Hoppa yfir valmynd
15. maí 2005 Erindi til stjórnarskrárnefndar 2005-2007

Erindi frá Skýrslutæknifélagi Íslands

Þátttaka Skýrslutæknifélags Íslands í ráðstefnu um endurskoðun stjórnarskrárinnar

Stjórn Skýrslutæknifélags Íslands óskar eftir því að taka þátt í ráðstefnu um endurskoðun stjórnarskrárinnar  laugardaginn 11. júní nk. Óskað er eftir því að taka þátt í 1. málstofu um  lýðræði á upplýsingaöld og 3. málstofu þar sem fjallað verður um Ísland í  alþjóðlegu umhverfi.

Félagið vill vekja athygli á hugmyndum sem tengjast  upplýsingatækni og miklum áhrifum hennar á samfélagið. Þessar hugmyndir gætu  stuðlað að upplýstri umræðu um stjórnarskrána og umbætur á  henni.

Hugmyndirnar lúta m.a. að eftirtöldum þáttum þar sem fyrstu fimm  þættirnir tengjast 1. málstofu en sá síðasti tengist frekar 3.  málstofu:

  1. Birting laga og reglna með rafrænum hætti (sbr. 27. gr.  stjórnarskrárinnar)
  2. Rafrænar kosningar og skoðanakannanir (sbr. t.d. 31.  og 33. gr. stjskr.)
  3. Virk þátttaka almennings á milli kosninga með aðstoð  upplýsingatækni
  4. Áhrif upplýsingatækni á persónuvernd og friðhelgi  einkalífs -  Aukin skráning persónuupplýsinga, m.a. með netvöktun og  eftirlitsmyndavélum, og auðveldur aðgangur að netinu sem tjáningarformi leiðir  til aukinna krafna um að staðið sé vörð um persónuvernd og friðhelgi  einkalífs.
  5. Áhrif upplýsingatækni á tjáningarfrelsið (sbr. 73. gr. stjskr.)  - Auðveldur aðgangur að netinu sem miðli getur leitt til þess að standa þarf  vörð um tjáningarfrelsið og vekur um leið spurningar um hvort vernda þurfi rétt  almennings til upplýsinga betur en hingað til.
  6. Notkun og vernd íslenskrar  tungu og áhrif upplýsingatækni á þennan þátt


Skýrslutæknifélag  Íslands er félag einstaklinga, fyrirtækja og stofnana á sviði upplýsingatækni.  Félagsmenn eru um 800 talsins.

Helstu markmið félagsins eru:

  • að  breiða út þekkingu á upplýsingatækni og stuðla að skynsamlegri notkun  hennar
  • að skapa vettvang fyrir faglega umræðu og tengsl milli  félagsmanna
  • að koma fram opinberlega fyrir hönd fólks í  upplýsingatækni
  • að stuðla að góðu siðferði við notkun  upplýsingatækni
  • að styrkja notkun íslenskrar tungu í  upplýsingatækni

Virðingarfyllst, f. hönd stjórnar
Hólmfríður Arnardóttir, framkvæmdastjóri


Skýrslutæknifélag Íslands
Laugavegi 178
105  Reykjavík
Sími 553 2460/ 690 6070
[email protected]
www.sky.is



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta