Hoppa yfir valmynd
11. júní 2005 Erindi til stjórnarskrárnefndar 2005-2007

Erindi Skýrslutæknifélags Íslands á ráðstefnu stjórnarskrárnefndar

Ráðstefna á vegum stjórnarskrárnefndar 11. júní 2005 á Hótel Loftleiðum.

1. málstofa: Lýðræði á upplýsingaöld

Hugmyndir Skýrslutæknifélags Íslands – Ský

Tekið saman af Eggerti Ólafssyni og Jóhanni Kristjánssyni, stjórnarmönnum í Ský, ásamt Erlu S. Árnadóttur, lögfræðingi og formanni siðanefndar Ský

Flutt af Eggerti Ólafssyni, sem einnig tók þátt í panilumræðum

Fyrir hönd Skýrslutæknifélagsins þakka ég fyrir þetta góða framtak - að gefa félagasamtökum kost á að koma sínum málum á framfæri hér í dag.

Örstutt um félagið; Það var stofnað árið 1968 og er því 37 ára gamalt. Félagsmenn eru um 800 talsins og eru flestir fagmenn á sviði upplýsingatækni (UT). Félagið stendur fyrir ráðstefnum og fundum, 10-12 á ári, þar sem koma saman um eða yfir 100 manns á hverjum atburði. Við erum virk samtök meðal þeirra sem vinna við UT, en ekki mjög þekkt úti í þjóðfélaginu.

Helstu markmið félagsins eru:

1. Að breiða út þekkingu á UT og stuðla að skynsamlegri notkun hennar.

2. Að skapa vettvang fyrir faglega umræðu og tengsl á milli félagsmanna.

3. Koma fram opinberlega fyrir hönd fólks í UT (ekki mjög virk hér).

4. Að stuðla að góðu siðferði við notkun UT.

5. Að styrkja notkun íslenskrar tungu í UT (Orðanefnd, Tölvuorðasafnið).

Við viljum benda á nokkrar hugmyndir eða möguleika sem UT býður upp á, en við vitum öll að UT hefur haft gríðarleg áhrif á samfélagið undanfarin ár og nægir þar að benda á bókhalds- og viðskiptakerfi, vefinn og notkun tölvupósts og má segja að nútímasamfélag eins og okkar væri ekki til án upplýsingatækni. Það væri einfaldlega ómögulegt að ná fram þeirri hagræðingu og hraða á öllum sviðum ef ekki væru alls kyns UT-kerfi sem gerðu okkur þetta mögulegt. UT er þannig mikilvæg undirstaða velferðarsamfélagsins eins og við þekkjum það í dag.

Við teljum mikilvægt að þeir sem eru að undirbúa breytingu á stjórnarskránni, séu meðvitaðir um þá möguleika sem UT býður upp á og hvaða áhrif hún getur haft. Í þessu sambandi nefnum við eftirtalin atriði:

1. Birting laga og reglna með rafrænum hætti. Þetta mætti gera að skyldu. Að ýmsu leyti er þessum málum ágætlega sinnt af Alþingi, en það mættu vera mun meiri tengingar, t.d. í úrskurði og dóma, álit og greinargerðir til þess að auðvelda almenningi og öðrum að skilja hvernig lögin virka í reynd – hvernig þau eru framkvæmd.

2. Rafrænar kosningar og skoðanakannanir. Það hafa verið gerðar tilraunir með rafrænar kosningar og það hefur verið kosið með rafrænum hætti. Margar kannanir eru rafrænar í dag. Helstu kostir við að hafa kannanir og kosningar rafrænar eru: Mun minni kostnaður, minni tími og ætti að auðvelda kosningar oftar en nú er, t.d. kosningar um einstök málefni á milli hefðbundinna kosninga.

Rafræn auðkenni munu breiðast út fljótlega og auðvelda þessa framkvæmd.

3. Virk þátttaka almennings á milli kosninga með aðstoð UT. Hér má t.d. nefna kannanir eða kosningar um einstök mál. Það eru líka til umræðutorg, gagnvirk fjölmiðlun yfir Internetið, gagnvirkt sjónvarp o.fl.

4. Áhrif UT á persónuvernd og friðhelgi einkalífs.

Mjög auðvelt er að koma alls kyns efni á framfæri á Netinu, með UT, æskilegu sem óæskilegu.

Notkun manna á netinu er almennt skráð. Af því leiðir að eftirlitsmöguleikar eru gífurlegir án þess að fólk geri sér grein fyrir því. Þá má nefna að fáar reglur eru til um efnisinnihald á Internetinu. Við bætist skipuleg skráning persónuupplýsinga, t.d. með eftirlitsmyndavélum.

Þetta leiðir til aukinna krafna um að staðið sé vörð um persónuvernd og friðhelgi einkalífs.

5. Áhrif UT á tjáningarfrelsið (sbr. 73. gr. stjskr). Með UT er mögulegt að tjá sig með allt öðrum hætti en áður var, sértaklega á Netinu sem má segja að sé alls staðar, m.a. inni á svo til hverju heimili. Þetta er í raun ný tegund fjölmiðlunar þar sem saman kemur skrifað mál, talað mál, myndir, tónlist og hreyfimyndir með hljóði.

(6. Notkun og vernd íslenskrar tungu og áhrif UT á þennan þátt. – þetta á frekar heima í 3ju málstofu um Ísland í alþjóðlegu umhverfi og verður fulltrúi félagsins þar)

Við teljum mikilvægt að stjórnarskrárnefnd sé meðvituð um þessa möguleika UT, bæði jákvæða og neikvæða, þegar hún endurskoðar stjórnarskrána. Þessir möguleikar voru auðvitað ekki til staðar þegar stjórnarskráin var samin í upphafi og heldur ekki almennt þekktir þegar hluti hennar var endurskoðaður fyrir 10 árum síðan.

Þá er rétt að hafa í huga að tækniþróunin heldur áfram. Við teljum mikilvægt að það verði ekki takmarkandi ákvæði í stjórnarskránni þegar kemur að nýtingu UT innan stjórnsýslunnar.

Stjórn Ský lýsir sig reiðubúna til þess að leggja þessu máli lið með hvaða hætti sem henta þykir!

Eggert Ólafsson.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta