Hoppa yfir valmynd
09. nóvember 2005 Fundargerðir stjórnarskrárnefndar 2005-2007

Fundargerð 9. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur

Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu hinn 10. október 2005 klukkan 8.30 árdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jón Kristjánsson (formaður), Steingrímur J. Sigfússon, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson. Guðjón A. Kristjánsson og Jónína Bjartmarz voru forfölluð. Þá var einnig mætt sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson (formaður), Gunnar Helgi Kristinsson og Kristján Andri Stefánsson. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.

Formaður tilkynnti að breytingar hefðu orðið á skipan nefndarinnar. Geir H. Haarde hefði óskað eftir að vera leystur frá nefndarstörfum og hefði Bjarni Benediktsson alþingismaður verið skipaður í hans stað. Þorsteinn Pálsson hefði verið skipaður varaformaður nefndarinnar í stað Geirs.

Lögð var fram fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt. Þá var lögð fram fundargerð 7. fundar og var hún samþykkt með nokkrum breytingum.

Nokkrar umræður urðu um hvernig gera ætti fundargerðirnar úr garði. Var gerð athugasemd við að þær ættu það til að endurspegla ekki nógu vel viðhorf fulltrúa stjórnarandstöðunnar. Eins komu fram þau sjónarmið að fundargerðirnar væru á stundum full ítarlegar. Formaður minnti á að ákveðið hefði verið í upphafi að ef menn óskuðu þess að fá að lýsa hugmyndum án þess að um það yrði bókað væri þeim það í sjálfsvald sett. Eins gætu menn óskað eftir því sérstaklega að bókað yrði um þeirra afstöðu undir nafni.

Lagðar voru fram til upplýsingar fundargerðir fyrstu 16 funda sérfræðinganefndar.

2. Erindi sem borist hafa nefndinni

Engin ný erindi höfðu borist nefndinni frá síðasta fundi.

3. Drög að áfangaskýrslu

Haldið var áfram umræðu um drög að áfangaskýrslu sem byrjuð var á síðasta fundi. Formaður minnti á að drögin væru lögð fram meðal annars til þess að stuðla að markvissri umræðu í nefndinni. Hins vegar ætti vissulega eftir að ræða ýmis atriði nánar sem þar væru tilgreind í niðurstöðuköflum. Fram komu ýmsar efnislegar athugasemdir við drögin. Einnig var óskað eftir því að áður en áfangaskýrslan yrði afgreidd færi fram rækilegri umræða um einstaka efnisþætti.

Formaður beindi því til ritara að endurskoða drögin að áfangaskýrslu fyrir næsta fund. Vel kæmi til álita að leggja drögin svo til hliðar um tíma á meðan nefndin færi betur yfir einstaka efnisþætti stjórnarskrárinnar.

4. Efnisleg umræða um einstök stjórnarskrárákvæði

Formaður sérfræðinganefndarinnar kynnti endurskoðuð drög að I. kafla stjórnarskrárinnar um stjórnarform og grundvöll stjórnskipunarinnar. Voru drögin rædd og sérfræðinganefndinni síðan falið að kanna nánar útfærslu á ákvæði um yfirráðasvæði íslenska ríkisins (landhelgi, lofthelgi, efnahagslögsaga, landgrunns- og hafsbotnsréttindi).

5. Önnur mál

Minnt var á tvær ráðstefnur sem stæðu fyrir dyrum. Annars vegar væri fyrirhuguð ráðstefna um þjóðaratkvæðagreiðslur 29. október kl. 11 í Öskju, náttúrufræðihúsi, í samstarfi við Stofnun stjórnmála og stjórnsýslufræða þar sem allir flokkar myndu eiga fulltrúa í pallborði. Hins vegar yrði haldið málþing um ráðherraábyrgð 28. október kl. 14 í Lögbergi.

Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 11.30. Var næsti fundur ákveðinn í Þjóðmenningarhúsinu að morgni miðvikudagsins 9. nóvember frá kl. 8.30-12.00.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta