Hoppa yfir valmynd
04. maí 2018 Stjórnarskrárendurskoðun 2018

4. fundur um stjórnarskrármál

Fundur formanna stjórnmálaflokka,
sem sæti eiga á Alþingi, um stjórnarskrármál

4. fundur – haldinn föstudaginn 4. maí 2018, kl. 13-15, í Ráðherrabústaðnum.

Fundargerð

Mætt eru: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra (VG), Inga Sæland (Flokki fólksins), Sigurður Ingi Jóhannsson (Framsóknarflokki), Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (Miðflokki), Helgi Hrafn Gunnarsson (Pírötum), Logi Einarsson (Samfylkingu) og Bjarni Benediktsson (Sjálfstæðisflokki). Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (Viðreisn) er forfölluð vegna veikinda.

Þá situr fundinn Unnur Brá Konráðsdóttir, verkefnisstjóri stjórnarskrárendurskoðunar, og Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri forsætisráðuneytinu, sem ritar fundargerð.

1. Fundargerð síðasta fundar

Lögð eru fram drög að fundargerð síðasta fundar. Samþykkt án athugasemda.

2. Fundaáætlun 2018 og tilhögun fundar í júní

UBK kynnir fundaáætlun fyrir þetta ár og þá sérstaklega dagskrá fyrirhugaðs fundar á Þingvöllum 13. júní.

Fyrir fundinn var send út ný útgáfa af samantekt um stöðu mála. Í því sambandi koma fram koma óskir um að fyrir Þingvallafundinn verði tekið saman efni sem greinir núgildandi heimildir til framsals ríkisvalds og ber þær saman við tillögur sem fram hafa komið. Þá er þess einnig óskað að tekið verði saman efni um áhrif nýs auðlindaákvæðis hvort sem miðað er við tillögur frá 2012-2013 eða 2016. Er verið að festa tiltekið réttarástand í sessi og hverju er bætt við miðað við núgildandi rétt? Í því samhengi er einnig spurt hvernig þessar tillögur snúi að ákvæði stjórnarskrár um vernd eignarréttar. Fram kemur ábending um að ekki eigi að einskorða umfjöllun um þjóðaratkvæðagreiðslur við þær sem fara fram á grundvelli undirskrifta heldur eigi að einnig að fjalla um þann möguleika að minnihluti þingmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá eigi í þessu samhengi einnig að ræða 26. gr. stjórnarskrárinnar.

Fram kemur spurning um vinnulag, þ.e. hvernig eigi að taka á því ef 1-2 flokkar séu mótfallnir breytingum. KJ svarar því til að þetta sé í raun órætt en setja þurfi þessa spurningu á dagskrá síðar. Ekki sé að vænta neinnar endanlegrar ákvarðanatöku á Þingvallafundinum. Fram kemur spurning um það hvort flokkarnir sjái fyrir sér að gefa eitthvað út um þeirra afstöðu eftir Þingvallafundinn. Ekki er tekið undir þá hugmynd enda geti slíkt minnkað svigrúm til samninga. Þó megi auðvitað búast við því að flokkarnir ræði stöðu mála innan sinna vébanda.

Fulltrúi Pírata áréttar að það sé forsenda fyrir þátttöku Pírata í starfinu að allt efni frumvarps stjórnlagaráðs sé til umfjöllunar í þessari heildarendurskoðun.

3. Samráð við almenning, kynning á leiðum

UBK kynnir til sögunnar þrjá gesti sem hún og PÞ hafa verið í sambandi við til undirbúnings umræðu undir þessum lið. Jón Ólafsson prófessor frá Eddu Öndvegissetri við HÍ, Róbert Bjarnason frá Íbúar ses. og Hafsteinn B. Einarsson eru boðnir velkomnir og halda þeir glærukynningar um málefnið. Fram kemur að Guðbjörg Jónsdóttir forstöðumaður Félagsvísindastofnunar sé forfölluð vegna ferðar erlendis. Gestirnir leggja til þrjár mismunandi leiðir til að grafast fyrir um viðhorf almennings til stjórnarskrárendurskoðunar. Leggja þeir áherslu á að ekki sé að neinu leyti verið að færa völd yfir ferlinu frá þar til bærum aðilum. Í fyrsta lagi hefðbundin skoðanakönnun með u.þ.b. 3000 manna úrtaki. Í öðru lagi rökræðukönnun um valin efni með u.þ.b. 300 manna úrtaki (sem yrði valið úr þeim hópi sem tók skoðanakönnunina) og í þriðja lagi svokölluð lýðvistun (crowd-sourcing) þar sem almenningi gæfist kostur á að setja fram hugmyndir tengdar stjórnarskránni og rökræða þær, gjarnan einnig með þátttöku stjórnmálamanna og sérfræðinga. Fram kemur lausleg kostnaðaráætlun ef allar þrjár leiðirnar yrðu farnar, sem er það sem gestirnir mæla með. Fram kemur einnig í umræðum að til viðbótar megi svo ganga út frá að haft verði samráð um skjöl frá formannahópnum í samráðsgátt stjórnvalda og síðar á Alþingi eftir framlagningu frumvarpa.

Eftirfarandi atriði komu fram í umræðum eftir kynningarnar:

Hvaða mál henta í viðhorfs- og rökræðukönnun? Sum viðfangsefnin eru ef til vill ekki líkleg til að vekja almennan áhuga eins og til dæmis hvort ríkisstjórnin eigi að vera fjölskipað stjórnvald. Á það er bent í því sambandi að leiðirnar þrjár feli í sér að um leið sé verið að koma upplýsingum á framfæri og gefa fólki kost á að kynna sér mál betur. Þá sé skynsamlegt að hanna viðhorfs- og rökræðukönnun þannig að spurt sé frekar vítt um málefni en ekki afmörkuð ákvæði. Hér sé meira um upphafsskref stefnumótunar að ræða heldur en nákvæmar útfærslur. Fram koma sjónarmið um að gæta verði að því að hverfa ekki aftur á upphafspunkt heldur nýta það sem komið er en nota samráð til stuðnings.

Hvaða með málefni sem eru lengra komin í útfærslu? Rifjað er upp að fram að þessu hefur verið gengið út frá að II. kafli stjórnarskrárinnar fari í ítarlegt samráð með rökræðukönnun öfugt við efni eins og auðlindaákvæði og þjóðaratkvæðagreiðslur. Rökin séu þau að síðarnefndu efnin séu það langt komin í fyrri vinnu og umræðan á vettvangi flokkanna farin að snúast um tiltölulega tæknileg útfærsluatriði. En hvernig mun það leggjast í almenning að nálgast samráðið með þessum hætti? Fram kemur að auðvitað verði einnig haft samráð um þessi síðarnefndu efni þótt það verði með öðrum hætti. Þá megi hugsa sér að nota viðhorfskönnunina í upphafi til að finna út hvar séu átakafletir og hvar áhugi almennings liggi helst – sigta út efni sem henta í rökræðukönnun. Loks sýni reynslan að fólk fagni því að á það sé hlustað fremur en að það hafi væntingar um að það ráði niðurstöðunni.

Hvaða vitneskju færir rökræðukönnun? Spurt er hvaða upplýsingar muni fást út úr rökræðukönnun. Verður þetta nýr þjóðfundur sem skilar litlu efnislegu? Því er svarað til að rökræðukönnunin verði ekki eins og þjóðfundur að því leyti að þess sé vandlega gætt að ekki komi út úr honum óskalisti heldur verði fólk látið velja á milli valkosta og látið vega og meta andstæða hagsmuni.

Hvernig er hægt að glæða áhuga á ferlinu? Fram koma áhyggjur af því að erfitt kunni að reynast að vekja almennan áhuga á stjórnarskránni og endurskoðun hennar. Því er svarað til að einboðið sé að hefja samráðið með kynningarherferð. Þá skipti máli að nú þegar séu mörg þúsund manns skráðir notendur Betra Íslands, verði það kerfi notað. Loks geti stjórnmálamenn og sérfræðingar aukið áhuga á efninu með því taka sjálfir virkan þátt, t.d. í lýðvistunarþættinum.

Hvað með kostnaðinn? Fram koma vissar áhyggjur af kostnaðinum við samráðið ekki síst í ljósi þess hve mikið samráð hefur átt sér stað á fyrri stigum. Öðrum vex hann ekki í augum til dæmis í samanburði við kostnað af þjóðfundinum 2010.

Er þörf á svo víðtæku samráði? Töluverðar umræður skapast um hvort skynsamlegt sé að eyða svo miklu púðri í samráð eins og kynnt hafi verið. Í því sambandi er rifjað upp að í minnisblaði forsætisráðherra sem er grundvöllur samstarfs flokkanna á þessu sviði er mikil áhersla á samráð og getið um rökræðukönnun. Sumir telja að víðtækt samráð og gagnsæi sé forsenda þess að verkefnið takist vel. Þá er bent á að samráðið muni væntanlega nýtast til að byggja brýr en þá þurfi að gæta þess að öll sjónarmið komist að. Umræðan verði ekki einokuð þröngum hópi manna.

Á hinn bóginn er bent á að stjórnarskrá sé hugsuð til að skapa stöðugleika gegn sveiflum tíðarandans. Það að skrifa hana á grundvelli ríkjandi tíðaranda geti reynst varasamt. Þá verði að gæta þess að vekja ekki væntingar um útkomu sem flokkarnir geti svo ekki staðið við.

4. Önnur mál

Fleira ekki rætt.

Fundi slitið kl. 15.00


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta