Hoppa yfir valmynd
06. apríl 2005 Erindi til stjórnarskrárnefndar 2005-2007

Tillaga að stjórnarskrárbreytingu lýðveldisins Íslands

Bjarni Jónsson
Ásbúð 46
210 GARÐABÆR

Stjórnarskrárnefnd
Páll Þórhallsson, ritari
Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg
150 REYKJAVÍK

Garðabæ, 20. marz 2005

Nú stendur fyrir dyrum að gera breytingar á Stjórnarskránni. Slíkar breytingar eiga eðli máls samkvæmt ekki að vera daglegt brauð.  Nú verður hins vegar ekki undan því vikizt í ljósi atburða, er urðu á síðast liðnu sumri og kalla má stjórnlagakreppu.

Núgildandi stjórnarskrá ber keim af stjórnlögum konungsríkisins Danmerkur á 19. öld, og hana þarf að laga endanlega að lýðveldinu Íslandi á 21. öld. 

Stjórnarskráin á að tryggja þrígreiningu ríkisvaldsins og veita forsögn um meðferð þess á örlagatímum.  Forseti lýðveldisins á að hafa vald til útgáfu bráðabirgðalaga einvörðungu, ef þjóðaröryggi er stefnt í voða  og hann telur ómögulegt að kalla saman Alþingi.  Þá skal forseti lýðveldisins fara með æðsta vald yfir vopnuðum sveitum ríkisins, þó að hann feli öðrum daglega stjórnun þeirra.

Til að tryggja sjálfstæði dómstóla er lagt til, að dómsmálaráðherra auglýsi lausar stöður þar og skrifi greinargerð um umsækjendur, sem fari til veitingavaldsins.  Veitingavaldið sé í þessu tilviki nefnd, skipuð forseta lýðveldisins og hinum þremur handhöfum forsetavalds, þar sem forseti lýðveldisins hafi oddaatkvæði.

Stjórnarskrána á að reisa á einkennisorðum frönsku stjórnarbyltingarinnar um frelsi, jafnrétti og bræðralag.  Núverandi stjórnarskrá tryggir grundvallar mannréttindi, en hæpið er að útvatna mannréttindaákvæði með greinum, sem virka fjárhagslega íþyngjandi á hið opinbera, fyrirtæki eða einstaklinga, eins og t.d. réttindi til vinnu.  Umdeildu huglægu mati eins og umhverfisvernd ætti að halda utan við Stjórnarskrána.  Ekkert má setja þar, sem skerðir eignarréttinn á nokkurn hátt, nema ríkir almannahagsmunir krefjist, sem skilgreindir séu í lögum.  Þetta á einnig við um auðlindirnar.  Sjórnarskrá á ekki að kveða á um ríkiseign á auðlindum, hvorki fiskistofnum né orkulindum.

Af sögulegum, lýðræðislegum og stjórnarfarslegum ástæðum á Stjórnarskráin að kveða skýrt á um, að Alþingi sé æðsta stofnun landsins, ríkisstjórnin starfi í umboði Alþingis og forseti lýðveldisins geti ekki stöðvað framgang lagasetningar Alþingis.

Hér eru tillögur að breytingum á einstökum greinum Stjórnarskrárinnar:

  • 2. Alþingi fer með löggjafarvaldið.  Ráðherrar fara með framkvæmdavaldið.  Dómendur fara með dómsvaldið.
  • 5. Meðmælendur forsetaefnis skulu vera 5,0 % atkvæðisbærra hið minnsta.
  • 11. grein verði felld niður, nema ákvæði um, að 70 % Alþingismanna geti leyst forseta frá störfum.
  • 13. grein verði felld niður.
  • 15. Forseti velur forsætisráðherraefni eftir að ríkisstjórn missir stuðning Alþingis og felur honum að mynda ríkisstjórn.  Forsætisráðherra skipar ráðherra og Alþingis er að samþykkja eða hafna ráðherraskipan að þessu loknu.
  • 19. Forseti lýðveldisins getur ekki gert stjórnmálalegan ágreining við Alþingi.  Telji hann á hinn bóginn, að lög eða stjórnarathafnir brjóti í bága við Stjórnarskrá lýðveldisins, getur hann vísað þeim til Alþingis til endurskoðunar.  Staðfesti Alþingi enn gjörninginn, ritar forseti undir eða segir af sér ella.  Þá skulu lög lögð fyrir handhafa forsetavalds til staðfestingar.  Nægja skal undirritun tveggja.  Kosning til embættis forseta lýðveldisins sé aldrei oftar en á fjögurra ára fresti.
  • 21. Utanríkisráðherra gerir samninga við önnur ríki og leggur fyrir Alþingi til samþykktar.
  • 24. Forseti Alþingis getur rofið Alþingi með samþykki forseta lýðveldisins.
  • Greinar nr. 25, 26 og 28 verði felldar niður.

Til að koma til móts við ríkar óskir um beint lýðræði í stað fulltrúalýðræðis verði sett eftirfarandi ákvæði í Stjórnarskrá:

Fjórðungur atkvæðisbærra manna í Alþingiskosningum getur farið þess á leit við forseta Alþingis, að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um lagasetningu eða aðra stjórnarathöfn.  Samþykki fjórðungur Alþingismanna hið minnsta þessa beiðni, ber ríkisstjórn að verða við henni.  Ef meira en helmingur atkvæðisbærra manna hafnar lagasetningu í þjóðaratkvæðagreiðslu, skal Alþingi fella viðkomandi lög úr gildi, en annars gilda þau áfram. Um aðrar stjórnvaldsákvarðanir nægir hreinn meirihluti greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu til að fella þær úr gildi, en ella standa þær óhaggaðar. Alþingi skal setja lög um undirskriftasafnanir til stuðnings við þjóðaratkvæðagreiðslur.

Virðingarfyllst,
Bjarni Jónsson 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta