2. fundur um stjórnarskrármál
sem sæti eiga á Alþingi, um stjórnarskrármál
2. fundur – haldinn fimmtudaginn 5. mars 2018, kl. 16, í Ráðherrabústaðnum.
Fundargerð
Mætt eru: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra (VG), Inga Sæland (Flokki fólksins), Sigurður Ingi Jóhannsson (Framsóknarflokki), Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (Miðflokki), Helgi Hrafn Gunnarsson (Pírötum), Logi Einarsson (Samfylkingu), Bjarni Benediktsson (Sjálfstæðisflokki) og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (Viðreisn).
Þá situr fundinn Unnur Brá Konráðsdóttir, verkefnisstjóri stjórnarskrárendurskoðunar, og Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri forsætisráðuneytinu, sem ritar fundargerð.
1. Fundargerð síðasta fundar
Lögð eru fram drög að fundargerð síðasta fundar. Eru þau samþykkt með einni breytingu. Þá er samþykkt að fundargerðir skuli birtar á vef Stjórnarráðsins.
2. Minnisblað um fyrirhugaða endurskoðun stjórnarskrár
Rætt er um minnisblað forsætisráðherra um fyrirhugaða endurskoðun stjórnarskrár. Sérstaklega var rætt um fjölda í sérfræðinganefnd og röð sem viðfangsefni verða tekin fyrir í á fyrra kjörtímabili.
3. Skipan sérfræðinganefndar
Rætt um skipan sérfræðinganefndar. Forsætisráðherra mun í kjölfar fundar halda áfram samráði við formenn flokkanna til að ná lendingu í því efni.
4. Fyrirkomulag samráðs við almenning
UBK greinir frá fyrstu hugmyndum um nánara fyrirkomulag upplýsingamiðlunar og almenningssamráðs. Hún og PÞ áttu fund 28. febrúar sl. með Guðbjörgu Andreu Jónsdóttur forstöðumanni Félagsvísindastofnunar HÍ og Róberti Bjarnasyni framkvæmdastjóra Íbúa ses. Félagsvísindastofnun hefur tekið þátt í tilraunum með rökræðukannanir hér á landi. Íbúar ses. hafa aðstoðað sveitarfélög við að þróa vefviðmót þar sem íbúar rökræða ýmsar tillögur og hugmyndir, d. Betri Reykjavík, sjá nánar betraisland.is. Þá hefur félagið þróað kerfi sem eru notuð af nokkrum opinberum aðilum erlendis og mun grænlenska stjórnarskrárnefndin t.d. opna vef 1. apríl nk. sem þróaður hefur verið í samstarfi við Íbúa ses.
Um það bil 50 mismunandi aðferðir eru til sem geta fallið undir hugtakið almenningssamráð. Að setja drög að skjölum á vefinn og bjóða upp á athugasemdir er ein þeirra. Rökræðukannanir eru önnur aðferð. Þriðja er sú að gefa almenningi kost á að færa fram rök með og á móti hugmynd og jafnframt að notendur geti greitt atkvæði um rökin.
Rökræðukannanir fela í sér að tilteknum hópi sem á að endurspegla þverskurð þjóðarinnar eru sendar upplýsingar um tiltekið málefni. Síðan er gerð könnun um afstöðu hópsins til þess. Þá er haldinn fundur (1-2 daga) þar sem málefnið er rökrætt með aðkomu sérfræðinga. Í lokin er aftur gerð könnun og athugað hvort viðhorf hafi breyst. Þátttakendur þurfa að vera 200-300 til þess að úrtakið endurspegli nægilega vel kjósendur. Kostnaður við eina rökræðukönnun er áætlaður að minnsta kosti 20 milljónir kr.
Í umræðum formannanna kemur fram að við nánari útfærslu þurfi að taka mið af því að sum efni kunna að henta betur í ítarlegt opið samráð heldur en önnur vegna þess að þau hafi verið minna rædd. Kafli um forseta og framkvæmdarvald hefur til dæmis verið nefndur sem hentugt viðfangsefni fyrir rökræðukönnun.
5. Fundaáætlun næstu mánuði
Stefnt er að næsta fundi í fyrstu viku eftir páska.
6. Önnur mál
Fleira ekki rætt.
Fundi slitið kl. 17.00.