Hoppa yfir valmynd
13. júní 2005 Erindi til stjórnarskrárnefndar 2005-2007

Erindi frá Náttúruvaktinni til stjórnarskrárnefndar

Endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands

Almanna- og umferðarréttur

Náttúruvaktin hefur það að standa vörð um íslenskar náttúruperlur og þar með talin réttindi almennings til að náttúru og umhverfis. Rétturinn til að njóta náttúrunnar er grundvallargildi í okkar samfélagi.

Tillaga stjórnar Náttúruvaktarinnar að almanna- og umferðarréttarákvæði í VII. kafla íslensku stjórnarskránar:

„Almenningi skal tryggður umferðarréttur um land, ár og vötn og dvöl þar í lögmætum tilgangi. Þeir er fara um landið skulu sýna fyllstu aðgát og ganga vel um þannig að náttúru landsins og auðlindum sé ekki spillt.“

Nánari útfærslur verði í náttúruverndarlögum sem og öðrum réttarheimildum.

Greinargerð

Mikilvægi þess að vernda náttúruna er óskorað. Almenningur hefur í auknum mæli gert sér grein fyrir verðmæti íslenskrar náttúru og mikilvægi hreins og heilnæms umhverfis. Ákvæði sem varða samskipti manns og náttúru er hins vegar að finna dreifð í fjölda laga og reglugerða, sem gerir umferðarrétt almennings ekki eins skýrar og æskilegt er.

Í stjórnarskránni eru ákvæði um friðhelgi eignaréttarins (72. gr.). Þrátt fyrir að rétturinn til að njóta eigna sinna sé tryggður í stjórnarskrá er hann engu að síður með ákveðnum takmörkunum er lúta að almannahagsmunum. Mikil lífsgæði felast í því að eiga aðgang að óspilltri náttúru. Allir eiga rétt til njóta náttúru og náttúrugæða, óháð eignarhaldi. Margir sækja í náttúru landsins ævintýri, lífsfyllingu og innri ró. Varðveisla náttúruarfsins er því um leið varðveisla mikilvægra lífsgæða.

Það er frumforsenda fyrir því, að menn geti notið náttúru landsins, að þeir eigi færi á að komast út í náttúruna og dveljast þar. Mikill meirihluti íbúa landsins býr nú í þéttbýli og á ekki annan aðgang að landsins gæðum en þeim sem byggja á almanna- og umferðarrétti. Þrátt fyrir að eignaréttur sé varinn í stjórnarskrá má sá réttur ekki rýra réttindi almennings til að njóta náttúrunnar og dvelja þar enda séu í lögum settar fram ítarlegar reglur til að tryggja hagsmuni bæði náttúru og eignaraðila svo sem frekast er unnt.   Hér vegast á hagsmunir landeigenda og hagsmunir þeir, sem tengdir eru aðgengi almennings að náttúru landsins. Liggur sú skoðun til grundvallar, sem byggir á réttarfarslegri arfleifð,  að hagsmunir landeigenda vegi minna en almannahagsmunir. Hins vegar verður að gera miklar kröfur til gangandi fólks um góða  umgengnishætti, og leitast við að  skapa mönnum aðhald í því efni.

Á síðari árum hafa orðið miklar breytingar á eignarhaldi lögbýla. Sífellt fleiri landeigendur leitast við að merkja landareignir sínar með það að markmiði að hefta aðgang almennings um landið, þvert ofan í fyrirmæli laga. Dæmi um slíkar merkingar eru skilti með áletrunum svo sem „Einkavegur“ eða  „Óheimill aðgangur“. Þá eru vandtalin þau tilvik þar sem landeigendur hafa  reynt að hefta för manna um ár, vötn og strendur. Þessum tilvikum fer fjölgandi. Þar sem margir nýir landeigendur virðast vera lítt kunnugir almanna- og umferðarrétti telur stjórn Náttúruvaktarinnar tímabært að almanna- og umferðarréttur verði tryggður í stjórnarskrá.

Náttúruverndar- og vatnalögin* tryggja verndun náttúru og almanna- og umferðarétt. Ákvæði í stjórnarskránni myndi. Á sama hátt og eignaréttarákvæðið tryggja þennan rétt enn fremur, jafnframt því að umferðarréttur verði ekki háður einföldum meirihlutavilja á Alþingi hverju sinni.  Er það skoðun stjórnar Náttúruvaktarinnar að það sé  tímabært að staðfesta þennan rétt allra manna  í stjórnarskránni.

Reykjavík 10. júní 2005,
f.h. Stjórnar Náttúruvaktarinnar,
Ásta Þorleifsdóttir

 *III kafli laga nr 44 / 1999 um náttúruvernd

III. KAFLI
Almannaréttur, umgengni og útivist.
12. gr.
Réttindi og skyldur almennings.
Almenningi er heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi.
Öllum er skylt að ganga vel um náttúru landsins og sýna ýtrustu varúð þannig að henni verði ekki spillt.

13. gr. För um landið og umgengni.
Á ferð sinni um landið skulu menn sýna landeiganda og öðrum rétthöfum lands fulla tillitssemi, virða hagsmuni þeirra, m.a. vegna búpenings og ræktunar, þar á meðal skógræktar og landgræðslu, og fylgja leiðbeiningum þeirra og fyrirmælum varðandi ferð og umgengni um landið.
Fara skal eftir merktum leiðum og skipulögðum stígum og vegum eftir því sem auðið er, hlífa girðingum, fara um hlið eða göngustiga þegar þess er kostur og ef farið er um lokuð hlið skal loka þeim eftir að gengið hefur verið um þau. Sérstök aðgát skal höfð í nánd við búsmala, selalátur, varplönd fugla, veiðisvæði og veiðistaði.
För manna um landið er ekki á ábyrgð eiganda lands eða rétthafa að öðru leyti en því sem leiðir af ákvæðum annarra laga og almennum skaðabótareglum.



 

Um umferðarrétt almennings um ár og vötn er fjallað í vatnalögum. Þau lög eru nú til endurskoðunar og þykir eðlilegt að fella ákvæði um umferð almennings um vötn inn í náttúruverndarlög þar sem þau lög hafa að geyma almenn ákvæði um umferðarrétt almennings. Í III. kafla þeirra laga er jafnframt að finna almennar umgengnisreglur sem gilda í náttúrunni og ákveðnar takmarkanir á umferðarrétti, svo sem varðandi merkingar o.fl. Litið er svo á að þau ákvæði gildi einnig um umferð um vötn eftir því sem við getur átt.

- - - - -

1) Í greininni er að finna tvær meginreglur, annars vegar um heimild manna til að ferðast um landið og dvelja þar og hins vegar um góða umgengni þeirra við náttúru þess. Í 1. mgr. 14. gr. gildandi laga er almenningi heimiluð för um landsvæði utan landareigna lögbýla á grundvelli þeirrar meginreglu að mönnum sé heimil för um landið, hvort heldur er innan eða utan landareigna lögbýla, svo og dvöl í lögmætum tilgangi. Í næstu greinum er síðan kveðið á um takmarkanir á þessari meginreglu. Í 2. mgr. er lögð til almenn varúðarregla og kveðið á um að öllum sé skylt að ganga vel um náttúru landsins og sýna ýtrustu varúð þannig að henni verði ekki spillt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta