Hoppa yfir valmynd

Loftbrú - lægri flugfargjöld fyrir íbúa landsbyggðarinnar

  • 40% afsláttur af heildarfargjaldi fyrir allt að 6 flugleggi á ári.
  • Fyrir alla með lögheimili fjarri borginni og á eyjum.
  • Bætir aðgengi landsbyggðar að miðlægri þjónustu í höfuðborginni.

Íbúar á landsbyggðinni með lögheimili fjarri höfuðborginni eiga nú kost á lægri flugfargjöldum til borgarinnar. Loftbrú veitir 40% afslátt af heildarfargjaldi fyrir allar áætlunarleiðir innanlands til og frá höfuðborgarsvæðinu. Fullur afsláttur er veittur hvort sem valið er afsláttarfargjald eða fullt fargjald. Hver einstaklingur getur fengið lægri fargjöld fyrir allt að þrjár ferðir til og frá Reykjavík á ári (sex flugleggir). Út árið 2020 gilda afsláttarkjörin fyrir eina ferð til og frá Reykjavík (tveir flugleggir).

Markmiðið með Loftbrú er að bæta aðgengi íbúa á landsbyggðinni að miðlægri þjónustu og efla byggðir með því að gera innanlandsflug að hagkvæmari samgöngukosti. Afsláttarkjörin koma þeim til góða sem vilja nýja margvíslega þjónustu og afþreyingu á höfuðborgarsvæðinu og til að heimsækja ættingja og vini. Loftbrú er ætluð fólki í einkaerindum til höfuðborgarinnar en ekki fyrir ferðir í atvinnuskyni eða hefðbundnar vinnuferðir.

Sérstök upplýsingasíða um Loftbrú hefur verið opnuð en auk íslensku er hún einnig á ensku og pólsku.

Hverjir eiga rétt á Loftbrú?

Undir Loftbrú falla Vestfirðir, hluti af Norðurlandi vestra, Norðurland eystra, Austurland, Hornafjörður og Vestmannaeyjar. Svæðið er afmarkað með tilliti til póstnúmera. Alls ná afsláttarkjör Loftbrúar til rúmlega 60 þúsund íbúa á þessum svæðum.

Þjónustusvæði Loftbrúar

Afsláttarkjörin nýtast öllum þeim sem sækja miðlæga þjónustu og afþreyingu á höfuðborgarsvæðið og til að heimsækja ættingja og vini. Markmið verkefnisins er að jafna aðstöðumun íbúa og efla byggðir landsins með því að gera innanlandsflug að hagkvæmari samgöngukosti. Loftbrú er ætluð fólki sem fer í einkaerindum til höfuðborgarinnar en ekki fyrir ferðir í atvinnuskyni eða hefðbundnar vinnuferðir. 

Tveir hópar hafa sérstöðu og um þá gilda undantekningar frá reglunni um að eiga lögheimili á landsbyggðinni:

  • Framhaldsskólanemar af landsbyggðinni sem stunda nám á höfuðborgarsvæðinu og hafa fært lögheimili sitt tímabundið þangað munu eiga rétt á Loftbrú.
  • Börn sem eru með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu en eiga foreldra eða forráðamenn sem hafa búsetu á landsbyggðinni munu einnig eiga rétt á Loftbrú.

Unnið er að því að útfæra þjónustuna þannig að hægt verði að bóka lægri fargjöld fyrir þessa tvo hópa. Stefnt er að því að klára þá vinnu fyrir áramót. 

Hvernig nýti ég mér Loftbrú? 

Ferlið er einfalt. Á þjónustuvefnum Ísland.is auðkennir fólk sig með rafrænum skilríkjum og þeir sem eiga rétt á Loftbrú fá yfirlit yfir réttindi sín. Þeir sem vilja nýta afsláttinn sækja á sömu síðu sérstakan afsláttarkóða sem notaður er á bókunarsíðum flugfélaga þegar flug í áætlunarflugi er pantað.

Afslátturinn er reiknaður af heildarfargjaldi, þ.e. flugfargjaldi, flugvallargjaldi sem og öðrum gjöldum sem flugfélög inna af hendi. 

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta