Hoppa yfir valmynd
30. maí 2005 Erindi til stjórnarskrárnefndar 2005-2007

Erindi frá Heimssýn

Stjórnarskrárnefnd
Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg
150 Reykjavík

Með bréfi þessu óskar HEIMSSÝN, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eftir því að taka þátt í umræðum á ráðstefnu stjórnarskrárnefndar, um endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands 11. júní n.k. Í tilkynningu um ráðstefnuna kallar stjórnarskrárnefnd eftir hugmyndum frá félagasamtökum og almenningi sem nýtast muni þegar nefndin móti tillögur sínar. Þau sjónarmið sem Heimssýn telur brýnt að koma á framfæri varða umræðuefni 3. málsstofu, Ísland í alþjóðlegu umhverfi.

Í lýsingu á 3. málstofu ráðstefnunnar er því varpað fram sem hugsanlegu umræðuefni hvort taka eigi upp í stjórnarskrá heimild til framsals á einstökum þáttum ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Í umfjöllun nefndarinnar um málstofuna kemur fram að tilefni þess að þetta atriði verði hugsanlega tekið til umræðu sé sívaxandi þátttaka Íslands í alþjóðlegu samstarfi sem reynt hafi á þanþol gildandi ákvæða um fullveldi þjóðarinnar og að meðferð ríkisvalds sé alfarið í höndum innlendra stjórnvalda. Ekki kemur fram hvort nefndin telji að slík heimild skuli horfa til takmörkunar á heimildum til framsals valdheimilda eða til rýmkunar ef breyting yrði gerð.

Samningar um alþjóðlegt samstarf af ýmsu tagi fela sjaldnast í sér framsal ríkisvalds þar sem almennt er um að ræða íslenska ríkisstofnun, Alþingi, ríkisstjórn eða Hæstarétt, sem tekur endanlega ákvörðun um það hvort alþjóðleg samþykkt á sviði löggjafarvalds, framkvæmdavalds eða dómsvalds gengur í gildi hér á landi. Sé hins vegar um að ræða skerðingu á valdheimildum ríkisvaldsins er óumdeilt að til þess þurfi breytingu á stjórnarskránni.

Stjórnarskrárbreytingar eru þungar í vöfum og útheimta endurtekna samþykkt Alþingis með almennum þingkosningum þegar eftir fyrri samþykkt ásamt nýrri samþykkt á næsta þingi að kosningum loknum. Á þennan hátt er leitast við að tryggja hvort tveggja: að kjósendur eigi þess kost að segja álit sitt á breytingunni og nýjum þingmeirihluta gefið tækifæri til að endurskoða ákvörðun þess meirihluta sem stóð að stjórnarskrárbreytingunni.

Eðli máls samkvæmt hlyti breytt tilhögun á hugsanlegu framsali ríkisvalds að fela það í sér að til framsals þyrfti aukinn meirihluta á Alþingi, t.d. þrjá fjórðu greiddra atkvæða, ef þjóðin væri svipt núgildandi rétti sínum til að kjósa nýjan þingmeirihluta áður en stjórnarskrárbreytingin gengi í gildi. Jafnframt væri eðlilegt að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu þegar um verulegt framsal á einhverjum þætti ríkisvalds væri að ræða.

Á sama tíma og Heimssýn fagnar umræðu um þessi mikilvægu mál og bindur vonir við að hún verði upplýst og málefnaleg er bent á mikilvægi þess að skýrt liggi fyrir að hvaða marki er stefnt í vinnu stjórnarskrárnefndar varðandi framsal valdheimilda. Handhafar ríkisvalds þiggja vald sitt frá þjóðinni í skjóli fullveldis landsins og hugmyndir um aukið svigrúm handhafa ríkisvalds til að framselja þessar valdheimildir þarfnast því verulegrar umræðu. Það er von Heimssýnar að nægilegt svigrúm verði veitt á ráðstefnu stjórnarskrárnefndar 11. júní n.k. til umræðna um þetta mikilvæga mál.

F. h. Heimssýnar
Ragnar Arnalds



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta