Hoppa yfir valmynd
02. júní 2005 Erindi til stjórnarskrárnefndar 2005-2007

Erindi frá Lýðræðishópnum

Hér með sendir Lýðræðishópurinn tillögur sínar um endurbætur á stjórnarskrá Íslands. Við væntum þess að þessar tillögur verði birtar á vefsíðu nefndarinnar og verði bornar undir þjóðina sem á þann rétt að dæma endanlega um kosti og galla einstakra tillagna.

Virðingarfyllst,

Elías Davíðsson
f.h. Lýðræðishópsins
30. maí 2005

Tillögur lýðræðissinna um ný ákvæði í Stjórnarskrá Íslands (skýringar við einstök atriði fylgja að aftan)

Um lýðræðið

1. Stjórnarskipan Íslands er lýðræði. Lýðræði grundvallast á þeirri meginreglu að sameiginlegar stofnanir samfélagsins sæki völd sín til íbúa landsins.  Landsmenn eru æðsta vald íslensks samfélags.

2.  Lýðréttindi eru þau mannréttindi sem íbúar landsins verða að geta notið til að viðhalda lýðræðisskipan.

3. Allir íbúar landsins njóti lýðréttinda og skal þar engan greinarmun gera vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, uppruna, eigna, ætternis, búsetu eða annarra aðstæðna.

Um þjóðatkvæðagreiðslu

1.  Þjóðatkvæðagreiðsla fer fram (a) ef forseti synjar lögum frá Alþingi staðfestingar; (b) ef tíu af hundraði atkvæðibærra landmanna krefst þess; (c) ef breyta á stjórnarskrá lýðveldisins; og (d) ef ríkisstjórn Íslands leggur til að Ísland taki þátt í þvingunaraðgerðum eða hernaðaraðgerðum gegn öðru ríki, eða styðji slíkar aðgerðir.

2.  Með þjóðatkvæðagreiðslu fá landsmenn vald til að (a) fella úr gildi lög frá Alþingi; (b) svipta ráðherra eða forseta embætti; eða (c) knýja Alþingi til að taka ákveðið mál til þinglegrar meðferðar.

3.  Alþingi setur lög um framkvæmd þjóðatkvæðagreiðslna.

Um opinbert vald

1. Alþingi staðfestir skipan hæstaréttardómara með 3/4 greiddra atkvæða.

2. Almennum borgurum og frjálsum félagasamtökum er gert kleift, með lögum frá Alþingi, að höfða opinbert mál á hendur ráðherrum og öðrum opinberum starfsmönnum sem gæta eiga almannahags, vegna meintrar brota á stjórnarskrá, brota á almennum hegningarlögum eða brota á alþjóðlegum sakarétti.

Um gegnsæi í lýðræðislegu samfélagi

1.  Lög frá Alþingi tryggja rétt almennra borgara til upplýsinga um áform, ákvarðanir, samninga og framkvæmdir lögaðila um mál er varða almannahag.

2.  Stjórnmálaflokkum sem bjóða til Alþingiskosninga er skylt að lögum að gera grein fyrir fjármögnun sinni, lögum og stefnuskrá.

3.  Fjölmiðlum er skylt að lögum að gera grein fyrir fjármögnun sinni, eigendum og ritstjórnarstefnu.

Lýðræðishópurinn

Arna Ösp Magnúsardóttir,
Birgitta Jónsdóttir,
Elías Davíðsson,
Freyr Björnsson,
Helgi Hrafn Gunnarsson,
Jón Karl Stefánsson,
Kjartan Jónsson,
Ólafur Páll Sigurðsson,
Stefán Þorgrímsson,
Vésteinn Valgarðsson


Skrýringar við tillögur Lýðræðishópsins

A. Almennt

1. Er þörf á lýðræðisendurbótum á Íslandi?

Kosningar til Alþingis fara fram að jafnaði á fjögurra ára fresti. Í þeim kosningum veita kjósendur stjórnarmálaflokkum allt að því ótakmarkað umboð til að fara með völd. Milli kosninga hafa kjósendur hins vegar lítil áhrif á stjórnmál. Þetta leiðir til þess að ákvarðanir Alþingis og stjórnvalda endurspegla oft ekki vilja almennings í landinu.

Það er ríkjandi tilhneiging stjórnvalda, hér sem annars staðar, að vilja ráða ein án þess að leita álits hjá almennum kjósendum. Til þess að vega á móti þessari tilhneigingu þarf að standa vörð um lýðræðið, auka gegnsæi stjórnvaldsaðgerða og veita stjórnvöldum skilvirkara aðhald en kosningar á fjögurra ára fresti gera. Dæmi frá síðustu misserum sýna að stjórnvöld hafa oftar en einu sinni hunsað vilja meirihluta þjóðarinnar í veigamiklum málum. Slík þróun er háskaleg. Þess vegna er nauðsynlegt að styrkja stoðir lýðræðis.

2. Hvað felst í lýðræði?

Lýðræði felur í sér að uppspretta valds í hverju samfélagi sé hjá almennum borgurum. Þeir veita valdhöfum einungis tímabundið og skilyrt umboð til að þjóna almenningi og skipa embættismenn.

Í lýðræðissamfélagi eru stjórnmála- og embættismenn einungis þjónar almennings sem verða í hvívetna að sæta vilja hans. Enn eimir á Íslandi af þeirri hefð 19. aldar að stjórnmála- og embættismenn séu hafnir yfir lög og þurfa ekki að standa almenningi skil á gjörðum sínum. Framferði margra stjórnmála- og embættismanna bendir sterklega til þessa. Lýðræðisbarátta felur í sér vitund um vald almennings.

3. Hver er tilgangur Lýðræðisfrumvarpsins? [sjá   www.kjosa.is]

Í aðdraganda stjórnarskrárbreytinga er nauðsynlegt að stuðla að umræðu í samfélginu um endurbætur á stjórnkerfi og lýðræðinu. Í skjalinu er vikið að nokkrum nauðsynlegum umbótum í þágu lýðræðis, þar með talið rétti almennings til að hafa áhrif á stjórnvaldsaðgerðir án milligöngu stjórnmálaflokka. Lýðræðisfrumvarpið á ekki að vera tæmandi plagg um endurbætur á lýðræði, heldur framlag nokkurra einstaklinga í þágu slíkra endurbóta.

B. Um þjóðaratkvæðagreiðslu

1. Hvað er átt við með þjóðaratkvæðagreiðslu ?

Þjóðaratkvæðagreiðsla þýðir að þjóðin öll, annaðhvort allir kjörgengnir þegnar eða allir íbúar á Íslandi án tillits til þjóðernis, geta kosið um tiltekið mál með beinum kosningum, þ.e. án milligöngu stjórnmálaflokka. Í þjóðaratkvæðagreiðslu er yfirleitt kosið aðeins um eitt ákveðið mál.

2. Hvers vegna á að setja atkvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur í stjórnarskrá?

Stjórnarskrá verður að innihalda grundvallarreglur um stjórnskipan. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru hluti af slíkum grundvallarreglum, sem Alþingi er bundið af.

3. Hvers vegna á þjóðin að geta fellt lög frá Alþingi með þjóðaratkvæðagreiðslu?

Alþingiskosningar tryggja í grófum dráttum að samsetning Alþingis endurspegli vilja þjóðarinnar. En slík trygging nær ekki til afgreiðslu einstakra mála. Stjórnmálaflokkar eru ekki óskeikulir. Þeir geta sett lög í andstöðu við siðferðisvitund þjóðarinnar eða lög sem endurspegla aðeins hagsmuni fárra aðila. Með þjóðaratkvæðagreiðslu veitir þjóðin sér þann grundvallarrétt að taka - í einstökum undantekningatilvikum - ráðin frá Alþingi, enda starfar Alþingi í umboði hennar.

4. Hvers vegna á þjóðin að geta svipt ráðherra og embættismenn umboði með þjóðaratkvæðagreiðslu?

Vald einstakra manna má aldrei vera æðra valdi þjóðarinnar. Ef embættismenn ríkisins gerast sekir um misferli, embættisbrot eða ámælisverðar athafnir í nafni þjóðarinnar, hlýtur þjóðin að áskilja sér rétt til að svipta þá umboði sínu með þjóðaratkvæðargreiðslu. Stjórnkerfið er ekki búið til handa embættis- og stjórnmálamönnum, heldur til þess að þjóna vilja almennings.

5. Hve stórt hlutfall atkvæðisbærra landsmanna þarf til að hrinda af stað þjóðaratkvæðagreiðslu?

Að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu krefst talsverðs átaks af hálfu opinberra aðila. Með aukinni notkun netkerfa má hins vegar búast við að slíkar kosningar verði auðveldari í framkvæmd í framtíðinni. Æskilegt er samt að þjóðaratkvæðagreiðslur verði ekki svo tíðar að almenningur vilji ekki taka þátt í þeim. Það er því rétt að miða þann lágmarksfjölda sem þarf til að hrinda af stað þjóðaratkvæðagreiðslu við raunhæf mörk, til dæmis 5 til 10 af hundraði af tkvæðisbærum landsmönnum.

6. Er nauðsynlegt að bera breytingar á stjórnarskrá undir þjóðina?

Stjórnarskrá er grundvallarskjal þjóðarinnar um stjórnskipan og grundvallarréttindi þegnanna. Það er ekki lýðræðislegt að Alþingismenn búi yfir endanlegu valdi um inntak stjórnarskrárinnar. Stjórnarskrá á að endurspegla í einu og öllu vilja þjóðarinnar án atbeina milliliða.

7. Hvers vegna á þjóðin að taka afstöðu til aðildar Íslands að efnahagsþvingunum eða hernaðaraðgerðum?

Með því að gerast aðilar að efnahagsþvingunum eða hernaðaraðgerðum gegn annarri þjóð, skuldbinda stjórnvöld alla þjóðina. Með óviturlegum aðgerðum geta stjórnvöld stofnað Íslendingum í hættu vegna gagnaðgerða í hefndarskyni, eða gert þjóðina í heild skaðabótaskylda. Það er því nauðsynlegt að tryggja að ákvarðanir stjórnvalda sem valda öðrum þjóðum skaða njóti yfirgnæfandi stuðnings þjóðarinnar.

C. Um opinbert vald

1. Hvað er átt við með þrískiptingu ríkisvaldsins?

Þrír hlutar ríkisvaldsins, framkvæmdavald, löggjafarvald og dómsvald, eru aðgreindir svo að þeir veiti hver öðrum aðhald og til að torvelda að nokkur geti safnað öllum þráðum í hendi sér. Með því að hafa ríkisvaldið þrískipt á hver hluti þess að vera öðrum óháður og unnið er gegn óeðlilegri samþjöppun valds með vinnubrögðum lýðræðisins.

2. Hvers vegna ætti Alþingi að staðfesta skipan hæstaréttardómara?

Við það að einn maður, dómsmálaráðherra, skipi hæstarréttardómar, aukast líkurnar á því að ómálefnalegar ástæður ráði valinu. Með því að færa þetta vald til Alþingis, og krefjast þess að aukinn meirihluti Alþingismanna staðfesti skipanina, er dregið úr þeim líkum. Þetta nýja fyrirkomulag myndi auka til muna sjálfstæði dómsvaldsins gagnvart pólítiskum duttlungum.

3. Hvers vegna ætti almenningur að hafa tækifæri til þess að ákæra embættismenn eða ráðherra?

Hafi opinberir starfsmenn, embættismenn eða ráðherrar gerst sekir um alvarleg brot á stjórnarskrá, alþjóðalögum eða almennum hegningarlögum, er æskilegt að þeir axli þá lagalegu ábyrgð sem af gjörðum þeirra leiðir. Í dag er það á valdi ríkissaksóknara að ákveða hvort höfða skuli opinbert mál vegna slíkra brota. Vilji ríkissaksóknari ekki aðhafast vegna gruns um alvarleg brot ráðamanna, er honum ekki skylt að rökstyðja höfnun sína. Vald hans í þeim efnum er ávísun á spillingu, það er að segja á samtryggingarkerfi valdamanna. Þetta fyrirkomulag hefur leitt til þess að í þeim tilfellum sem ráðamenn hafa tekið þátt í brotum á þjóðarétti, hefur ríkissaksóknari neitað að aðhafast, væntanlega til að styggja ekki valdhafa.

Til að vega á móti aðgerðaleysi ríkissaksóknara vegna brota annarra ráðamanna, er nauðsynlegt að veita almennum borgurum eða samtökum þeirra möguleika til að ákæra ráðamenn og embættismenn vegna alvarlegra brota á stjórnarskrá, alþjóðalögum eða almennum hegningarlögum. Slíkt er til dæmis nauðsynlegt þegar stjórnvaldsaðgerðir bitna á borgurum í öðrum löndum eða þegar ljóst er að þær munu bitna illilega á komandi kynslóðum Íslendinga. Ákveða þyrfti lágsmarksfjölda ákærenda og takmarka ákærur við viss brot.

D. Um gegnsæi

1. Hvers vegna er gegnsæi upplýsinga þýðingarmikið fyrir lýðræðið?

Til þess að almennir borgarar geti myndað sér hlutlæga skoðun á landsmálum og tekið þátt í lýðræðislegu samfélagi, er nauðsynlegt að almennir borgarar hafi greiðan aðgang að upplýsingum sem varða stjórnun samfélagsins. Slíkar upplýsingar er að finna innan stjórnsýslunnar sem og í skjölum opinberra stofnana og stórra fyrirtækja. Meginreglan skal vera að lögin tryggi að upplýsingar frá opinberum aðilum og stórfyrirtækjum séu gegnsæjar. Einnig skulu þeir, sem vilja skerða aðgang almennings að upplýsingum, sanna nauðsyn slíkrar skerðingar.

E. Um stjórnmálaflokka

1. Hvers vegna er æskilegt að stjórnmálaflokkar geri grein fyrir fjármögnun sinni?

Það er vel þekkt að fjársterkir aðilar geti með framlögum til stjórnmálaflokka haft veruleg áhrif á stefnumörkun þeirra. Erfitt er að hindra fjármagnsflæði þar sem bæði veitandi og þiggjandi eru samtaka, en hins vegar er unnt að skylda stjórnmálaflokka að tilgreina uppruna fjármagnsins sem þeir hafa til umráða. Þannig geta borgarar metið hugsanleg áhrif fjársterkra aðila á stefnumörkun flokkanna, hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir.

F. Um fjölmiðla

1. Hvers vegna ættu fjölmiðlar að birta ársreikninga?

Meginástæðan er sú að tryggja að almennir borgarar geti gert sér grein fyrir því hverjir standi að fjölmiðlum og hve mikil fjárhagsleg umsvif þeir hafa. Slík vitneskja hlýtur að skipta máli við mat á fréttaflutningi.

2. Hvers vegna eiga fjölmiðlar að auðkenna birt efni og geta heimilda?

Áhrif fjölmiðla eru óumdeild. Þeir sem ráða yfir fjölmiðlum búa yfir miklu valdi, sem er vandmeðfarið. Að baki hverri frétt liggur óhjákvæmilega afstaða höfundar. Neytendur fjölmiðlar eiga því rétt á að vita hvaðan upplýsingar koma og hverjir hafi samið fréttirnar. Þann rétt þarf að vernda, m.a. til þess að neytendur geti sjálfir sannreynt upplýsingarnar.

3. Hvers vegna ættu fjölmiðlar að birta ritstjórnarstefnu sína?

Þar sem vald fjölmiðla er mikið, en ritstjórar fjölmiðla hvorki kosnir af almenningi né neytendum, eru ritstjórar að miklu leyti einráðir. Til að vega á móti geðþóttavaldi ritstjóra er æskilegt að almenningur, það er að segja neytendur fjölmiðla, fái að vita um þær reglur sem ritstjórar setja sjálfum sér og starfsmönnum sínum um val og meðferð ritstjórnarefnis. Aðeins þeir sem vita um slíkar reglur geta metið hlutlægt frammistöðu fjölmiðlanna.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta