Hoppa yfir valmynd

Nýsköpunarverðlaun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu

Nýsköpunarverðlaun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu hafa verið veitt í gegnum tíðina. Hér að neðan má sjá yfirlit yfir þau verkefni sem voru hlutskörpust hverju sinni.

Nýsköpunarverðlaun 2018

Verkefnið ALFA – rafrænt lyfjaumsjónarkerfi hlaut nýsköpunarverðlaunin í opinberri þjónustu og stjórnsýslu 2018 sem veitt voru á ráðstefnu föstudaginn 8. júní 2018.  Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, afhenti verðlaunin. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Betri opinber þjónusta með öflugu samstarfi og nýtingu stafrænna lausna“.

Alls voru 33 verkefni tilnefnd til nýsköpunarverðlaunanna.

Verkefnið sem bar sigur úr býtum er samvinnuverkefni Öldrunarheimila Akureyrar, Akureyrarkaupstaðar, Lyfjavers ehf. og Þulu – Norræns hugvits. ALFA er stafræn lausn á lyfjaumsjónarkerfi sem þróuð var í þeim tilgangi að einfalda lyfjaskráningu, utanumhald á lyfjalager og samskipti á milli öldrunarheimila og birgja. Verkefnið hefur leitt til mikillar hagræðingar og umbóta í rekstri öldrunarheimila.

Fjögur verkefni hlutu sérstaka viðurkenningu á ráðstefnunni: Vatnajökulsþjóðgarður fyrir „Sjálfvirk innheimta og aðgangsstýring“; Ísafjarðarbær fyrir „Blábankinn, samfélagsmiðstöð á Þingeyri“; Kópavogsbær fyrir „Social Progress Portrait; Mælikvarði á félagslegar framfarir í Kópavogi og MÆLKÓ“ og Skútustaðahreppur fyrir „Umbótaáætlun í fráveitumálum í Mývatnssveit“.

 

Nýsköpunarverðlaun 2015

Geðheilsustöðin í Breiðholti hlaut nýsköpunarverðlaunin í opinberri þjónustu og stjórnsýslu, sem afhent voru 23. janúar 2015.

Verkefni velferðarsviðs Reykjavíkurborgar sem bar sigur úr býtum nefnist „Geðheilsustöðin í Breiðholti“. Með Geðheilsustöðinni er ætlunin að veita fullorðnum einstaklingum sem greinst hafa með geðraskanir heildræna þjónustu og draga með því m.a. úr innlögnum á geðsvið Landspítalans. Innan Geðheilsustöðvarinnar starfar þverfaglegur hópur fagfólks sem vinnur eftir batahugmyndafræðinni þar sem notendum er hjálpað til að byggja upp betri sjálfsmynd og öðlast aukna vitund um eigið vald og val í lífinu. Í batastýrðri þjónustu er gjarnan nýtt persónuleg reynsla þeirra sem hafa náð bata af geðröskunum og hafa fyrrum notendur þjónustunnar orðið liðveitendur. Verkefnið hefur m.a. leitt til þess að  innlögnum frá íbúum í Breiðholti á geðsvið Landspítalans hefur fækkað um 28%  frá því að Geðheilsustöðin tók til starfa. 

Fimm önnur verkefni fengu sérstakar viðurkenningar fyrir nýsköpun. Það voru Hafnarfjarðarkaupstaður fyrir „Áfram: Ný tækifæri í Hafnarfirði“, Reykjavíkurborg fyrir „Næringarútreiknaðir matseðlar, örútboð og matarsóun“, Langanesbyggð vegna Grunnskólans á Bakkafirði fyrir „Vinnustofur- Fjölbreyttir kennsluhættir og nýsköpun“, Embætti landlæknis og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins fyrir „Veru: Öruggur rafrænn aðgangur að mínum heilbrigðisupplýsingum“ og Seltjarnarnesbær fyrir „Ungmennaráð Seltjarnarness“.

Alls voru 49 verkefni frá 13 stofnunum og 13 sveitarfélögum tilnefnd.

Nýsköpunarverðlaun 2014

Landspítali háskólasjúkrahús-bráðadeild hlaut nýsköpunarverðlaunin í opinberri þjónustu og stjórnsýslu, sem afhent voru 24. janúar 2014. 

Verkefni Landspítala sem bar sigur úr býtum nefnist „Rauntíma árangursvísar á bráðadeild“. Verkefnið felur í sér notkun skjáborðs með árangurs- og gæðavísum sem sýndir eru í rauntíma sem liður í gæða- og öryggisstjórnun á bráðamóttöku. Árangurs- og gæðavísarnir gefa starfsmönnum ómetanlegar upplýsingar yfir sólarhringinn og gera stjórnendum kleift að bregðast við álagspunktum með markvissari hætti en áður og fylgjast með gæðum í þjónustunni á mismunandi þjónustustigum. Mælarnir hafa vakið mikla athygli, bæði innanlands sem og meðal erlendra ráðgjafa sem komið hafa á Landspítala, þar sem þetta þykir einstakt.

Fjögur önnur verkefni fengu sérstakar viðurkenningar fyrir nýsköpun. Það voru Lögreglustjórinn á Suðurnesjum fyrir „Að halda glugganum opnum“, Dalvíkurbyggð fyrir „Söguskjóður“, Reykjanesbær fyrir „Framtíðarsýn í menntamálum“, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga fyrir „Þjónusta við blinda og sjónskerta“.

Alls voru 39 verkefni frá 20 stofnunum og 10 sveitarfélögum tilnefnd.

Nýsköpunarverðlaun 2012

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra hlaut nýsköpunarverðlaunin í opinberri þjónustu og stjórnsýslu sem veitt voru 30. október 2012.

Verðlaunin til Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra voru veitt vegna verkefnisins “SignWiki”. Verkefnið er upplýsingakerfi og þekkingarbrunnur þar sem táknmálsorðabók og táknmálsnámi er miðlað í tölvur, spjaldtölvur og síma. Þetta er ný nálgun sem byggir á opinni og virkri þátttöku þar sem málsamfélagið og áhugafólk um táknmál eru þátttakendur og leggja til námsefni og tákn. SignWiki nýtist sem orðabók, til kennslu og í samskiptum við heyrnarlausa, fyrir almenning og til rannsókna og hefur gjörbreytt aðgengi að táknmáli og  miðlun þess. 

Fimm önnur verkefni fengu sérstakar viðurkenningar fyrir nýsköpun.  Það voru Blindrabóksafn Íslands fyrir “Librodigital”, Orkustofnun fyrir “Varmadæluvefur”, Öldrunarheimili Akureyrar fyrir “Hænsnahöllin”, Reykjavíkurborg fyrir “Betri Reykjavík” og Sjúkratryggingar Íslands fyrir “Réttindagátt - gagnagátt”.

Alls voru 62 verkefni frá 31 stofnun og 11 sveitarfélögum tilnefnd.  

Nýsköpunarverðlaun 2011

Lögreglustjórinn á Hvolsvelli og almannavarnanefnd hlutu Nýsköpunarverðlaun í opinberum rekstri sem voru veitt 3. nóvember 2011. Verkefnið “Skipulag rýminga vegna jökulhlaupa sem fylgja eldgosum í Kötlu og Eyjafjallajökli. Samstarf íbúa og almannavarnaryfirvalda“ fól í sér að gera viðbúnaðar- og rýmingaráætlun í samstarfi íbúa og almannavarnaryfirvalda vegna yfirvofandi náttúruváar af völdum eldsumbrota í Kötlu og Eyjafjallajökli. 

Þrjú önnur verkefni fengu sérstakar viðurkenningar fyrir nýsköpun.  Það voru Landmælingar Íslands fyrir “Örnefni á vefnum: Nýjar aðferðir við söfnun og miðlun”, Blindrabókasafn Íslands fyrir “Yfirfærslu bókakosts bókasafnsins yfir á stafrænt form” og Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fyrir “Notkun samfélagsmiðla (Facebook og Twitter) á sviði löggæslu”. 

Alls voru 40 verkefni frá 24 stofnunum tilnefnd.

Opinber nýsköpun

Síðast uppfært: 29.9.2021
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta