14. fundur stjórnarskrárnefndar
Dagskrá
- Fundargerð síðasta fundar
- Umsagnir og athugasemdir við áfangaskýrslu (1) og önnur umræða um stjórnarskrármál
- Tilhögun starfsins á næstunni
- Áframhaldandi umfjöllun um efnisatriði:
a) Embætti forseta Íslands
b) Alþingi
c) Ríkisstjórn og ráðherrarUmræður - Önnur mál
Fundargerð
14. fundur – haldinn föstudaginn 10. október 2014, kl. 10.30, í Safnahúsinu (Þjóðmenningarhúsinu), stofu Hannesar Hafstein, Reykjavík.
Mættir voru eftirtaldir: Páll Þórhallsson, formaður, Aðalheiður Ámundadóttir, Birgir Ármannsson, Jón Kristjánsson, Katrín Jakobsdóttir, Páll Valur Björnsson, Valgerður Bjarnadóttir og Valgerður Gunnarsdóttir.
Þá sat fundinn Sif Guðjónsdóttir, lögfræðingur á löggjafarskrifstofu forsætisráðuneytis og ritari nefndarinnar.
Sigurði Líndal var veitt lausn frá skipun í nefndina með bréfi forsætisráðherra, dags. 11. september 2014.
Páll Þórhallsson var skipaður formaður, án tilnefningar, með bréfi forsætisráðherra, dags. 24. september 2014.
Skúli Magnússon hefur sagt sig úr stjórnarskrárnefnd, sbr. bréf dags. 1. október 2014, og verið veitt lausn, sbr. bréf forsætisráðherra, dags. 9. október 2014.
Nýr formaður, Páll Þórhallsson, setti fundinn og stýrði honum.
1. Fundargerð síðasta fundar
Fundargerð 13. fundar, sem haldinn var föstudaginn 5. september 2014, var send nefndarmönnum með tölvupósti 9. október. Fundargerðin var samþykkt án athugasemda.
2. Umsagnir og athugasemdir við áfangaskýrslu (1) og önnur umræða um stjórnarskrármál
Athugasemdafrestur vegna fyrstu áfangaskýrslu rann út 1. október síðastliðinn. Send var út fréttatilkynning 12. september, þar sem minnt var á frestinn.
Lagður var fram til kynningar listi yfir þær umsagnir/ábendingar sem borist hafa, 97 talsins. Umsögnum/ábendingum má skipta í fjóra flokka á grundvelli fjölda og umfangs efnislegrar umfjöllunar, nánar tiltekið svo:
- Mótmæli við starfi stjórnarskrárnefndar – 90 umsagnir.
- Umfjöllun um 1-2 efnisatriði í fyrstu áfangaskýrslu – 4 umsagnir.
- Umfjöllun um 3-4 efnisatriði í fyrstu áfangaskýrslu – 2 umsagnir.
- Athugasemd við framsetningu í mótmælapósti – 1 umsögn.
Samtals 97 umsagnir.
Skriflegt yfirlit og útdráttur úr erindum/umsögnum verður sent nefndarmönnum og í kjölfarið sett á vefinn stjornarskra.is.
Nefndarmenn ræddu mögulegar ástæður þess að umsagnir væru ekki fleiri en raun ber vitni, þar á meðal að farið væri að gæta þreytu gagnvart áralangri umfjöllun um málefni stjórnarskrár, auk þess sem margir hefðu komið sjónarmiðum sínum á framfæri á fyrri stigum. Á hinn bóginn megi vænta þess að áhugi glæðist eftir því sem verkefni nefndarinnar miðar áfram.
Að því er varðar liðinn „önnur umræða um stjórnarskrármál“ liggur fyrir að Háskólinn á Akureyri mun halda málþing 1. desember næstkomandi og hefur áhuga á samvinnu við nefndina. Formaður reifaði málaleitan HA og fékk umboð nefndarinnar til áframhaldandi undirbúnings málsins.
3. Tilhögun starfsins á næstunni
Nýr formaður lýsti sig sammála fyrirliggjandi hugmyndum um að vinna við útfærslur á hugmyndum nefndarmanna hefjist sem fyrst, í samræmi við bókun í síðustu fundargerð.
Nefndarmenn ræddu tilhögun starfsins á næstunni. Fjalla þarf nánar um þau atriði sem sátt var um í nefndinni að setja í forgang, sbr. áfangaskýrsluna, þar á meðal í samhengi við þau erindi sem bárust.
4. Áframhaldandi umfjöllun um efnisatriði
a) Embætti Forseta Íslands
Fyrirliggjandi er minnisblað um þetta efni (drög nr. 2), dags. 6.5.2014. Samþykkt að bætt verði við minnisblaðið umfjöllun um almenn atriði og að svo búnu fái nefndarmenn hefðbundinn frest til að skila inn skriflegum athugasemdum.
b) Alþingi
Allri umfjöllun frestað.
c) Ríkisstjórn og ráðherrar
Allri umfjöllun frestað.
5. Önnur mál
Ekkert var tekið fyrir undir þessum lið.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 11.45.
SG skrifaði fundargerð.