Alþjóðlegt samstarf
Samstarf ríkja og starf alþjóðastofnana um velsældarmál
Íslensk stjórnvöld eru þátttakendur í samstarfi nokkurra ríkja um velsældarhagkerfi, Wellbeing Economy Governments (WEGo). Markmiðið er að stuðla að samvinnu stjórnvalda, sem vilja dýpka skilning á hugtakinu velsæld og innleiða í stefnumótun. Í þessum hópi velsældarríkja eru einnig Finnland, Kanada, Skotland, Nýja-Sjáland og Wales.
Efnahags- og framfarastofnunin, OECD
Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, sem veitir aðildaríkjum ráðgjöf um stefnumótun hefur lagt áherslu á að líta ekki einungis til efnahagslegra þátta þegar meta á lífsgæði aldarríkja. Stofnunin birtir meðal annars lífsgæðavísitölu, Better Life Index, þar sem skoðaðir eru 11 áhrifaþættir velsældar og lífsgæða: húsnæði, afkoma eða tekjur, vinnumarkaður, samfélag, menntun, umhverfi, borgaraleg þátttaka, heilsa, lífsánægja, öryggi samfélagsins og jafnvægi vinnu og einkalífs. Hver þessara 11 þátta er svo mældur með nokkrum mælikvörðum. Val þessara þátta og mælikvarða byggist á áratugareynslu OECD við rannsóknir og ráðgjöf. OECD telur þá vera kjarnaþætti fyrir velsæld í merkingunni lífskjör og lífsgæði. Á heimasíðu stofnunarinnar er upplýsingaveita um stefnumótun og notkun mælikvarða um velsæld við áætlanagerð stjórnvalda.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra tók í júní 2024 við viðurkenningu frá Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar fyrir vinnu íslenskra stjórnvalda að innleiðingu velsældaráherslna hér á landi. Við veitingu viðurkenningarinnar var dreginn fram árangur íslenskra stjórnvalda við að samþætta velsældaráherslur við stefnumótun á ólíkum málefnasviðum, m.a. í fjárlagagerð.
Um mitt ár 2023 birti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin skýrslu um velsældarhagkerfið á Íslandi. Skýrslan sem á ensku ber heitið Country deep dive on the wellbeing economy – Iceland, var meðal þeirra fyrstu sem stofnunin gerði um velsældarhagkerfi í mismunandi löndum.
Meðal helstu niðurstaðna skýrslunnar er að samfélagslegar áskoranir tengdar velferðarkerfinu, efnahagskerfinu og umhverfinu hafi verið megindrifkraftar á bak við stefnubreytingu í átt að velsældarhagkerfi. Aukin áhersla á jafnréttismál hafi einnig fært málefni velsældar ofar á dagskrá. Þá hafi sterk staða kvenna í æðstu pólitísku embættum haft jákvæð áhrif.
Einnig er dregið fram að velsældaráherslurnar nái þvert yfir stjórnkerfið og yfir allt samfélagið. Í því skyni sé forræði þegar kemur að velsæld og sjálfbærni hjá forsætisráðuneytinu sem tryggi samhæfingu og meiri skuldbindingu við verkefnið. Í nálgun Íslands sé einnig horft til þess að aukin velsæld hafi jákvæð áhrif á heilsufar sem komi öllu samfélaginu til góða.
Velsæld
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.