Hoppa yfir valmynd
13. maí 2005 Erindi til stjórnarskrárnefndar 2005-2007

Erindi ásamt greinargerð frá Samtökunum 78

Samtökin ´78
Félag lesbía og homma á Íslandi
Laugavegi 3, Box 1262, 121 Reykjavík
Sími 552 7878 – [email protected]
____________________________________

Reykjavík 13. maí 2005

Stjórnarskrárnefnd
Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg
150 Reykjavík

Efni: Stjórn Samtakanna '78, félags lesbía og homma á Íslandi, fer þess á leit að hugtakinu „kynhneigð“ verði aukið við 65. grein mannréttindakafla stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.

Stjórn Samtakanna '78 telur það eitt af mikilvægustu markmiðum stjórnvalda á hverjum tíma að tryggja jafnrétti og mannréttindi einstaklinga og ólíkra hópa. Í 65. grein stjórnarskrár Íslands segir: „Allir skuli vera jafnir fyrir lögum óháð kynferði, trúarbrögðum, skoðunum, þjóðernisuppruna, kynþætti, litarhætti, efnahag, ætterni og stöðu að öðru leyti.“ Stjórn Samtakanna '78 telur brýnt að bæta hugtakinu kynhneigð við þessa upptalningu svo það verði sérstaklega tilgreind sem eitt af þeim atriðum sem jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar nái yfir.

Þegar stjórnarskráin var síðast endurskoðuð höfðu samkynhneigðir ekki öðlast neinar þær réttarbætur sem þeir nú njóta, það gerðist fyrst árið 1996. Í ljósi breyttra viðhorfa telur stjórn félagsins það eðlilegt og nauðsynlegt framhald af lagabótum og auknum mannréttindum undanfarinna ára að samkynhneigðra sé sérstaklega getið í ofangreindu stjórnarskrárákvæði, enda engan veginn séð fyrir endann á mannréttindabaráttu þeirra þrátt fyrir framfarir síðasta áratugar. Í því sambandi skal bent á það að í hvert sinn sem löggjafarvaldið hefur tekið af skarið og styrkt mannréttindi samkynhneigðra með lagasetningum hafa fordómar í þeirra garð minnkað til muna. Þannig hafa þeir átt kost á betra lífi, gerst virkari þjóðfélagsþegnar en ella og lagt mikið af mörkum til þess að skapa samfélag jafnréttis. Með þeirri viðbót sem hér um ræðir væri um að ræða æðstu viðurkenningu samfélagsins á mannréttindum samkynhneigðra, viðurkenningu sem tæki af allan vafa um fullan þegnrétt lesbía og homma á Íslandi.

Stjórn Samtakanna '78 vísar í rökstuðningi sínum til ítarlegrar greinargerðar sem fylgir þessu bréfi, en hana samdi Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður að beiðni stjórnar félagsins.


f.h. stjórnar Samtakanna '78

Hrafnhildur Gunnarsdóttir
formaður

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta