Fundargerð 4. fundar stjórnarskrárnefndar
1. Inngangur
Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík hinn 11. apríl 2005 klukkan 9 árdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Geir H. Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jón Kristjánsson (formaður), Steingrímur J. Sigfússon og Þorsteinn Pálsson. Aðrir voru forfallaðir. Þá var einnig mætt sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson (formaður), Gunnar Helgi Kristinsson og Kristján Andri Stefánsson. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.
Formaður baðst velvirðingar á því að fresta hafði orðið fundinum sem áformaður var 30. mars s.l.. Þá nefndi hann blaðamannafund sem haldinn var 17. mars s.l. í Þjóðarbókhlöðunni þar sem vinnuáætlun var kynnt og upplýsingabás opnaður. Hefði þessi kynning heppnast í alla staði vel.
Lögð var fram og samþykkt fundargerð síðasta fundar.
2. Erindi sem borist hafa nefndinni
Lögð voru fram og rædd erindi sem hafa borist nefndinni frá Þjóðarhreyfingunni og Siðmennt sem og bréf frá nokkrum einstaklingum.
3. Undirbúningur ráðstefnu
Formaður lagði fram drög að dagskrá ráðstefnu sem haldin yrði 11. júní nk. ásamt drögum að bréfi til almennra félagasamtaka þar sem leitast yrði eftir virkri þátttöku af þeirra hálfu. Yfirskrift ráðstefnunnar yrði “Stjórnarskrá til framtíðar” og að loknum almennum inngangserindum yrðu þrjár málstofur um: lýðræði, þrískiptingu ríkisvalds og Ísland í alþjóðlegu umhverfi. Almennum félagasamtökum yrði boðið að senda inn hugmyndir og tillögur fyrir 15. maí 2005 og ósk um það í hvaða málstofu á ráðstefnunni þau myndu vilja fá orðið. Ekki yrði gengið endanlega frá dagskrá af hálfu formanns fyrr en sá frestur væri liðinn.
Nefndarmenn lýstu ánægju með dagskrárdrögin. Var því beint til ritara að auk bréfs til félagasamtaka þar sem ráðstefnan væri kynnt þyrfti að birta auglýsingu í dagblöðum.
Þá voru nefndarmenn minntir á að láta ritara vita í hvaða málstofum þeir vildu sitja í pallborði þar sem þeim gæfist færi á að bregðast við hugmyndum félagasamtaka.
4. Skoðanaskipti um einstök ákvæði stjórnarskrárinnar
Ekki vannst tími til að ræða þennan lið. Fram kom það sjónarmið að þörf væri á að ræða fljótlega hvaða form menn sæju fyrir sér á endurskoðaðri stjórnarskrá, hvort hún ætti að vera gagnorð eða í lengra lagi og eins hvernig hún ætti að vera uppbyggð. Var ákveðið að stefna að því að taka frá heilan dag, þ.e. 1. júní 2005, til að hefja hina efnislegu umræðu.
5. Önnur mál
Eiríkur Tómasson rakti starf sérfræðinganefndarinnar frá síðasta fundi. Unnið væri að þeim greinargerðum sem ákveðnar hefðu verið í vinnuáætlun stjórnarskrárnefndar. Þá hefði nefndin átt gagnlegar viðræður við Veli-Pekka Viljanen, prófessor við lagadeild Háskólans í Turku, en hann flutti erindi á ráðstefnu um mannréttindakafla stjórnarskrárinnar sem haldin var í Reykjavík 8. apríl s.l. Viljanen var ritari stjórnarskrárnefndarinnar sem undirbjó endurskoðun finnsku stjórnarskrárinnar á árunum 1995-2000.
Þá kynnti Kristján Andri Stefánsson drög að dagskrá málþings sem Lögfræðingafélagið hyggst efna til 16. september 2005 um þjóðaratkvæðagreiðslur og þátttöku almennings í ákvörðunartöku um opinber málefni. Var samþykkt að stjórnarskrárnefnd myndi verða aðili að málþinginu.
6. Næstu fundir
Næsti fundur var ákveðinn mánudaginn 25. apríl 2005 kl. 9-11 í Þjóðmenningarhúsinu. Ritari myndi senda út fundarboð í tæka tíð ásamt dagskrá. Þá var ákveðið að halda heils dags fund miðvikudaginn 1. júní 2005.
Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 10.30.