Hoppa yfir valmynd

Úrvinnsla og uppgjör eigna og skulda ÍL-sjóðs

ÍL-sjóður varð til við uppskiptingu Íbúðalánasjóðs og var stofnaður með lögum nr. 151/2019 sem tóku gildi 31. desember 2019. Fjármála- og efnahagsráðherra fer nú með yfirstjórn ÍL-sjóðs og hefur yfirumsjón með úrvinnslu og uppgjöri eigna og skulda sem ÍL-sjóður tók við í uppskiptingunni og er þar um að ræða útgefnar skuldir sjóðsins, eldra útlánasafn auk verðbréfa- og innlánasafns.
Markmið uppgjörs og úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs er að lágmarka áhættu og kostnað ríkissjóðs vegna uppsafnaðs fjárhagsvanda Íbúðalánasjóðs sem tilkominn er vegna uppgreiðslna á útlánum sjóðsins sem ekki er hægt að nýta til að greiða niður skuldir nema kaupa þær á markaði. Vegna þessa hefur uppgreiðslum verið ráðstafað í skuldabréf og innlán sem við uppskipti námu tæpum helmingi af heildareignum sjóðsins.   

Ráðherra skipaði verkefnisstjórn um miðjan mars 2022 sem er ætlað að vera til ráðgjafar um úrvinnslu eignasafns ÍL-sjóðs. Hana skipa Steinþór Pálsson, Arnar Bjarnason og Lúðvík Örn Steinarsson.

Tengiliður fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna verkefnisins er Katrín Oddsdóttir.

Spurt og svarað

Allir eigendur HFF bréfa eiga rétt á að mæta á fundinn og kjósa um tillöguna. Til þess þurfa þeir að fá staðfestingu á eign sinn í HFF bréfum frá vörsluaðila bréfanna (bankanum sínum) a.m.k. 48 klukkustundum fyrir fund. Vörsluaðilar senda ÍL-sjóði yfirlit yfir allar staðfestingar sem þeir hafa gefið út 24 tímum fyrir fund. Til að vera öruggur um að allt gangi eftir er mælt með að hafa samband við vörsluaðila með góðum fyrirvara. Það er líka hægt að senda umboðsmann á fundinn til að kjósa fyrir hönd eigenda bréfanna.
Fyrir fundinum liggur tillaga að skilmálabreytingu HFF bréfa. Ef tillagan verður samþykkt felur það í sér að ÍL-sjóður hefur heimild til að gera upp HFF bréfin með því að afhenda eigendum þeirra aðrar eignir í staðin. Allir eigendur fá þá gerð upp HFF bréfin þar sem virðismat bréfanna og þeirra eigna sem koma í staðin er jafnt á viðmiðunardegi þann 7. mars 2025. Þannig er jafnræði á milli allra eigenda skuldabréfanna.
Tillagan felur í sér ólíkt uppgjör eftir því hvort eigendur HFF bréfa eiga yfir eða undir viðmiðunarfjárhæð sem er gert ráð fyrir að verði um 1.200 m.kr. Þar er horft til þess að einungis fag- eða stofnanafjárfestar eiga meira en 1.200 m.kr. Uppgjör þeirra felur í sér að þeir taka við fleiri auðkennum (tegundum skuldabréfa) m.a. skuldabréf sem einungis eru ætluð fagfjárfestum og eru gefin út í stórum einingum sem ekki er hægt að skipta í smærri einingar, auk gjaldeyris. Uppgjör við stærri eigendur er því flóknara en við minni eigendur.
Eigendur HFF bréfa geta nálgast upplýsingar um nafnverðseiningar sínar í yfirlitum frá vörsluaðilum. Kröfuvirði fæst með því að margfalda uppgefið gengi í tillögunni við nafnverðseiningar. Fyrir HFF34 er gengið 1,2241 og fyrir HFF44 er gengið 1,9103. Til dæmis á eigandi sem á 500.000 nafnverðseiningar af HFF34 kröfu að fjárhæð 612.050 kr. og eigandi sem á 500.000 nafnverðseiningar af HFF44 á kröfu að fjárhæð 955.150 kr.

Tillagan felur í sér að hluti af eignum ÍL-sjóðs (skuldabréf á ýmsa aðila) eru afhentur til uppgjörs. Vegna eðli þeirra eigna, sem lýst er hér að ofan, er ekki unnt að afhenda þær, svo jafnræði sé, nema til aðila sem eiga HFF-skuldabréf yfir vissri fjárhæð (1.200 m.kr.) Allir aðrir fá uppgjör með einu ríkisskuldabréfi (einn flokkur fyrir þá sem eiga HFF34 og annar fyrir þá sem eiga HFF44) auk reiðufjár í íslenskum krónum. Í þennan hóp falla allir einstaklingar sem eiga HFF bréf hvort sem þeir eru flokkaðir fagfjárfestar eða almennir fjárfestar. Ríkisskuldabréfin eru með lokagjalddaga á svipuðum tíma og HFF bréfin. Þegar tekið er tillit til reiðufjár hlutans er meðallíftími þeirra eigna sem eru afhentar aðeins lengri en meðallíftími HFF bréfanna. Þar sem uppgjörið er í ríkisskuldabréfi, sem er hægt að selja á markaði, og íslenskum krónum geta eigendur gert breytingar í kjölfarið sem hentar þörfum þeirra.

Taflan að neðan sýnir dæmi um uppgjör fyrir eigendur sem eiga 500.000 kr. nafnverðseiningar af HFF34 og 500.000 kr. nafnverðseiningar af HFF44.

Eigandi HFF34 fær afhentar 427.868 nafnverðseiningar af RIKS34 sem voru 459.025 kr. virði á viðmiðunardegi og 153.008 kr. af reiðufé. Veginn meðallíftími afhentra eigna er 6,2 ár. Eigandi HFF44 fær afhentar 617.095 nafnverðseiningar af RIKS44 sem voru 716.348 kr. virði á viðmiðunardegi og 238.783 kr. af reiðufé. Veginn meðallíftími afhentra eigna er 11,0 ár.

Hluti af uppgjörseignum eru verðbréf í eigu ÍL-sjóðs. Meirihluti þessara verðbréfa eru gefin út í háum nafnverðseiningum, á bilinu 10 – 20 milljónir króna og seld til fagfjárfesta. Samtals eru um 6% af kröfuvirði HFF bréfa greidd með öðrum verðbréfum. Til þess að hægt sé að framkvæma uppgjörið þannig að eignum sé dreift með sömu hlutföllum til einstakra kröfuhafa, þarf uppgjörið að vera tvískipt þar sem stærri aðilar eru þeir einu sem geta tekið við þessum eignum í sömu hlutföllum.

Til að einfalda framkvæmd fá minni aðilar eitt verðbréf og til að mæta uppgjöri fjármagnstekjuskatts fær þessi hópur jafnframt 25% af andlaginu í formi reiðufjár.

Stærri eigendur fá afhent verðbréfasafn sem samanstendur af fleiri verðbréfaflokkum með mismunandi útgefendum og með mismunandi binditíma. Þetta leiðir til þess að ávöxtunarkrafa þeirra verðbréfa er breytileg.

Þrátt fyrir þessa mismunandi samsetningu er veginn binditími uppgjörseigna sambærilegur á milli minni og stærri eigenda. Á uppgjörsdegi er jafnframt tryggt að gangvirðismat verðbréfa í hvorum hópi fyrir sig endurspegli sama verðmæti. Í því felst jafnræði milli allra eigenda í uppgjöri HFF bréfa.

Ef tillagan verður samþykkt munu eigendur HFF-bréfa fá afhent ný verðbréf í staðinn. Þessi bréf hafa, eða munu hafa, virkan markað og bera ekki með sér óvissuálag. Það er í andstæðu við HFF-bréfin, sem hafa frá því óvissa myndaðist verið illa seljanleg og borið verulega hærra áhættuálag á verðtryggða vaxtaferilinn en þau bréf sem í boði eru í þessu uppgjöri.


Allir eigendur HFF bréfa eiga rétt á að mæta á fundinn og kjósa um tillöguna. Til þess þurfa þeir að fá staðfestingu á eign sinn í HFF bréfum frá vörsluaðila bréfanna (bankanum sínum) a.m.k. 48 klukkustundum fyrir fund. Vörsluaðilar senda ÍL-sjóði yfirlit yfir allar staðfestingar sem þeir hafa gefið út 24 tímum fyrir fund. Til að vera öruggur um að allt gangi eftir er mælt með að hafa samband við vörsluaðila með góðum fyrirvara. Það er líka hægt að senda umboðsmann á fundinn til að kjósa fyrir hönd eigenda bréfanna.
Ekki er hægt að kjósa rafrænt, en hægt er að senda aðila með umboð til að kjósa fyrir sína hönd. Oft bjóða vörsluaðilar bréfa uppá slíka þjónustu og er bent á að hafa samband við þá hvað þetta varðar.
Skilmálar bréfanna gera ráð fyrir því að það þurfi samþykki 75% eigenda sem greiða atkvæði á fundinum eftir kröfufjárhæð, til að tillagan teljist samþykkt. Ef hún er samþykkt bindur hún jafnframt alla eigendur til jafns. Því er mikilvægt ef eigendur vilja tryggja samþykki tillögunnar að þeir mæti á fundinn og kjósi. Til þess að fundurinn sé lögmætur þurfa 75% eigenda eftir kröfufjárhæð að mæta á fundinn. 
Áður en viðræður hófust voru sett fram markmið af hálfu stjórnvalda þar sem m.a. kemur fram að uppgjörið skuli verða endanlegt þannig að allar skuldbindingar ÍL-sjóðs verði gerðar upp. Stjórnvöld hafa því horft til þess að um heildarsamkomulag sé að ræða jafnvel þó að formsins vegna hafi þurft að setja tillöguna fram á tveimur fundum þar sem kosið verður í hvorum flokki útgefinna bréfa. Gert er ráð fyrir að eigendur HFF bréfa sem eiga báða flokka geri slíkt hið sama.
Lífeyrissjóðir landsmanna eiga langsamlega stærstan hluta allra HFF bréfa og annarra skulda ÍL-sjóðs. Saman eiga þeir ríflega 98% af HFF bréfum. Einstaklingar hvort sem þeir eru flokkaðir sem almennir fjárfestar eða fagfjárfestar eiga um 0,5% HFF bréfa.
Tillagan er sett fram á grundvelli skilmála skuldabréfanna sem fjalla um fundi skuldabréfaeigenda og heimildir til að taka ákvarðanir á þeim. Þær eru útfærðar í viðauka G við skilmálana (e. Fiscal Agency Agreement). Í 1. gr. er þar fjallað um meiriháttar ákvarðanir (Reserved Matters) sem geta meðal annars falist í því að breyta gjalddögum, vöxtum, lækka höfuðstól o.fl. Þá er gert ráð fyrir því að hægt sé að taka ákvörðun um að skipta á skuldabréfunum og annars konar fjármálagerningum (b liður) sem stafa frá útgefandanum eða öðrum. Samkvæmt 17. gr. viðaukans (a lið) fjallar fundur skuldabréfaeigenda um slíka tillögu. Hljóti hún áskilið samþykki bindur ákvörðunin alla eigendur skuldabréfa eins og nánar er útlistað í 18. gr. viðaukans. Útgefandinn telur þessi ákvæði skýr og eiga við um þá tillögu sem nú liggur fyrir.

Það nægir að framvísa umboðinu við inngöngu á fundinn, þar sem staðfestingin (Voting Certificate) hefur þegar borist innan tímamarka. Almennar reglur gilda um veitingu umboðs þegar staðfesting á eignarhaldi (Voting Certificate) liggur til grundvallar.

Ef umboð (Proxy) byggir hins vegar á Block Voting Instruction þarf að óska eftir slíkri staðfestingu innan tímamarka (eigi síðar en 48 klst. fyrir fund) og sú staðfesting (að meðtöldu umboðinu) að vera send til útgefanda innan tímamarka (eigi síðar en 24 klst. fyrir fund).


Sjá einnig:

Síðast uppfært: 6.4.2025 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta