Landsskipulagsstefna 2024-2038
Landsskipulagsstefna til fimmtán ára (2024-2038) og aðgerðaáætlun til fimm ára (2024-2028) var samþykkt á Alþingi sumarið 2024. Hún felur í sér samræmda stefnu ríkisins í skipulagsmálum fyrir landið í heild og tekur til landsins alls og haf- og strandsvæða. Alþingi samþykkti stefnuna vorið 2024 en þetta er í annað sinn sem Landsskipulagsstefna er samþykkt.
Landsskipulagsstefnan byggist á eftirfarandi framtíðarsýn:
„Ísland verði í fremstu röð með trausta og örugga innviði, öflug sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu. Tenging byggða og Íslands við umheiminn verði í jafnvægi við umhverfið.“
Markmið Landsskipulagsstefnu:
- Vernd umhverfis og náttúru.
- Velsæld samfélags.
- Samkeppnishæft atvinnulíf.
Settar eru fram 20aðgerðir í fimm ára aðgerðaáætlun 2024-2028.
- Landsskipulagsstefna fyrir árin 2024–2038 (ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028
Loftslagsbreytingar
Loftslagsbreytingar eru ein stærsta áskorun samtímans. Ísland hefur sett fram metnaðarfull markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Loftslagsbreytingar fela í sér áskoranir í landnotkun og hinu byggða umhverfi en þær geta líka haft áhrif á atvinnulíf og almenning. Til að takast á við þær þarf að hafa til þess verkfæri og byggja á bestu fáanlegu gögnum hverju sinni. Sífellt bætist við ný þekking til að takast á við loftslagsáskoranir en skortur er á aðgengilegum upplýsingum um hvernig best sé að takast á við áhrifin.
Jafnvægi í uppbyggingu húsnæðis og lífsgæði í byggðu umhverfi
Brýnt er að ná jafnvægi í uppbyggingu húsnæðis í samræmi við þörf og samstilla stefnu og aðgerðir ríkis og sveitarfélaga til að tryggja nægt framboð. Tryggja þarf framboð á fjölbreyttum íbúðum sem stuðla að sjálfbærni og félagslegri samheldni. Auka þarf skilvirkni í ferlum skipulags og samhæfa og einfalda undirbúning framkvæmda við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis til að mæta eftirspurn og tryggja húsnæðisöryggi.
Uppbygging þjóðhagslega mikilvægra innviða
Innviðir eru forsenda fyrir þróun byggðar og kröftugu atvinnulífi. Uppbygging þeirra getur haft áhrif á ólíka hagsmuni varðandi þróun byggðar og landnotkunar. Innviðir tengdir flutningskerfum fyrir orku, vatn og varma, en einnig þeir sem snúa að flutningi, samgöngum og fjarskiptum, geta haft mismikil áhrif á íbúa og dæmi eru um að ágreiningur skapist um staðsetningu þeirra og hvernig gerð er grein fyrir þeim í skipulagi. Úr sumum þessara ágreiningsmála næst ekki að leysa og mikilvægar framkvæmdir ná ekki fram að ganga. Því er mikilvægt að til sé farvegur fyrir skipulagsákvarðanir og leyfisveitingar þjóðhagslegra mikilvægra innviða sem þjóna hagsmunum landsins alls.
Landnotkun í dreifbýli
Land er takmörkuð auðlind og landbúnaðarland sem hentar vel til ræktunar matvæla og fóðurs er verðmætt. Samkeppni ríkir um land í dreifbýli vegna aukinnar eftirspurnar eftir landi til skógræktar, undir frístundabyggð, fyrir ferðaþjónustu, íbúðaruppbyggingu í dreifbýli og nýtingu vindorku. Mikilvægt er að landnotkun í dreifbýli feli í sér vernd góðs ræktarlands sem þarf að geta staðið undir aukinni matvælaframleiðslu til framtíðar á sama tíma og sveitir landsins þurfa að geta vaxið og dafnað.
Landnotkun á miðhálendi Íslands
Miðhálendi Íslands hefur verið nýtt sem almenningur um aldir og það gegnir enn mikilvægu hlutverki sem beitarsvæði fyrir bændur. Með vaxandi ferðaþjónustu er aukin ágangur á miðhálendið með vaxandi álagi. Aukið álag getur m.a. falið í sér þörf fyrir uppbyggingu innviða fyrir samgöngur og ferðaþjónustu, en samhliða slíkri uppbyggingu þarf að tryggja að hún rýri ekki hefðbundin not og upplifun, vernd óbyggðra víðerna, mikilvægra landslagsheilda og náttúru miðhálendisins.
Orkuskipti í samgöngum og fjölbreyttur ferðamáti
Vönduð samþætting samgöngukerfa og byggðar er undirstaða gæða hins byggða umhverfis. Samhliða markvissum orkuskiptum er jafnframt nauðsynlegt að auka hlutdeild vistvæns ferðamáta til að ná markmiði stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.
Skipulag haf- og strandsvæða
Aukin ásókn er í nýtingu haf- og strandsvæða, m.a. fyrir matvælaframleiðslu og orkuvinnslu. Skilgreina þarf siglingaleiðir á strandsvæðum og skerpa sýn á rýmisþörf öryggissvæða sæstrengja og aðra staðbundna nýtingu sem hefur takmarkandi áhrif á veiðar og siglingar. Á hafsvæðum utan strandsvæða er þörf á skýrari stefnumörkun fyrir ákvarðanir um staðbundna nýtingu og náttúruvernd.
Skipulag vindorku
Skipulag vindorkunýtingar er nýtt viðfangsefni í skipulagsmálum hér á landi en vaxandi áhugi er á nýtingu hennar. Mikilvægt er að breið sátt ríki um hvernig staðið verði að uppbyggingu slíkra vindorkuvera og því er þörf á heildarstefnumörkun stjórnvalda um nýtingu vindorku og huga þarf að því hvort setja skuli sérstök viðmið um staðsetningu vindorkuvera, fjölda þeirra og stærð og enn fremur skýrari reglur og viðmið um áhrif á umhverfi og náttúru..
Vernd líffræðilegrar fjölbreytni
Líffræðilegri fjölbreytni stafar hætta af aukinni eftirspurn eftir nýtingu land-, haf- og strandsvæða, og loftslagsbreytingum. Breytt landnotkun hefur áhrif á líffræðilega fjölbreytni og losun gróðurhúsalofttegunda. Tryggja þarf að fjallað sé um líffræðilega fjölbreytni við stefnumörkun og framfylgd skipulagsáætlana.
Í landsskipulagsstefnunni eru tilgreind níu lykilviðfangsefni:
- Viðbrögð við loftslagsbreytingum.
- Jafnvægi í uppbyggingu húsnæðis og lífsgæðum í byggðu umhverfi.
- Uppbygging þjóðhagslega mikilvægra innviða.
- Landnotkun í dreifbýli.
- Landnotkun á miðhálendi Íslands.
- Orkuskipti í samgöngum og fjölbreyttum ferðamáta.
- Skipulag haf- og strandsvæða.
- Skipulag vindorku.
- Vernd líffræðilegrar fjölbreytni.
Settar eru fram 20aðgerðir í fimm ára aðgerðaáætlun 2024-2028 sem falla undir hvert af markmiðunum fjórum. Fjallað er nánar um hvert verkefni í aðgerðaáætlun með landskipulagsstefnunni.
- Mótun verkferla og leiðbeininga fyrir aðlögun sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga.
- Skipulagsgerð sem styðji við markmið um kolefnishlutleysi.
- Skipulag mæti húsnæðisþörf.
- Uppbygging og viðhald þjóðhagslega mikilvægra innviða.
- Kortlagning á ræktunarlandi sem hentar til matvælaframleiðslu.
- Stefnumótun um vegakerfi miðhálendisins.
- Samspil skipulagsáætlana og orkuskipta.
- Gerð strandsvæðisskipulags fyrir Eyjafjörð.
- Gerð strandsvæðisskipulags fyrir Skjálfandaflóa.
- Forgangsröðun verkefna vegna skipulags strandsvæða.
- Stjórnsýsla á hafsvæðum utan strandsvæða.
- Uppbygging ferðaþjónustumannvirkja á hálendinu.
- Kortlagning víðerna.
- Skipulag í dreifbýli.
- Skipulag og leyfisveitingar vegna vindorkuvera.
- Mælaborð um stöðu og þróun skipulagsmála.
- Einn ferill húsnæðisuppbyggingar.
- Endurskoðun á lagaumgjörð skipulagsmála.
- Flokkun landslagsgerða og leiðbeiningar um landslagsgreiningu.
- Landbúnaðarnot ríkisjarða.