Hoppa yfir valmynd
11. júní 2005 Erindi til stjórnarskrárnefndar 2005-2007

Áherslur Öryrkjabandalags Íslands vegna æskilegra breytinga á mannréttindakafla íslensku stjórnarskrárinnar

Erindi flutt á ráðstefnu stjórnarskrárnefndar 11. júní 2005

Góðir áheyrendur.

Sameinuðu þjóðirnar tilnefndu árið 1981 alþjóðlegt ár fatlaðra. Í kjölfar þess vaknaði fatlað fólk víða til vitundar um rétt sinn til jafnræðis í samfélaginu. Ýmis ríki samþykktu lög um réttindi fatlaðra og Sameinuðu þjóðirnar samþykktu árið 1993 hinar 22 grunnreglur um jafna þátttöku fatlaðra í samfélaginu. Kynnti félagsmálaráðherra þær á Alþingi Íslendinga árið 1996.

Hér á landi voru sett tímamótalög árið 1979 um málefni þroskaheftra. Gildissvið laganna var aukið árið 1984 svo að þau náðu einnig til annarra hópa fatlaðra. Lögin voru endurskoðuð árið 1992 og hafa verið í gildi síðan.

Lög um málefni fatlaðra taka einungis að litlu leyti á mismunun fatlaðra og þá eingöngu gegn misbeitingu opinberra aðila.

Árið 1990 voru samþykkt lög í Bandaríska þinginu, svo kölluð American with Disabilities Act sem banna hvers kyns mismunun vegna fötlunar. Á það jafnt við um atvinnu sem og aðgengi að ýmsum sviðum þjóðfélagsins. Hafa lög þessi valdið straumhvörfum í málefnum fatlaðra víðs vegar um heim.

Innan Evrópusambandsins hefur verið unnið markvisst að því að auka réttindi fatlaðra. Í 13. gr. Amsterdamsáttmálans frá 1999 eru ákvæði um bann gegn mismunun vegna kynferðis, kynþáttar eða þjóðernis, uppruna, trúarbragða eða trúarskoðana, fötlunar, aldurs eða kynhneigðar. Fyrsta tilskipunin sem grundvölluð er á sáttmálanum og fjallar um fötlun tók gildi árið 2000. Þar er lagt bann við mismunun á vinnumarkaði vegna trúarbragða eða trúarskoðana, fötlunar, aldurs eða kynhneigðar. Fleiri tilskipanir munu í undirbúningi sem styrkja eiga stöðu fatlaðra.

Þegar finnska stjórnarskráin frá 1999 er skoðuð, kemur í ljós að ákvæði um fatlaða eru í þremur greinum hennar. Sjötta greinin fjallar um jafnrétti og bann gegn mismunun vegna ýmissa orsaka og þar á meðal fötlunar; í 17. gr. er fjallað um rétt heyrnarlausra til táknáls og kveðið á um löggjöf í því sambandi og 19. greinin fjallar um réttinn til almannatrygginga.

Í stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands er einungis fjallað um málefni öryrkja í 76. gr. þar sem réttur er tryggður til félagslegrar aðstoðar. 65. gr. fjallar ekki sérstaklega um fatlaða þegar sagt er að allir séu jafnir fyrir lögum. Reynslan hér á landi og víðar sýnir hins vegar að nauðsynlegt er að setja sérstök ákvæði um réttindi fatlaðra inn í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.

Í ljósi þess að fatlaðir eru minnihlutahópur í þjóðfélaginu sem þarf að sækja rétt sinn ásamt öðrum hópum sem sérstaklega stendur á um, leggur Öryrkjabandalag Íslands til að 65 gr. stjórnarskrárinnar verði orðu svo:

„Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis eða kynhneigðar, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis, fötlunar, öldrunar og stöðu að öðru leyti“.

Á þessum grunni væri síðan hægt að setja lög um bann gegn mismunun á grundvelli áður greindra atriða.

Þá telur bandalagið brýna nauðsyn bera til að setja ákvæði inn í stjórnarskrána sem tryggi heyrnarlausum rétt til þess að nota táknmál og mætti t.d. taka hliðsjón af 17. gr. finnsku stjórnarskrárinnar.

Arnþór Helgason,
Framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta