Hoppa yfir valmynd
25. október 2006 Fundargerðir stjórnarskrárnefndar 2005-2007

Fundargerð 18. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur

Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu hinn 12. september 2006 klukkan 10.00 árdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Guðjón A. Kristjánsson, Jón Kristjánsson (formaður), Jónína Bjartmarz, Kristrún Heimisdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson. Bjarni Benediktsson var forfallaður. Þá voru einnig mætt úr sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson (formaður) og Gunnar Helgi Kristinsson. Kristján Andri Stefánsson var forfallaður. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.

 Lögð var fram fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt.

 

2. Erindi sem borist hafa nefndinni

 Engin ný erindi höfðu borist nefndinni frá síðasta fundi.

 

3. Efnisleg yfirferð yfir mögulegar stjórnarskrárbreytingar

 -         79. gr. stjskr.

Eiríkur Tómasson gerði grein fyrir minnisblaði sérfræðinganefndarinnar um æskilegar breytingar á 1. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar. Umræðurnar snerust um hvort rétt væri að gera kröfu um aukinn meirihluta á þingi eða setja þátttökuþröskuld í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar stjórnarskrárbreytingar væru afgreiddar. Annars vegar var lögð áhersla á að búa þyrfti svo um hnúta að stjórnarskrárbreytingar yrðu ekki gerðar nema um þær væri víðtæk sátt. Hins vegar var varað við því að minnihluti þingmanna og jafnvel einn stjórnmálaflokkur hefði neitunarvald um breytingar. Þá gætu þátttökuþröskuldar í sambandi við þjóðaratkvæðagreiðslu boðið heim hættu á að hvatt yrði til þess að fólk sæti heima, sem væri ólýðræðislegt. Margir tóku undir að þjóðin ætti að vera stjórnarskrárgjafinn. Ennfremur kom fram að vert væri að tryggja að hæfilegur tími liði milli umræðna um breytingar á Alþingi vegna þess að þá gæfist færi á víðtækri almennri umræðu á meðan enn væri unnt að gera breytingar á tillögum. Þá þyrfti að taka afstöðu til þess hversu langur tími ætti að líða milli afgreiðslu Alþingis og þjóðaratkvæðagreiðslu.

 Var samþykkt að formaðurinn fengi umboð til að fara yfir fyrirliggjandi hugmyndir og leggja fram tillögu í framhaldinu.

 -       auðlindaákvæði

Eiríkur Tómasson rifjaði því næst upp tillögu auðlindanefndar frá árinu 2000 um ákvæði sem mælti fyrir um þjóðareign á náttúruauðlindum sem ekki væru í einkaeigu. Í umræðum var meðal annars kallað eftir því að gerð yrði úttekt á því hvaða lögfræðilegu- og hagfræðilegu álitamál kynnu að rísa í kjölfar samþykktar slíks ákvæðis. Ennfremur að gefið yrði yfirlit yfir þá fræðilegu umræðu sem átt hefði sér stað um eignarrétt að auðlindum síðan auðlindanefnd lauk störfum. Þá þyrfti að liggja fyrir hvað fælist í óbeinum eignarréttindum, til dæmis varðandi fiskveiðiheimildir.

Aðrir sögðu að ekki væri þörf á viðbótarálitsgerðum og ekki ætti að vera torvelt að ná samkomulagi um ákvæði af þessu tagi. Það mætti þó slípa ákvæðið til. Þannig komu fram athugasemdir við að samkvæmt tillögu auðlindanefndar væri skylt í öllum tilfellum að innheimta gjald vegna afnota af auðlindum í þjóðareigu.

 

 4. Önnur mál

 Formaður lagði að lokum til að næsti fundur yrði helgaður umræðu um framhald nefndarstarfsins.

 Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 12.30. Var næsti fundur ákveðinn í Þjóðmenningarhúsinu fimmtudaginn 28. september frá kl. 13-17.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta