnis skal setja það skilyrði, að hönnun verksins sé innan ramma frumathugunar. Í samningum skal taka á réttindum og skyldum samningsaðila, ábyrgð og höfundarrétti og gera nákvæmt skipurit fyrir verkefni, þar sem fram kemur hver annast stjórn verkefnis fyrir hönd verkkaupa.

2.1.2. Frumhönnun
Við frumhönnun er mannvirkið skilgreint nánar frá frumathugun. Afstöðumynd skal sýna legu þess í umhverfinu og grunnmyndir sýna stærð og skipulag. Útlitsmyndir og sneiðingar eru gerðar í smáum mælikvarða. Verkfræðiráðgjafar vinna frumhönnun á grundvelli arkitektateikninga og lýsinga. Gerð eru frumdrög burðarkerfa, lagnakerfa og sérkerfa og lagðar eru fram nánari hönnunarforsendur byggðar á forsendum frumathugunarinnar.

Við undirbúning stórra áfangaskiptra verkefna skal gera frumhönnun fyrir verkefni í heild og skilgreina áfangaskipti eftir því sem við á.

2.1.3. Kostnaðaráætlun
Að lokinni frumhönnun skal gera heildarkostnaðaráætlun fyrir framkvæmdina og bera slíka áætlun saman við kostnaðaráætlun frumathugunar.

2.1.4. Rýni frumhönnunar
Notendur eða fulltrúar þeirra skulu yfirfara frumhönnun til þess að tryggt sé að framlag þeirra frá hugmyndastigi og þarfagreiningu hafi komist til skila. Að því loknu skal hönnunarhópurinn rýna frumhönnun. Í því felst m.a. að rýna megindrætti byggingar, hönnunarforsendur og áform hönnuða svo og áreiðanleika kostnaðaráætlana. Jafnframt skal fara fram samanburður á frumhönnun og niðurstöðum frumathugunar til að tryggt sé að frumhönnun hafi verið unnin á grundvelli hennar. Við hönnunarsamkeppni getur í dómnefndarstarfi m.a. falist rýni á frumhönnun.

2.2 Verkhönnun

2.2.1. Byggingarnefndarteikningar
Arkitekt gerir aðalteikningar sem leggja skal fyrir byggingarnefnd ásamt því að gera uppdrætti af brunahönnun byggingar. Verkfræðiráðgjafar gera burðarþolsteikningar, lagnateikningar, raflagnateikningar og teikningar af öðrum sérhæfðum tæknikerfum. Samkvæmt byggingarreglugerð ber arkitekt ábyrgð á samræmingu hönnunar.

2.2.2. Vinnuteikningar
Arkitektar, verkfræðiráðgjafar og aðrir sérfræðiráðgjafar gera vinnuteikningar af mannvirki. Þar skulu koma fram þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til þess að ljúka megi mannvirkinu að fullu með föstum innréttingum.

2.2.3. Deilihönnun
Í sumum verkefnum á sér stað deilihönnun eða gerð smíðateikninga. Í ýmsum verkefnaflokkum er slík vinna eðlilega innifalin í starfi verktaka og stundum er um að ræða samvinnu hönnuða og verktaka til dæmis við gerð handbóka og rekstrarleiðbeininga fyrir flókin tæknikerfi.

Í útboðsgögnum skal ekki gera kröfur til verktaka um þátttöku í almennri hönnun nema að fyrir liggi samþykki ráðuneytis og Framkvæmdasýslu ríkisins. Megintilgangur þess er að koma í veg fyrir að hönnun og ábyrgð á hönnun sé færð yfir á verktaka.

2.2.4. Framkvæmdakostnaðaráætlun
Á grundvelli verklýsinga og tilboðsskráa áætla hönnuðir kostnað við útboðsáfanga. Þessa áætlun sem nefnd er framkvæmdakostnaðaráætlun og er án reiknaðrar óvissu, skulu hönnuðir leggja fram áður en gengið er frá útboðsgögnum. Framkvæmdakostnaðaráætlunin skal almennt byggð á reynslutölum. Þess skal getið sérstaklega ef áætlun er byggð á öðrum grunni (markaðsspá).

Hönnuðir skulu rýna kostnaðaráætlun sína og bera saman við kostnaðarbanka Framkvæmdasýslu ríkisins sé slíkur samanburður raunhæfur. Einnig skal gera samanburður við kostnaðaráætlun frumathugunar.

2.3 Útboðsgögn

2.3.1. Verklýsingar og tilboðsskrá
Hönnuðir skulu gera verklýsingar fyrir þá þætti framkvæmdar sem til stendur að ljúka í hverjum útboðsáfanga. Þær skulu vera svo nákvæmar að ekki leiki vafi á því hvaða kröfur eru gerðar til byggingarhluta eða verkþátta. Hönnuðir útbúa tilboðsskrá sem vísar til viðkomandi verkliða í verklýsingu. Leggja skal áherslu á að magntölur séu nákvæmar.

2.3.2. Útboðslýsing
Fyrir hvern útboðsáfanga skal gera útboðslýsingu sem inniheldur útboðsskilmála og lýsingu á framkvæmdaáformum verkkaupa. Framkvæmdasýsla ríkisins leggur til útboðsskilmála en hönnuðir sjá um frágang þeirra og aðlögun að verki.

2.3.3. Teikningar
Hönnuðir ganga frá teikningum sínum og sjá til þess að tilvísanir í verklýsingu séu nákvæmar og samræmdar.

2.3.4. Greinargerð um hönnun
Þegar hönnuðir leggja fram endanleg útboðsgögn skal fylgja greinargerð sem lýsir ferli hönnunar. Í greinargerðinni skal gera grein fyrir forsendum bæði kostnaðar- og tímaáætlunar og breytingar eða frávik sem gerðar hafa verið frá frumathugun og ástæðum þeirra.

2.4 Áætlanir og afgreiðsla

2.4.1. Heildarkostnaðaráætlun
Á grundvelli framkvæmdakostnaðaráætlunar gerir hlutaðeigandi ráðuneyti eða lætur gera heildarkostnaðaráætlun fyrir framkvæmdina. Hún skal innihalda allan kostnað sem fellur á verkið á undirbúnings- og framkvæmdartíma, ásamt kostnaði vegna búnaðar og annars sem nauðsynlegt er til að hefja notkun mannvirkis. Við áætlaðan framkvæmdakostnað skal bæta skilgreindu álagi fyrir óvissu um magntölur og fyrir ófyrirséða kostnaðarþætti. Aðrir kostnaðarliðir eru t.d. kostnaður við hönnun, eftirlit og umsjón, lóðargjöld, tengigjöld, tryggingar og kostnaður við listskreytingar og búnað. Oft er það hönnunarstjóri eða verkefnisstjóri sem útbýr þessa áætlun fyrir hlutaðeigandi ráðuneyti.

2.4.2. Rekstraráætlun
Gera skal nákvæma rekstraráætlun til minnst fimm ára eftir að framkvæmd lýkur. Í rekstraráætluninni skal felast samanburður á núverandi rekstrarkostnaði starfseminnar og áætluðum rekstrarkostnaði hennar eftir að mannvirkið er komið í notkun og gerð grein fyrir mismun.

2.4.3. Fjárhags- og tímaáætlun
Á grundvelli heildarkostnaðaráætlunar er tímaáætlun fyrir framkvæmdina endurskoðuð. Á grundvelli áfallins og áætlaðs kostnaðar skal gera grein fyrir fjárhag verkefnis. Skipta skal fjárþörf verkefnisins á tímabil framkvæmdatímans að teknu tilliti til spár um verðlagsþróun. Gerð er tillaga um árlegar fjárveitingar.

2.4.4. Afgreiðsla
Þegar hlutaðeigandi ráðuneyti hefur lokið áætlunargerð er hún send fjármálaráðuneyti til athugunar. Teljist hún uppfylla tæknileg og fjárhagsleg skilyrði og fjármálaráðuneytið fellst á hana eru teknar ákvarðanir um framhald verksins á grundvelli hennar.

2.4.5. Samþykktarferli
Fjármálaráðuneyti sendir Framkvæmdasýslu ríkisins útboðsgögn til yfirferðar. Geri stofnunin athugasemdir við útboðsgögnin eru þau send viðkomandi fagráðuneyti sem kemur athugasemdunum áfram til hönnuða. Að loknum lagfæringum á útboðsgögnunum sendir Framkvæmdasýsla ríkisins fjármálaráðuneyti umsögn um áætlunargerðina. Fjármálaráðuneytið afgreiðir síðan erindið í samráði við samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir.

3. Verkleg framkvæmd

Verkleg framkvæmd er þriðji áfangi opinberrar framkvæmdar. Þessi áfangi er hin eiginlega bygging eða smíði mannvirkis og þar fellur til megnið af kostnaði. Verkleg framkvæmd inniheldur eftir atvikum eftirtalda fimm meginþætti.

  • Undirbúning
  • Útboð
  • Framkvæmd
  • Eftirlit
  • Afhendingu

Framkvæmdasýsla ríkisins stýrir verklegri framkvæmd og ber á henni ábyrgð. Hún ber jafnframt ábyrgð á framkvæmdaeftirliti á verktímanum.

3.1 Undirbúningur

3.1.1. Samningur milli aðila
Hlutaðeigandi ráðuneyti og Framkvæmdasýsla ríkisins skulu gera með sér skriflegan samning um verkið. Í samningi þessum skal meðal annars kveða á um skipulag, boðleiðir, samskipti, upplýsingagjöf og aðrar skyldur samningsaðila.

3.1.2. Verkefni Framkvæmdasýslu ríkisins
Framkvæmdasýsla ríkisins sér um útboð, annast gerð samnings við verktaka, ræður eftirlitsaðila og ber ábyrgð á störfum hans og tekur ákvarðanir um verkið innan ramma samnings milli verktaka og hlutaðeigandi ráðuneytis og samnings Framkvæmdasýslu ríkisins við ráðuneytið.

Framkvæmdasýsla ríkisins kallar til sérfræðiráðgjafa um tæknileg og lögfræðileg málefni eftir þörfum, veitir viðtöku hugsanlegum kærum og annast bókhald verkefnis og fjárreiður. Hún sér til þess að faglega sé unnið að öllum þáttum verklegrar framkvæmdar og að hún sé innan þess fjárhagsramma sem markaður hefur verið á fyrri stigum.

Framkvæmdasýsla ríkisins sér um að reglulega berist hlutaðeigandi ráðuneyti ítarlegar upplýsingar á samræmdu formi um framvindu verksins og fjárhagsstöðu þess. Í þessum upplýsingum skal gera skýra grein fyrir stöðu verks miðað við áætlanir og fjárhag, þ.m.t. áætlun um fyrirsjáanlegan heildarkostnað, ásamt því að meta horfur á því hvort verkið haldist innan áætlunar við verklok.

3.1.3. Verkefnisstjórn
Framkvæmdasýsla ríkisins felur sérstökum verkefnisstjóra að annast stjórn verkefnis. Hann vinnur að því í samræmi við fyrirmæli laga og reglna um framkvæmda- og byggingarmál, samninga við hlutaðeigandi ráðuneyti og fyrirliggjandi áætlana.

3.2 Útboð

3.2.1. Útboð
Bjóða ber út opinbera framkvæmd fari fjárhæð hennar yfir 10 m.kr. auk virðisaukaskatts, sbr. lög um opinber innkaup nr. 94/2001. Ráðuneyti hefur frumkvæði að útboði framkvæmda en Framkvæmdasýsla ríkisins er umsjónaraðili útboðs. Útboð fara fram á vegum Ríkiskaupa sem sjá um að farið sé að lögum og reglum sem um þau gilda.

3.2.2. Val á verktaka og samningsgerð
Á grundvelli niðurstöðu útboðs gerir Framkvæmdasýsla ríkisins tillögu um val á verktaka. Hlutaðeigandi ráðuneyti velur verktakann og undirritar við hann verksamning gerðan á þeim grunni sem mælt er fyrir um í útboðsgögnum um gæði framkvæmdar, umfang hennar og skil ásamt öðrum skyldum verktaka.

3.3 Framkvæmd

3.3.1. Verkleg framkvæmd
Markmið við verklega framkvæmd er að verkkaupi fái í hendur á umsömdum tíma, innan ramma kostnaðaráætlunar og af tilskildum gæðum það mannvirki sem útboðsgögn lýsa. Stefnt er að því að áskildum gæðum sé náð m.a. með kröfum um gæðakerfi hjá verktökum.

3.3.2. Breytingar á verktíma
Breytingar á verklegri framkvæmd á framkvæmdatíma skulu ekki eiga sér stað nema brýna nauðsyn beri til. Slíkar breytingar skulu einungis gerðar samkvæmt ákvörðun hlutaðeigandi ráðuneytis og skulu fara eftir þeirri boðleið sem skilgreind var við upphaf framkvæmdar og tilgreind er í samningi ráðuneytis og Framkvæmdasýslu ríkisins.

3.4 Eftirlit

3.4.1. Ráðning eftirlitsaðila
Framkvæmdasýsla ríkisins annast og ber ábyrgð á eftirliti með verklegri framkvæmd. Stofnuninni er heimilt að ráða eftirlitsaðila að verkefninu og gera við hann skriflegan samning sem byggir á útboðsgögnum.

3.4.2. Hlutverk eftirlitsaðila
Markmið eftirlits er að tryggja að verkkaupi fái í hendur á umsömdum tíma, innan ramma kostnaðaráætlunar og af tilskildum gæðum það mannvirki sem útboðsgögn lýsa. Stefnt er að því að tryggja gæði eftirlits m.a. með kröfum um gæðakerfi hjá eftirlitsaðilum.

Hlutverk eftirlitsaðila er tæknilegt eftirlit við verklega framkvæmd og almenn hagsmunagæsla fyrir verkkaupa. Hann sér til þess að verktaki uppfylli skyldur samkvæmt verksamningi og útboðsgögnum ásamt því að fylgjast með því að mannvirkið sé af tilskildum gæðum. Hann samþykkir greiðslur til verktaka í samræmi við verkframvindu, hefur umsjón með þeim breytingum á framkvæmdinni sem verkkaupi óskar eftir eða samþykkir og sér til þess að slíkar breytingar fái staðfestingu verkefnisstjóra og hönnunargögn séu afhent verktaka. Hann annast úttektir verkþátta, verkáfanga og verksins alls í verklok. Hann ritar framvinduskýrslur mánaðarlega og verklokaskýrslu við lok framkvæmdar.

Framkvæmdasýsla ríkisins setur fram ítarlegar leiðbeiningar fyrir eftirlitsaðila sem eru hluti samninga við eftirlitsaðila.

3.5 Afhending

3.5.1. Verklok og afhending
Fyrir verklok afhendir verktaki gögn um framkvæmdina í samræmi við kröfur útboðsgagna svo sem teikningar, rekstrarleiðbeiningar og handbækur. Eftirlitsaðili undirbýr uppgjör við verktaka og sér um lokaúttekt en Framkvæmdasýsla ríkisins gengur frá fjárhagslegu og formlegu uppgjöri. Að því loknu afhendir verktaki verkkaupa mannvirkið, en verkkaupi kemur rekstri þess í þær skorður sem við á hvað varðar umsjón, gæslu, þrif, orkukaup, tryggingar og viðhald.

3.5.2. Ábyrgðartími
Ábyrgðartími er eitt ár frá lokaúttekt. Verði notandi eða verkkaupi varir við einhverja galla á framkvæmd skulu þeir koma þeirri vitneskju til Framkvæmdasýslu ríkisins sem sér um að verktaki lagfæri slíka galla. Við lok ábyrgðartíma annast eftirlitsaðili ábyrgðarúttekt og framkvæmdatrygging er felld niður.


Verklagsreglur þessar sem settar eru á grundvelli reglugerðar nr. 715/2001 um skipulag opinberra framkvæmda öðlast þegar gildi.

Fjármálaráðuneytinu, 27. maí 2002

 

Baldur Guðlaugsson
_______________
Þórhallur Arason

 

Síðast uppfært: 23.5.2017
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta