Hoppa yfir valmynd
06. apríl 2005 Erindi til stjórnarskrárnefndar 2005-2007

Stjórnarskráin – Sígild viðhorf


Grundvöllurin

Lög Alþingis eru lög valdsins. Þeim verða menn að hlýða, þau takmarka oft svigrúm almennings og einstaklinganna og leggja á þá byrðar og skyldur. Stjórnarskrá Íslands
eru lög fólksins í landinu.  Þau vernda réttindi þess og takmarka vald Alþingis og
ríkisvaldsins yfir fólkinu.

Í þeirri umræðu, sem nú er hafin um endurskoðun á Stjórnarskrá Íslands ber mest á þeim sjónarmiðum að stjórnskipunarlög eigi fyrst og fremst að fjalla um innbyrðis samskipti stjórnvalda svo og samskipti stjórnvalda við almenning og umgengni almennings við stjórnvöld.

Lítið eða ekkert fer fyrir umræðu um það hversu frjálsir landsmenn eiga að vera til þess að hafa samskipti hver við annan, án afskipta eða milligöngu stjórnvalda.
Þvert á móti fjölgar og stækka þau svið þar sem landsmenn þurfa að búa við afskipti og eftirlit hins opinbera, leyfi þeirra, úthlutun og gjaldtöku.

Þetta er e.t.v. ekki óeðlilegt þar sem almenningi er haldið utan við umfjöllun um stjórnarskrármálið með stuðningi stjórnarskrárinnar, sem  sett var þjóðinni  árið 1944.
Íslenska þjóðin er búin að lifa miklu sældarlífi á síðustu öld og er orðin sljó fyrir og gleymin á þá baráttu og það ástand sem stjórnarskrár lýðræðisríkja eru sprottnar úr.
Því er ekki úr vegi að rifja upp tilurð stjórnarskár lýðræðisríkja og viðra ýmis sjónarmið sem þeim viðkemur.

Stjórnarskráin er samfélagssáttmáli landsmanna um það hvernig eigi að stjórna landinu.  Hvað stjórnvöldum leyfist og  alveg sérstaklega um  það hvað þeim leyfist ekki. Hún á ekki að vera sáttmáli á milli stjórnmálaflokka eða stjórnmálamanna.

Stjórnarskráin er ekki sáttmáli á milli stjórnmálamanna og þjóðarinnar. 

Stjórnarskráin er sáttmáli fólksins. Stjórnmálamennirnir eru hluti af þeim sáttmála.

John Locke

Stjórnarskrár lýðræðisríkja ættu að byrja á eftirfarandi orðum John Locke og vera fyrsti kafli þeirra.

„Frelsi mannsins í samfélagi felst í að lúta hvorki lögsögu neins annars valds en þess sem hefur verið komið á í ríkjum með samkomulagi, né vera undir yfirráðum vilja nokkurs manns eða takmörkunum annarra laga en þeirra sem löggjafarvaldið hefur sett í samræmi við það umboð sem því hefur verið veitt….Heldur felst frelsi manna sem settir eru undir stjórnvöld í því að hafa ákveðnar reglur til að lifa eftir, sem eru þær sömu fyrir alla samfélagsborgara og eru settar af því löggjafarvaldi, sem þar hefur verið komið á; og að vera frjálsir að fara sínu fram í þeim efnum sem þessar reglur taka ekki til; og að vera ekki settir undir hverflyndan, óvissan og löglausan vilja annars manns.“

Þessi orð, sem birt voru árið 1689 voru svo sannarlega langt á undan sinni samtíð.  Á þessum tíma ríktu einræðiskonungar, sem þágu vald sitt frá guði.

Löggjafarþing voru algjör undantekning og kosningarréttur,  ef hann var til,  mjög takmarkaður. Konur máttu ekki vera sjálfráðar, menntast, né hafa kosningarrétt. Þrælahald var víða löglegt og stundað af kappi.  Nýlendukúgun, verslunareinokun, átthagafjötrar fóru vaxandi.

John Locke er svo sannarlega einn af frelsurum mannkynsins.  Mynd af honum ætti að hanga uppi á góðum stað í Alþingishúsinu við Austurvöll okkur til áminningar og aðhalds í framtíðinni.

Annar kafli stjórnarskrárinnar ætti að vera mannréttindakaflar hennar, sem nú eru VI
og VII kaflar hennar.

Næstu kaflar þar á eftir væru svo um stjórnskipinuna.  Með þessari nýju skipan væri lögð á það áhersla að tilgangur stjórnskipunarinnar í lýðræðisríki er fyrst og fremst að standa vörð um frelsi og mannréttindi einstaklingsins.

Þetta er auðvitað svo sjálfsagt mál að flestum finnst óþarfi að ítreka þetta.  Það er  mikið rétt, en allur er varinn góður. Við þekkjum ekki framtíðina.

Það er jafn sjálfsagt og eðlilegt öllum mönnum að  vera frjálsir, eins og að draga lífsandann, sjálfs sín ráðandi,  berandi ábyrgð á sjálfum sér.  Jafnframt er það eðli lítils minni hluta manna að vilja ráða yfir öðrum mönnum og jafnvel kúga þá undir sín yfirráð, með valdi ef ekki vill betur .  Þannig var allur hinn gamli mannheimur kúgaður undir fámenna valdastétt, alræði og valdníðslu um miðbik síðasta árþúsunds.

Nýtt tæifæri

Árið 1492 fékk mannkynið nýtt tækifæri.  Það ár fann Kólumbus Ameríku, nýjan heim.  Heimsmyndin gjörbreyttist.  Evrópubúar streymdu yfir Atlantshafið og hófu nýtt líf í nýjum  heimi, fjarri kúgurum sínum og yfirvöldum.  Fyrst í stað reyndu gömlu stórveldin í Evrópu, Spánn, Portúgal, Frakkland og England að undiroka nýbúana í nýja heiminum eins og í þeim gamla, en það mistókst.  Verkefnið var allt of stórt fyrir þá og þeir voru of uppteknir við innbyrðis valdabrölt og styrjaldir.

1775 gerðu Ameríkumenn,  í 13 nýlendum Englendinga,  uppreisn,  brutust undan
 breska konungsvaldinu  og settu  Georg III af í Ameíku. með því að lýsa yfir sjálfstæði árið 1776.

Grundvallarhugsun stjórnarfars í Bandaríkunum felst í þessum fleygu orðum Thomasar Jefferson í Sjálfstæðisyfirlýsingu Ameríkana frá árinu 1776:

“We hold these truths to be selfevident that all men are created equal, that they are endowed by their Creator with certain unalienable Rights, that among these are Life, Liberty and the pursuit of Happiness.”

Þessi orð voru rituð 11 árum áður en Bandaríki Norðurameríku voru stofnuð með stjórnarskrá 1787.

Í endursögn á íslensku eru þessi orð  á þessa leið:
„Við teljum augljóst að allir menn eru skapaðir jafnir, að skapari þeirra hafi gætt þá ýmsum óafseljanlegum réttindum meða annars til lífs, frelsis og þess að höndla lífshamingjuna“

Þessi orð í anda John Locke,  voru samþykkt af Ameríkönum af evrópskum uppruna á jaðri meginlands, sem þeim fannst vera endalaus óbyggð víðátta takmarkalausra tækifæra.  Þau slitu ekki aðeins bönd þessa fólks við konung og konungsríkið Bretland, heldur færðu þungamiðju valds í þeirra eigin nýfrjálsa föðurlandi frá yfirvöldum til einstkalingsins.  Áður kom valdið að ofan.  Nú hafði hver og einn þetta vald sjálfur.

„Að leyta hamingjunnar“

Orðin „pursuit of Happiness“ voru sérstaklega byltingarkennd.  Þau hafa verið þýdd á íslensku með orðunum “ að leita hamingjunnar”. Enska orðið “happiness” er komið af enska orðinu “hap” á íslensku “happ, heppni”, sem er ekki alveg sama og “hamingja”

Hamingja var til forna  talin fylgja manninum frá fæðingu, eitthvað sem honum var gefið af forlögunum.  Bæði orðin happ og hamingja merkja það sem menn fá án eigin tilverknaðar.

Með orðum Jeffersons er þessu snúið við.  Frumkvæðið er fært til einstaklingsins, sem nú á rétt á lífi sínu, frelsi og frumkvæði til að skapa sér sín eigin örlög sjálfur.  Hamingja hefur breyst í tækifæri.  Ekki óeðlilegt sjónarmið hvítra Evrópumanna í endalausu óbyggðu flæmi Norður-Ameríku.

Þessi sjónarmið voru mönnum í þéttbýli Evrópu framandi þar til vaxandi þekking, tækni, viðskipti, iðnaður og verkaskipting gerði mönnum ljóst að eign á landi takmarkaði ekki lengur efnahagslegann framgang manna.

Bandaríkin, sem höfðu frelsað einstaklinginn og leyst afl hans úr læðingi,  soguðu til sín milljónir innflytjenda úr gamla heiminum og gera enn.  Þau uxu hratt og urðu mesta efnahags- og stórveldi heimsins. Einstaklingar gömlu landanna reyndu að afla sér frelsis eins og Bandaríkjamenn, en tókst misjafnlega.  Því verr sem aðall þeirra var eldri og hefðbundnari og því verr sem austar dró í heiminum, frá Atlantshafinu.

Alræði meirihlutans

Mannréttindi, þ.e. prentfrelsi, trúfrelsi, friðhelgi heimilisins, eignarréttur o.s.frv. þóttu  svo sjálfsögð að þau voru ekki sett í fyrstu stjórnarskrána 1787, heldur bætt við 1789 og kölluð “Bill of Rights”.

Menn gerðu sér grein fyrir því að alræði meirihlutans er ekkert betra en gerræði einvaldskonunga.  Fólk er einstaklingar,  ekki meiri hluti,  almenningur,  þjóð eða minni hluti.   Það er ekki pláss nema fyrir eina persónu í hverri hauskúpu.  Yfirvöld í lýðræðisríki geta  vegna  ákvæða í stjórnarskrá ekki gengið lengra en kjósendur geta sætt sig við eða þolað.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim 215 árum síðan fyrsta stjórnarskráin var samin fyrir Bandaríkin.  Menn risu upp í mörgum Evrópuríkjum og afnámu einveldi og alræði konunga þeirra með því að setja þeim lýðræðislegar stjórnarskrár. En framganga lýðræðisins er engin óslitin sigurganga. Það koma bakslög.

Eitt hryllilegasta dæmi um alræði meirihlutans gerðist á fyrra helmingi síðustu aldar er ein mesta menningarþjóð heimsins vék lýðræðislegu stjórnarfari til hliðar og veitti geðsjúkum manni alræði.

Afleiðingin varð sú að heimsbyggðin barst á banaspjótum og milljónir manna urðu dauðans bráð áður en lýðræðisríkin yfirbuguðu herhlaup þessa ógnarvalds.

Heimurinn er langt frá því að vera laus við ógnir af þessu tagi.

Lýðræðið er dauðans alvara. 

Óvinir lýðræðisins

Þróun hinnar amerísku lýðræðisbyltingar hefur alltaf átt öfluga óvini.  Í fyrstu konungsvald og aðal og þurfti oft blóðugar byltingar til að ryðja þeim til hliðar.  Ein afleiðing lýðræðislegra stjórnarhátta var stórkostleg aukning efnahagslegs vaxtar.  Þessi hagvöxtur var oft mjög misjafn, sérstaklega í öndverðu.  Til urðu miklir  auðkýfingar og sárustu öreigar.  Úr slíkum jarðvegi spruttu ýmsar félagslegar hreyfingar eins og sósíalistar, kommúnistar,  samvinnuhreyfingin o.fl.  Vegna hinnar miklu efnahagslegu misskiptingar réðust þessar nýju félagslegu hreyfingar mjög á eignarrétt einstaklinga eins og kirkjan hafði gert áður.  Þetta varð til þess að valdfúsir menn sáu sér leik á borði og fóru að misnota þessa félagslegu þróun til að tryggja sér völd.    Þessi þróun náði hámarki í Sovétríkjunum þar sem hún varð einskonar endurfæðing aðalsins.  Nú á tímum endurspeglast þessi barátta í deilum manna um einkarekstur og opinberann rekstur.  Það hefur ávalt verið greið leið til valda að skilja menn frá eignum sínum.

Allir þurfa aðhald

Jafnvel í rótgrónum lýðræðisríkjum eins og á Íslandi verða menn sífellt að vera á verði eins og ofstjórnarárin á Íslandi 1930-1960 tala skírustu máli.  Stundum gengu menn svo langt að stjórnvöld vildu ráða því hverjir og hvenar menn borðuðu epli, appelsínur og rúsínur.  Í fyrra upplifði þjóðin það að stjórnvöld vildu ekki að hlýða stjórnarskránni.  Sögðust vera á annarri skoðun og  að breyta þyrfti stjórnarskránni. Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um ríkisútvarpið,  sem eflir það og ógnar tjáningarfrelsi landsmanna meira en nokkru sinni fyrr.  Skv. frumvarpinu varðar það opinberri refsingu að greiða ekki skatt til ríkisútvarpsins, hvort sem þú átt útvarp eða ekki.  Það vantar ekki mikið upp á það að maður sé skyldugur að hlusta á útvarp ríkisins.  Var nokkurn tíma skylduáskrift að “Prövdu” ?

Lýðræðisþróun á Íslandi hefur, þrátt fyrir allt,  verið til fyrirmyndar og á að vera það áfram.

Yfirvöld reyna jafnan að þrengja kost kjósenda ef þau komast upp með það.  Heimsins bestu stjórnarskrár koma ekki í stað árvekni almennings.

Baráttan á milli þeirra, sem vilja að völdin komi úr grasrótinni, frá einstaklingunum og hinna, sem vilja að þau komi að ofan stendur enn um allan heim af mismunadi mikilli grimmd og hörku.

Meiri hluti mannkynsins er enn settur undir ólýðræðisleg, gerræðisleg yfirvöld og mannréttindi þessa hluta mannkynisins, eru af skornum skammti, ef nokkur.

Frelsun nýlendna hinna evrópsku heimsvelda hefur mistekist í stórum dráttum.  Frelsi þeirra hefur einungis náð til valdastéttarinnar, sem notar það til að kúga og undiroka eigin þegna. Þeir voru ekki eins heppnir og við árið 1874.

Íslendingar voru svo heppnir að danakonungur frelsaði einstaklingana áður en þjóðinni var veitt heimastjórn 1904 og fullveldi 1918 með því að veita þeim  mannréttindi í stjórnarskránni 1874.  Þessi staðreynd gaf landsmönnum tækifæri til pólitísks og lýðræðislegs þroska áður en landið varð fullvalda.  Þetta má m.a.þakka báráttu Fjölnismanna og Jóns Sigurðssonar, forseta.

Jóhann J. Ólafsson.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta