Hoppa yfir valmynd
13. júní 2005 Erindi til stjórnarskrárnefndar 2005-2007

Fylgiskjal við erindi Barnaheilla til stjórnarskrárnefndar

31. maí 2005

Réttur til velferðar barna. – 3. mgr. 76. gr. stjskr og Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

Í 76.gr. stjskr. er fjallað um nokkur grundvallarréttindi á sviði efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda (1). Greinin kveður á um skyldur löggjafans í ákveðnum efnum í stað þess að setja honum skorður líkt og er megineinkenni mannréttindaákvæðanna í 65.-74. gr. stjskr (2).

Hér er um að ræða nýlegt ákvæði sem kom inn í stjórnarskrána með stjskl. nr. 97/1995. 3. mgr. 76. gr. er eina dæmið í mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar þar sem tilteknum þjóðfélagshópi er veitt sérstök vernd, en það var gert í samræmi við alþjóðlega þróun á þessu sviði sem áður hafði leitt til þess að á vegum Sameinuðu þjóðanna var gerður alþjóðlegur samningur um réttindi barnsins.

Hvað varðar alþjóðlega vernd á réttindum barnsins má einnig benda á 1.,2., og 3. mgr. 24. gr. samningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 4. mgr. 23. gr. sama samnings. Í íslenskri löggjöf eru dæmi um sérlög sem tengjast beinlínis réttindum barnsins auk fjölda dreifðra ákvæða á ýmsum sviðum sem stefna að því að tryggja velferð barnsins. Mikilvægust þessara laga eru barnalög nr. 20/1992 og lög um vernd barna og ungmenna nr. 58/1992. Loks má benda á að með lögum nr. 83/1994 var sett á stofn sérstakt embætti umboðsmanns barna. Stofnun umboðsmanns barna sýndi að hér á landi, rétt eins og á alþjóðavettvangi, hefur verið fallist á að börn séu sérstaklega viðkvæmur hópur sem þarfnist sérstakrar verndar og málsvara til að gæta hagsmuna sinna. 3. mgr. 76. gr. stjskr. var mikilvæg árétting á þessari staðreynd en stjórn Barnaheilla vill hvetja löggjafann til enn frekari dáða í þeim efnum og er þessi tillaga okkar hluti af því.

26. janúar 1990 var Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá 20. nóvember 1989 undirritaður fyrir Íslands hönd með fyrirvara um fullgildingu. Alþingi heimilaði ríkisstjórninni með ályktun þann 13. maí 1992 að fullgilda bókunina og 28. október 1992 var aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna afhent fullgildingarskjal Íslands vegna samningsins. Samningurinn um réttindi barnsins öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 27. nóvember 1992.

Samningurinn um réttindi barnsins er um margt sérstæður í samanburði við aðra mannréttindasamninga sem hafa verið gerðir á vegum Sameinuðu þjóðanna. Fyrst er hægt að nefna að samningurinn er merkilegur vegna þeirrar staðreyndar að gerð hans fól í sér alþjóðlega viðurkenningu á því að réttindi barna væru ekki nægilega vernduð í þeim alþjóðlegu mannréttindasamningum sem þegar höfðu verið gerðir. Með því að gera samning um réttindi barna náðist samstaða um að þau séu sérstakur hópur með eigin réttindi og sérstaklega viðkvæmur hópur sem þarfnist sérstakrar verndar sem er ekki nægilega veitt með almennum mannréttindaákvæðum  í öðrum alþjóðlegum samningum.

Orðalag 3. mgr. 76. gr. stjskr. sækir fyrirmynd sína í 2. mgr. 3. gr. barnasamningsins, en þar segir að með hliðsjón af réttindum og skyldum foreldra eða lögráðamanna eða annarra sem bera ábyrgð að lögum á börnum, skuldbindi aðildarríki sig til þess að tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst og skuli í því skyni gera allar nauðsynlegar ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu.

Vandasamt er að skilgreina svo nákvæmt sé hvaða vernd og ummönnun börn þarfnast til þess að velferð þeirra sé tryggð. Þar vegast m.a. á þau sjónarmið annars vegar að barni sé að jafnaði best komið hjá foreldrum sínum og fjölskyldu og hins vegar að ekki sé hægt að láta aðbúnað og meðferð barna afskiptalausa við þær aðstæður ef velferð þess er ógnað. Hér koma líka til sögunnar sjónarmið um að löggjafanum beri að tryggja foreldrum viðunandi aðstæður og möguleika á að annast uppeldi barna sinna. Eru því í reynd margþætt atriði sem liggja því til grundvallar að börn geti notið velferðar og sem bestu uppvaxtarskilyrða. Í dag er litið til ákvæða barnasamningsins til að leita vísbendinga um hvað löggjafanum beri að tryggja til þess að svo verði. Er þar safnað saman á einum stað margvíslegum réttindum sem aðildarríki skuldbinda sig til þess að tryggja börnum innan yfirráðasvæðis síns, án tillits til þess hvar þau standa í hefðbundinni flokkun borgaralegra, stjórnmálalegra, efnahagslegra, félagslegra eða menningarlegra réttinda.

Barnaheill vill ganga lengra og í stað þess að hafa samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins einungis til hliðsjónar viljum við að ákvæðum hans verði veitt stjórnarskrárvernd því þannig teljum við að velferð og réttindi íslenskra barna verði tryggð sem allra best eins og íslenska ríkinu ber skylda til að gera þar sem það hefur fullgilt umræddann samning.


1) Við gerð eftirfarandi texta var stuðst við  Gunnar G. Schram, Stjórnskipunarréttur, 2. útgáfa frá 1999 og skýrslu Íslands um framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem Dóms- og kirkjumálaráðuneytið gaf út.
 
2) Ákvæðin um trúfrelsi, jafnræði, veitingu og missi ríkisborgararéttar og ferðafrelsis, persónufrelsi, bann við pyntingum og nauðungarvinnu, bann við afturvirkni  refsilaga og dauðarefsingu, réttláta málsmeðferð fyrir dómstólum, friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu, friðhelgi eignaréttar, tjáningarfrelsi, félaga- og fundafrelsi



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta