Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2005 Fundargerðir stjórnarskrárnefndar 2005-2007

Fundargerð 10. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur

Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu hinn 9. nóvember 2005 klukkan 8.30 árdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Guðjón A. Kristjánsson, Jón Kristjánsson (formaður), Jónína Bjartmarz, Kristrún Heimisdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson. Þá voru einnig mættir úr sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Eiríkur Tómasson (formaður) og Gunnar Helgi Kristinsson. Björg Thorarensen og Kristján Andri Stefánsson voru forfölluð. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.

Formaður tilkynnti að breytingar hefðu orðið á skipan nefndarinnar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefði óskað eftir að vera leyst frá nefndarstörfum og hefði Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur verið skipuð í hennar stað.

Lögð var fram fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt.

Einnig voru lögð fram ýmis gögn sem sérfræðinganefndin hafði unnið að beiðni stjórnarskrárnefndar, þ.e. minnisblað um ákvæði um forseta í nýlegum stjórnarskrám – ásamt viðauka, minnisblað um tilhögun á skoðun lagafrumvarpa og minnisblað um dómstólakafla stjórnarskrárinnar – ásamt viðauka. Þá voru lagðar fram til upplýsingar fundargerðir 17. og 18. fundar sérfræðinganefndar.

2. Erindi sem borist hafa nefndinni

Lögð voru fram erindi frá Jóhanni J. Ólafssyni og Þorsteini S. Þorsteinssyni. Fram kom beiðni um að ritari upplýsti hversu hátt hlutfall erinda varðaði mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.

3. Drög að áfangaskýrslu

Formaður lagði til að drögin að áfangaskýrslu yrðu lögð til hliðar um sinn á meðan nefndin kæmist lengra í hinni efnislegu umræðu um mismunandi kafla stjórnarskrárinnar. Hins vegar væri engin ástæða til að bíða með að birta á heimasíðu nefndarinnar greinargerðir sérfræðinganefndarinnar.

Var tillagan samþykkt.

4. Efnisleg umræða um einstök stjórnarskrárákvæði

Byrjuð var efnislega umræða um forsetaembættið. Var ákveðið að halda henni áfram á næsta fundi.

5. Önnur mál

Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 12.00. Var næsti fundur ákveðinn í Þjóðmenningarhúsinu að morgni mánudagsins 21. nóvember frá kl. 8.30-12.00.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta