Hoppa yfir valmynd

Endurmat útgjalda

Almennt

Rekstur ríkisins er umfangsmikill og áskoranirnar margar. Mikilvægt er að skipulag starfsemi ríkisins sé með þeim hætti að hægt sé að bregðast við breyttum aðstæðum og nýjum áskorunum og að stuðlað sé að markvissri stjórnun, bættri nýtingu fjármuna og auknum árangri. Umræða undanfarinna ára hefur einkennst af því viðhorfi að þjónusta hins opinbera fari versnandi og standist ekki samanburð við nágrannalöndin. Þrátt fyrir að vissulega hafi verið gripið til nauðsynlegra aðhaldsráðstafana í kjölfar hruns fjármálakerfisins er ljóst að vöxtur útgjalda hins opinbera síðustu árin hefur verið mikill og áframhaldandi vöxtur verið boðaður næstu árin. Sífelldur vöxtur útgjalda getur ekki verið markmið í sjálfu sér heldur þarf að tryggja að takmarkaðir fjármunir nýtist til þeirra verkefna sem eru þörf og þarfari en önnur.

Á árinu 2018 ákvað ríkisstjórnin/fjármála- og efnahagsráðuneytið að innleiða endurmat útgjalda (e. spending reviews) inn í árlegt áætlanagerðarferli ríkissjóðs. Tilgangurinn með endurmatinu er að greina kerfisbundið útgjöld til tiltekinna verkefna eða málaflokka í þeim tilgangi að skoða hvaða undirliggjandi þættir valda því að útgjöld hafa þróast með tilteknum hætti. Niðurstöður matsins gera stjórnvöldum kleift að greina hvernig hægt er að lækka grunnútgjöld og bæta ráðstöfun fjármuna ríkisins og veitir gleggri yfirsýn yfir hvaða verkefni eru þarfari fyrir samfélagið en önnur. Sjálfvirkni í útgjöldum er ekki til þess fallin að tryggja almenna velferð heldur þarf að skoða hvernig hægt er að bæta forgangsröðun útgjalda út frá þörfum samfélagsins og í þágu skilgreindra markmiða. Útgjaldaendurmat getur því reynst mikilvægt tól fyrir ríkisstjórnir til að forgangsraða takmörkuðum fjármunum sem hún hefur til ráðstöfunar og gera henni kleift að veita þessum fjármunum til þeirra verkefna sem eru hagkvæm og skila auknum ávinningi fyrir samfélagið.

Hvað er endurmat útgjalda?

Skilgreining OECD á endurmati útgjalda er ferli við að þróa og innleiða hagræðingu með kerfisbundnum greiningum á viðvarandi útgjöldum. Viðvarandi útgjöld þýða í þessu samhengi útgjöld sem eru þegar til staðar eða eru varanleg. Endurmatið nær því ekki til nýrra útgjalda, en almennur samrómur er um að tillögur að nýjum útgjöldum komi ekki til skoðunar þegar ráðist er í endurmat útgjalda með sama hætti og viðvarandi útgjöld. Endurmatið er því skilgreint ferli þar sem viðvarandi útgjöld tiltekins málaflokks eða verkefnis eru greind í þeim tilgangi að ná fram hagræðingu sem flæðir inn í fjárlagaferlið. Þessi aðferðafræði er ólík þeirri almennu nálgun sem felst í beitingu almennra aðhaldskrafna gagnvart ráðuneytum þar sem sú ráðstöfun er almennt ekki byggð á greiningum um hvar er brýnast að skera niður. Útgjaldaendurmat getur annað hvort verið víðtækt (e. comprehensive) eða sértækt (e. selective) en munurinn á þessum nálgunum er sú að í þeirri fyrrnefndu er allur rekstur ríkisins skoðaður en sú síðarnefnda tekur einungis til einstakra málflokka eða verkefna. Almennt er talið árangursríkara að skoða einstaka málaflokka eða verkefni frekar en að ráðast í heildstæða skoðun á öllum málefnum ríkisins, nema ytri aðstæður krefji á um slíkt.

Af hverju?

Innleiðing á endurmati útgjalda hérlendis er í takt við þær breytingar sem hafa átt sér stað undanfarin ár með gildistöku laga um opinber fjármál. Í lögunum er kveðið á um ofanstýrða áætlanagerð til meðallangs tíma, stefnumótun fyrir málefnasvið og málaflokka, og umgjörðin í kringum hagstjórn og eftirfylgni styrkt. Almennt er talið að greining eða endurmat á útgjöldum til tiltekinna verkefna eða málaflokka sé góð viðbót við þessa nálgun og geri stjórnvöldum betur kleift að taka ákvarðanir um stefnumið og fjárhagsramma málefnasviða og málaflokka, auk þess að setja aukna áherslu á árangursmiðaða áætlanagerð. Aðalástæðan fyrir því að Ísland hefur ákveðið að bætast í hóp þeirra fjölmörgu OECD-ríkja sem hafa innleitt verklag við útgjaldaendurmat er að vanda betur til ákvarðanatökunnar og styrkja áætlanagerðina, þ.e. að huga að því að það fjármagn sem þegar er til staðar nýtist sem best frekar en að horfa sífellt á viðbótarútgjöld.

Umgjörðin

 

Ráðherranefnd um ríkisfjármál samþykkir viðfangsefni endurmatsins hvert ár og setur í framhaldinu stýrihópinn á fót. Stýrihópurinn vinnur í umboði ráðherranefndarinnar og veitir vinnuhópnum umboð, þ.e. leiðbeiningar, tilgang verkefnis, tímalínu, og fylgist náið með vinnunni. Vinnuhópurinn er leiddur sameiginlega af  viðkomandi fagráðuneyti og fjármálaráðuneyti og getur kallað eftir utanaðkomandi sérfræðiaðstoð. Hópurinn fylgir fyrirmælum stýrihópsins, þ.e. sér um að greina viðkomandi viðfangsefni og skrifar lokaafurðina. Endurmat útgjalda er því samstarfsverkefni fjármála- og efnahagsráðuneytis og viðkomandi fagráðuneytis. Mikilvægt er að niðurstöður endurmatsins (ávinningur) flæði inn í fjármálaáætlun sem lögð er fram eigi síðar en 1. apríl ár hvert.

Verkefnin

Ákveðið hefur verið að ráðast í endurmat á tveimur sviðum í þessari fyrstu umferð verkefnisins. Annars vegar er um að ræða endurmat á rekstri sýslum….

 Myndin hér að neðan sýnir hvernig niðurstöður þeirra verkefna sem fóru af stað síðla árs 2018 eiga annars vegar að ná inn í fjármálaáætlun 2020-2024 og hins vegar inn í fjármálaáætlun sem lögð verður fram á árinu 2020 og tekur til áranna 2021-2025.

 
Síðast uppfært: 27.2.2019
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta