Hoppa yfir valmynd
15. maí 2005 Erindi til stjórnarskrárnefndar 2005-2007

Erindi frá Hinu íslenska félagi áhugamanna um stjórnskipan

Stjórnarskrárnefnd
Stjórnarráðshúsinu
150 Reykjavík.


Reykjavík 15. maí 2005.

Ágætu fulltrúar í stjórnarskrárnefnd.

Stjórnarskrá íslenska ríkisins er með fallegri stjórnarskrám Vesturlanda. Stjórnarskráin er í senn stutt og einföld þannig að hver sem er á að geta kynnt sér efnihennar. Þá eru stjórnarskráin laus við pólitískar stefnuyfirlýsingar og almennan kjaftavaðal.

Á móti kemur að stjórnarskráin í núverandi formi verndar ekki rétt fólksins til að vera laust við óeðlileg ríkisafskipti. Ljóst er að gera þarf nokkra bragarbót þar á.

Hér á eftir fylgja nokkrar hugmyndir sem Hið íslenska félag áhugamanna um stjórnskipan vill gjarnan að ræddar verði af stjórnarskrárnefnd.

1. Afnema ber 76. gr. stjórnarskrárinnar.

Svokölluð félagsleg og menningarleg mannréttindi eru ekki mannréttindi. Nýlegir dómar Hæstaréttar þar sem reynt hefur á ákvæðið gefið tilefni til að ætla að í framtíðinni kunni Hæstiréttur að koma að mótun velferðarkerfisins með virkum hætti. Slíkt væri einkar óheppilegt þar sem rétturinn hefur hvorki þekkingu né er í aðstöðu til að útbúa skynsamlegt velferðarkerfi. Aukinheldur er það vafasamt að dómskerfið hlutist í auknum mæli til um hvernig velferðar- og menningarmálum er háttað hérlendis. Slíkar ákvarðanir eiga að vera teknar af löggjafnum eða fólkinu í landinu án milligöngu hins opinbera.

2. Actio popularis.

Það þekkist í stjórnarskrám ýmissa ríkja að fólki sé heimilt að spyrja dómstóla ríkisins hvort tiltekin lög gangi gegn stjórnarskrá eður ei. Í dag er það svo að margt það sem talið er brjóta í bága við stjórnarskrá kemst ekki fyrir dómstóla þar sem þeir taka aðeins fyrir mál að uppfylltum mjög þröngum skilyrðum.

3. Leggja niður forsetaembættið.

Embætti forseta Íslands er firrt valdsembætti sem á að heyra sögunni til.

4. Sameign á náttúruauðlindum og ákvæðum um umhverfisvernd skal hafna.

Sameignarskipulag hefur ekki reynst fólki vel. Í ríkjum sameignarskipulagsins hefur fólk soltið og ekki haft tækifæri til að uppfylla drauma sína. Öflugt umhverfisverndarákvæði er þegar í stjórnarskránni þar sem er eignarréttarákvæði 72. gr. Verður það ákvæði að teljast fullnægjandi en aukinheldur hið eina sem eðlilegt er að setja.

5. Afnema ber VI kafla.

Það er ekki rétt að trúfélög sé studd af ríkisvaldinu. Eðlilegast er að engin félög séu studd af ríkisvaldinu.

6. Einstaklingsframboð.

Meðan einmenningskjördæmi tíðkuðust enn hér á landi var einfalt fyrir fólk að bjóða sig fram til alþingis án þess að tilheyra þar til gerðum stjórnamálasamtökum. Eftir því sem kosningakerfið hefur breyst hefur smá saman verið lokað á þennan möguleika. Að meginstefnu til koma reglur um kosningar fram í kosningalögum og er sú skipan ágæt. Þó væri rétt að stjórnarskráin gerði sérstaklega ráð fyrir rétti einstaklinga til að
bjóða sig fram í kosningum.

Virðingafyllst
F.h. Hið íslenska félag áhugamanna um stjórnskipan
Snorri Stefánsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta