Hoppa yfir valmynd
24. janúar 2005 Fundargerðir stjórnarskrárnefndar 2005-2007

Fundargerð 1. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur

Fundur var settur í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í Reykjavík hinn 24. janúar 2005 klukkan 10 árdegis. Mætt voru Birgir Ármannsson, Guðjón A. Kristjánsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jón Kristjánsson, Steingrímur J. Sigfússon og Þorsteinn Pálsson. Aðrir nefndarmenn, þau Geir H. Haarde, Jónína Bjartmarz og Össur Skarphéðinsson höfðu boðað forföll.

Formaður nefndarinnar, Jón Kristjánsson, bauð nefndarmenn velkomna. Kvað hann enga formlega dagskrá liggja fyrir fundinum og lagði til að þessi fyrsti fundur nefndarinnar yrði notaður til að skiptast á skoðunum um fyrirhugað starf hennar. Hann gat þess að sérfræðinganefnd undir forsæti Eiríks Tómassonar prófessors myndi starfa náið með nefndinni. Þá bauð hann velkominn til starfa Pál Þórhallsson lögfræðing í forsætisráðuneytinu sem yrði ritari stjórnarskrárnefndar og sérfræðinganefndarinnar. Jörundur Valtýsson, deildarstjóri í forsætisráðuneytinu, yrði einnig nefndinni innan handar eftir þörfum.

2. Hlutverk nefndarinnar

Formaðurinn vakti máls á hlutverki nefndarinnar, sem samkvæmt erindisbréfi væri vítt. Leiðarljósið hlyti að vera sú spurning hvers konar stjórnarskrá hæfði best opnu lýðræðissamfélagi. Fyrstu vikur og mánuðir myndu fara í upplýsingaöflun með hjálp sérfræðinganefndarinnar. Síðan væri hægt að þrengja hringinn um helstu áhersluatriði í endurskoðunarvinnunni. Ástæðan fyrir því að tilteknir kaflar stjórnarskrárinnar væru nefndir sérstaklega í erindisbréfinu hlyti að vera sú meðal annars að aðrir kaflar hefðu nýlega verið endurskoðaðir. Eins yrði heildarendurskoðun auðvitað afar mikið verk. Þá lagði formaðurinn áherslu á að nefndin nálgaðist verk sitt án tillits til einstakra atburða eða einstaklinga. Nefndarmenn lýstu ánægju með orð formannsins og tóku undir að gengið yrði til verks með opnum huga. Fram komu þó athugasemdir við að ekki skyldi haft meira samráð milli flokkanna áður en skipunarbréfið var sent út og eins við tímarammann sem nefndinni væri settur.

3. Kynningarstarf

Formaðurinn minnti á að nefndin ætti að hafa það að leiðarljósi að starfa fyrir opnum tjöldum og gefa almenningi kost á að leggja orð í belg. Til stæði að opna heimasíðu og óskaði hann eftir frekari hugmyndum frá nefndarmönnum um það hvernig best væri að standa að kynningarmálum. Nefndarmenn tóku undir að nauðsynlegt væri að stuðla að víðtækri og upplýstri umræðu í þjóðfélaginu um stjórnarskrána og endurskoðun hennar. Rætt var um að efna á einhverju stigi til funda víðs vegar um land til að kynna hugmyndir nefndarinnar. Þá kom fram sú hugmynd að efna á einhverju stigi til stjórnlagaþings.

4. Samskipti við sérfræðinganefndina - gagnaöflun

Nokkur umræða spannst um hlutverk sérfræðinganefndarinnar. Fram kom að æskilegt væri að sú nefnd aflaði upplýsinga um nýlegar breytingar á stjórnarskrám í vestrænum ríkjum. Var Finnland nefnt í því sambandi, bæði varðandi efnislegar breytingar og það hvernig endurskoðunarvinnan var skipulögð. Þá var nefnt að gott væri að fá greiningu á mismunandi stjórnskipunarfyrirkomulagi í vestrænum lýðræðisríkjum, t.d. varðandi mun á þingbundinni og óþingbundinni stjórn, þær leiðir sem farnar eru til að tryggja jafnvægi milli ólíkra valdastofnana, stöðu forseta þjóðþinga og stöðu þjóðhöfðingja. Einnig væri gott að fá upplýsingar um hvaða mismunandi leiðir væru farnar við uppbyggingu stjórnarskráa. Í þessu sambandi var einnig óskað eftir því að fá frá sérfræðinganefndinni yfirlit yfir þróun stjórnskipunarhugmynda síðari áratugi og hvaða nýjungar væru þar helst á ferð. Þá var einnig nefnt að biðja þyrfti sérfræðinganefndina um að taka saman yfirlit yfir fyrri tilraunir til að breyta stjórnarskránni. Almennt var lögð áhersla á að innlegg sérfræðinganefndarinnar yrði auðskilið fyrir leikmenn svo það mætti nýtast sem best nefndinni og öllum almenningi.

Var ákveðið að fá sérfræðinganefndina á næsta fund til að ræða þessi mál.

5. Fundargerðir

Formaðurinn lagði til að fundargerðir nefndarinnar yrðu birtar á heimasíðu nefndarinnar svo almenningur gæti betur fylgst með störfum hennar. Kæmu þar fram þau mál sem tekin hefðu verið fyrir og helstu sjónarmið reifuð án þess að eigna þau nafngreindum nefndarmönnum. Mismunandi viðhorf komu fram um hversu rækilegar fundargerðirnar ættu að vera. Var formanni falið að útfæra þetta nánar með ritara nefndarinnar. Drög að fundargerð yrðu send út nokkru fyrir næsta fund þar sem færi gæfist á að gera athugasemdir við þau.

6. Næsti fundur

Ákveðið var að næsti fundur yrði haldinn 14. febrúar 2005 kl. 10 árdegis í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Var ritara falið að gera fyrir þann fund drög að vinnuáætlun fyrir nefndina og yrði umræða um þau aðalefni fundarins.

Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 11.15.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta