Vegakerfið
Traust vegakerfi og góðar samgöngur eru forsenda þess að mannlíf og atvinnulíf geti vaxið og dafnað í þéttbýli sem dreifbýli. Samkvæmt vegalögum er vegakerfi landsins skipt upp í þjóðvegi, sveitarfélagsvegi, almenna stíga og einkavegi, þar sem þjóðvegir og sveitarfélagsvegir skulu mynda eðlilegt og samfellt vegakerfi til tengingar byggða landsins.
Vegagerðin sér um framkvæmdir við uppbyggingu, viðhald og þjónustu á vegakerfinu. Hlutverk stofnunarinnar er að sjá samfélaginu fyrir vegakerfi í samræmi við þarfir og þróun og tryggja samgöngur árið um kring með eins hagkvæmum og öruggum hætti og unnt er.
Vegagerðin annast hönnun og gerð samgöngumannvirkja og sinnir þeim verkefnum í samræmi við stefnumarkandi samgönguáætlun og fjárveitingar hvers árs. Framkvæmdir á vegakerfinu skipast í viðhald og nýframkvæmdir. Samgöngustofa annast svo eftirlit með framkvæmd umferðaröryggisstjórnunar vegamannvirkja og setur verklagsreglur um framkvæmd eftirlitsins.
Vegagerðin skiptist í Miðstöð og fimm svæði. Í miðstöð fer fram vinna við stefnumótun fyrir Vegagerðina og stjórnun hennar í heild. Svæði Vegagerðarinnar eru Suðursvæði, Vestursvæði, Norðursvæði, Austursvæði og Höfuðborgarsvæði. Hvert svæði um sig annast framkvæmdir, viðhald og rekstur vegakerfisins og sér um að veita vegfarendum þjónustu innan svæðisins.
Vegakerfið er flokkað eftir tegund vega og skiptist í stofnvegi, stofnvegi um hálendi, tengivegi, landsvegi og héraðsvegi, sjá kort á vef Vegagerðarinnar.
Þá sinnir Vegagerðin margs konar rannsóknarstarfi en í vegalögum er kveðið á um að 1,5% af mörkuðum tekjum til vegamála skuli renna til rannsókna- og þróunarstarfs.
Sjá einnig:
Samgöngustofnanir
Tenglar
Vegasamgöngur
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.