1. fundur um stjórnarskrármál
Fundur formanna stjórnmálaflokka,
sem sæti eiga á Alþingi, um stjórnarskrármál
1. fundur – haldinn föstudaginn 23. febrúar 2018, kl. 15, í Ráðherrabústaðnum.
Fundargerð
Mætt eru: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra (VG), Inga Sæland (Flokki fólksins), Sigurður Ingi Jóhannsson (Framsóknarflokki), Bergþór Ólason (Miðflokki) í forföllum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem er staddur erlendis, Helgi Hrafn Gunnarsson (Pírötum), Logi Einarsson (Samfylkingu), Bjarni Benediktsson (Sjálfstæðisflokki) og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (Viðreisn).
Þá situr fundinn Unnur Brá Konráðsdóttir, sem forsætisráðherra hefur falið að vera verkefnisstjóri stjórnarskrárendurskoðunar, og Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri forsætisráðuneytinu, sem ritar fundargerð.
KJ setur fundinn og rifjar upp að þótt formennirnir hafi hist tvisvar á undanförnum vikum til að ræða stjórnarskrármál þá sé þetta 1. formlegi fundurinn um þetta efni á þessu kjörtímabili.
1. Minnisblað um fyrirhugaða endurskoðun stjórnarskrár
KJ leggur fram minnisblað dags. 23. febrúar 2018 um fyrirhugaða endurskoðun stjórnarskrár. Um er að ræða sama minnisblað og KJ kynnti áður fyrir hópnum og hefur verið gert aðgengilegt á vef Stjórnarráðsins en með nokkrum breytingum þó. KJ greinir frá því að eftir samráð við aðra formenn hafi UBK verið valin verkefnisstjóri. Þá sé nú gert ráð fyrir að mögulega séu 7 í sérfræðinganefnd í stað 5. Skerpt sé á atriðum varðandi upplýsingamiðlun og samráð. Ræða þurfi hvort fundir formannanna eigi að vera opnir að einhverju marki. Einnig hvort gera eigi ráð fyrir árlegri umræðu á Alþingi um efnið. Þá þurfi að ræða vel hvernig samráði verði háttað og hvort leita eigi til almennings snemma í ferlinu varðandi forgangsröðun málefna.
Óskar KJ eftir viðbrögðum við því hvort fundarmenn séu sáttir við það upplegg sem komi fram í minnisblaðinu.
Í kjölfarið er efni minnisblaðsins rætt. Fram kemur hjá einum fundarmanna að taka eigi fyrst fyrir breytingarákvæði stjórnarskrárinnar. Það muni auðvelda hans flokki að skuldbinda sig til þátttöku í vinnunni ef fyrir liggi í upphafi að hvað sem öðru líður þá verði breytingarákvæðið lagað. Annar fundarmaður tekur undir að byrja eigi á breytingarákvæðinu. Hjá sumum öðrum koma fram þau viðhorf að ekki eigi að setja slík skilyrði í upphafi – ekki eigi að gefa sér að ekkert eða lítið muni koma út úr vinnunni. Þá sé breytingarákvæðið ekki endilega auðvelt viðureignar, menn þurfi að minnsta kosti að hugsa sig vel um áður en stjórnarskrárbreytingar eru gerðar auðveldari. Breytingaferli eigi jafnvel þvert á móti að vera þunglamalegt. Fram kemur sá almenni skilningur á orðalagi minnisblaðsins að þar sé ekki verið að negla niður fyrirfram í hvaða röð málefni verði tekin fyrir (innan kjörtímabils) og því ekki hægt að draga neinar ályktanir af því að breytingaákvæði sé nefnt síðast.
Spurt er hvort gert sé ráð fyrir að formenn geti tilnefnt aðra til setu í hópnum. KJ kveður svo ekki vera en í tilfelli Pírata hafi verið fallist á að Helgi Hrafn yrði fulltrúi þótt hann sé ekki formaður enda sé enginn formaður hjá þeim.
Fram kemur hjá einum fundarmanna að samráð við almenning sé gríðarlega mikilvægt. Tekur hann sem dæmi að stjórnlagaráðsferlið hafi verið mjög gagnsætt. Á árunum 2013-2016 hafi ferlið verið of lokað. Fundi eigi að hafa sem mest opna, e.t.v. ekki sérfræðingafundi en formannafundina a.m.k. Sumir aðrir fundarmenn eru andsnúnir opnum fundum formanna sem meginreglu. Það kunni að leiða til þess að fundarmenn verði ekki jafn lausnamiðaðir. Það viðhorf kemur fram að meginatriði sé að formennirnir geti talað óheft saman og haga verði upplýsingamiðlun út frá því sjónarmiði hvað muni gagnast verkefninu. Þá kemur fram almennur vilji til að tryggja gegnsæi eftir fremsta megni.
Varðandi samráð við almenning er samhljómur með fundarmönnum varðandi nauðsyn þess að skipuleggja það mjög vel og nota bæði upplýsingatækni, rökræðukannanir, mögulega skoðanakannanir og hefðbundnari fundaaðferðir. Fram kemur það sjónarmið að menn þurfi í ljósi reynslunnar að vera undir það búnir að áhugi almennings á opnum fundum um málið kunni að reynast takmarkaður.
Fram koma hjá einum fundarmanna áhyggjur af hlutverki sérfræðinganefndar. Tilvist hennar geti dregið úr hinni pólitísku hugsjón. Menn muni spyrja, hvar liggur ákvörðunarvald í lokin?
Fram kemur hjá einum fundarmanna að hann hafi ekki verið hrifinn af því að stytta endurskoðunartímann úr þremur kjörtímabilum í tvö, sbr. tillögur sem voru ræddar á síðasta kjörtímabili. En úr því sem komið er í viðræðum flokkanna verði svo að vera.
2. Skipan sérfræðinganefndar
KJ reifar stöðu mála varðandi skipan sérfræðinganefndar. Nokkrar umræður skapast um samsetningu nefndarinnar og fram koma óskir um að fundarmenn fái að bera þau nöfn sem helst er rætt um undir bakland sitt. KJ óskar eftir að fá viðbrögð ekki síðar en á þriðjudag, 27. febrúar. Ráðrúm þurfi að gefast fyrir næsta fund til að ræða við viðkomandi en það hafi ekki verið gert enn.
3. Önnur mál
KJ kveðst munu boða næsta fund fljótlega, eftir 1-2 vikur. Þar verði stefnt að því að ganga endanlega frá minnisblaðinu, ákveða fundaplan fram á sumar, skipan sérfræðinganefndar og nánara fyrirkomulag almenningssamráðs.
Óskir koma fram um yfirlit yfir tillögur um breytingarákvæði og upprifjun á ferli undanfarinna ára og hvernig mál hafi staðið þegar vinnunni lauk árið 2016. Jafnframt að fundarmenn fái möppu með helstu gögnum sem fyrir liggja eftir vinnu undanfarinna ára og boðaður verði vinnufundur til að fara yfir þau í kjölfarið.
Fundi slitið kl. 16.15.