Hoppa yfir valmynd
13. maí 2005 Erindi til stjórnarskrárnefndar 2005-2007

Erindi frá Mannréttindaskrifstofu Íslands

Stjórnarskrárnefnd
Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg
150 Reykjavík

Reykjavik, 13. maí 2005.


Efni: Þátttaka Mannréttindaskrifstofu Íslands í ráðstefnu um endurskoðun stjórnarskrárinnar laugardaginn 11. júní 2005.

Þó ekki sé gert ráð fyrir sérstakri málstofu um mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar telur Mannréttindaskrifstofa Íslands nauðsynlegt við allar fyrirhugaðar breytingar á ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins verði skoðaðar útfrá mannréttindasjónarmiðum. Skrifstofan hefur því hug á að taka þátt í málstofunum þremur.

1. MÁLSTOFA: Lýðræði á upplýsingaöld

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna frá 1948 kveður á um í 21. gr.:

  1. Hverjum manni er heimilt að taka þátt í stjórn lands síns, beinlínis eða með því að kjósa til þess fulltrúa frjálsum kosningum.
  2. Hver maður á jafnan rétt til þess að gegna opinberum störfum í landi sínu.
  3. Vilji þjóðarinnar skal vera grundvöllur að valdi ríkisstjórnar. Skal hann látinn í ljós með reglubundnum, óháðum og almennum kosningum, enda sé kosningarréttur jafn og leynileg atkvæðagreiðsla viðhöfð eða jafngildi hennar að frjálsræði.

Þá kveða 19. gr. alþjóðasamnings um borgarleg og stjórnmálaleg réttindi frá 1966 og 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu (1950) á um skoðanafrelsi, sem jafnframt felur í sér frelsi til að taka við og miðla upplýsingum. 

Fulltrúalýðræðið einn af hornsteinum íslenskrar stjórnskipunar en Mannréttindaskrifstofa Íslands telur mikilvægt að á fyrirhugaðri ráðstefnu um endurskoðun stjórnarskrárinnar verði rætt hvernig tryggja megi lýðræðislegan rétt almennings til áhrifa og virkrar þátttöku milli kosninga sbr. 21. gr. Mannréttindayfirlýsingarinnar. Einnig hefur skrifstofan hug á að taka þátt í umræðu um nauðsyn sérstakra ákvæða er tækju til réttar almennings til upplýsinga og stjórnmálaþáttöku.

2. MÁLSTOFA: Þrískipting ríkisvalds – pólitísk forysta – virkt eftirlit

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna, 28. gr., kveður á um að hverjum manni beri réttur til þess þjóðfélags- og milliþjóðaskipulags, er virði og framkvæmi að fullu mannréttindi hans.  Ísland hefur undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar á sviði mannréttinda og lögfest Mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindaskrifstofa Íslands telur nauðsynlegt að skoðað verði á ráðstefnunni hvernig best verði tryggt  “að ríkisvaldi sé beitt af hófsemd og skynsemi í þágu borgaranna” - í samræmi við alþjóðlega viðurkenndar mannréttindareglur. Í þessu sambandi telur skrifstofan nauðsynlegt að hnykkt sé á mikilvægi  frjálsra félagasamtaka og borgaralegs samfélags (e. civil society) sem aðhaldsafli en auk þess verði hlutverk og valdssvið stofnana er hafa eftirlit með stjórnsýslunni og mannréttindum til umfjöllunar.

3. MÁLSTOFA: Ísland í alþjóðlegu umhverfi

Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur hug á þátttöku í þessari málstofu til að ræða sk. samstöðuréttindi, s.s.  réttinn til friðar og heilbrigðs umhverfis. Einnig telur skrifstofan áhugavert að komið verði á framfæri hugmyndum um stjórnarskrárvernd til handa mannréttindareglum sem eru þjóðréttarlega skuldbindandi fyrir íslenska ríkið.

Virðingarfyllst,
f.h. Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Guðrún D. Guðmundsdóttir, frkv.stj.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta