Hjörtur Hjartarson - Umsögn um fyrstu áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndar
Álitamál sem velt er upp í 1. áfangaskýrslu hinnar nýju stjórnarskrárnefndar Alþingis hafa þegar verið afgreidd af hálfu kjósenda.
Þann 20. október 2012 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur Stjórnlagaráðs að nýrri og endurskoðaðri stjórnarskrá, en ráðið skilaði Alþingi tillögum sínum í formi frumvarps 29. júlí 2011, svo sem lög gerðu ráð fyrir. Auk þess sem kjósendur voru spurðir um nýja og endurskoðaða stjórnarskrá í heild sinni, það er tillögu Stjórnlagaráðs, voru þeir spurðir sérstaklega út í helstu nýjungar sem ákveðnar greinar tillögunnar fólu í sér. Nýungarnar – allar nákvæmlega útfærðar í tillögunni - vörðuðu náttúruauðlindir, stöðu þjóðkirkjunnar, persónukjör, jafnt vægi atkvæða og þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði kjósenda. Svör kjósenda sem greiddu atkvæði voru mjög afgerandi, samkvæmt eftirfarandi tölum frá Hagstofu Íslands:Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá? - Já, 66,9%
Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign? - Já 82,9%
Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi? - Já 57,1%
Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er? - Já 78,4%
Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt? - Já 66,5%
Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu? - Já 73,3%
Formsins vegna var umrædd þjóðaratkvæðagreiðsla „ráðgefandi“, en það stafar af því að núgildandi stjórnarskrá er túlkuð þannig að hún leyfi ekki að Alþingi boði til bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þess má geta að Danir sniðu slíkan ólýðræðislegan annmarka af sinni stjórnarskrá uppúr miðri síðustu öld. Þar eru þjóðaratkvæðagreiðslur um breytingar á stjórnarskrá bindandi, að uppfylltu skilyrði um 40% kosningaþátttöku. Í heilbrigðu nútímaríki sem virðir grundvallarreglur lýðræðis er það enda sjálfsagt mál.
Alþingi ber siðferðileg og pólitísk skylda til að virða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem það boðaði til 20. október 2012. Stjórnmálaflokkar sem eiga sæti á fulltrúasamkomunni geta ekki aflétt þeirri lýðræðisskyldu af Alþingi, eða komið sér undan því að sinna henni, með því að vísa til formsatriðis. Lýðræði er hornsteinn íslensks samfélags og verður ekki ýtt til hliðar með formsatriði.
Undir lok síðasta kjörtímabils hafði stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fullunnið frumvarp að nýrri stjórnarskrá, frumvarp byggt á tillögum Stjórnlagaráðs, sem Alþingi hafði í raun fengið frá þjóðinni, en þátttaka almennings í endurskoðun stjórnarskrárinnar hefur réttilega vakið heimsathygli.
Illu heilli kom þáverandi minni hluti á Alþingi, stjórnarandstaðan, í veg fyrir að frumvarp að nýrri stjórnarskrá kæmi til atkvæða fyrir síðustu alþingiskosningar. Var það gert með málþófi sem gekk svo langt að því verður ekki lýst öðruvísi en sem ofbeldi eða valdaráni. Því miður lét meiri hlutinn það yfir landsmenn ganga í stað þess að koma Alþingi, fulltrúasamkomunni, til varnar og stöðva ofbeldið. Hráskinnaleik stjórnmálaflokka með stjórnarskrá landsins verður að linna. Stjórnarskráin er sameiginleg eign landsmanna, en ekki stjórnmálaflokkanna.
Frumvarp að nýrri stjórnarskrá liggur fyrir fullunnið af hálfu Alþingis og í samræmi við vilja kjósenda. Næsta skref er að Alþingi virði niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012 og samþykki frumvarpið.
Reykjavík, 30. september 2014,
Hjörtur Hjartarson