Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2018 Stjórnarskrárendurskoðun 2018

8. fundur um stjórnarskrármál

Fundur formanna stjórnmálaflokka,
sem sæti eiga á Alþingi, um stjórnarskrármál

8. fundur – haldinn fimmtudaginn 29. nóvember 2018, kl. 12.00-13.00, í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu.

Fundargerð

Mætt eru: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra (VG), Bjarni Benediktsson (Sjálfstæðisflokki), Helgi Hrafn Gunnarsson (Pírötum), Logi Einarsson (Samfylkingu), Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (Miðflokki) og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (Viðreisn).
Forföll höfðu boðað Inga Sæland (Flokki fólksins) og Sigurður Ingi Jóhannsson (Framsóknarflokki).

Þá situr fundinn Unnur Brá Konráðsdóttir, verkefnisstjóri stjórnarskrárendurskoðunar, og Sif Guðjónsdóttir, lögfræðingur í forsætisráðuneytinu, sem ritar fundargerð.

1. Fundargerð síðasta fundar
Lögð eru fram drög að fundargerð síðasta fundar. Afgreiðslu er frestað vegna þess að tveir eru fjarverandi. Sendur verður út póstur á hópinn og óskað eftir athugasemdum innan tiltekins tíma.

2. Umhverfisákvæði
Fundarmenn fengu drög að texta með tölvupósti sl. mánudag, 26. nóvember. Að skjalinu hefur unnið Aagot Vigdís Óskarsdóttir lögfræðingur og leitast eftir að bregðast við umræðum og athugasemdum á fundi hópsins á Þingvöllum. Texti greinargerðar hefur verið þéttur umtalsvert, þar á meðal aukið við umfjöllun um erlendan rétt til samanburðar.

KJ leggur til að skjalið verði sett í opið samráð í Samráðsgátt ráðuneyta á vefnum Ísland.is, sbr. það skipulag vinnunnar sem lagt hefði verið upp með. Fram kemur að í því muni ekki felast yfirlýsing um að vinnu við skjalið sé lokið eða skuldbinding um að verða flutningsmenn að því. Breytingar væru að sjálfsögðu mögulegar í kjölfar samráðs. KJ ítrekar mikilvægi þess að vinna hópsins sé gegnsæ og framgangur verksins sýnilegur. Gert hafi verið ráð fyrir að hafa samráð um einstaka þætti verkefnisins jafnóðum og tillögur væru orðnar nægilega mótaðar á vettvangi hópsins.

Fundarmenn telja breytingar á skjalinu til bóta en fram koma ábendingar annars vegar um að í ákvæðinu þurfi hugsanlega að ganga lengra varðandi rétt almennings til upplýsinga og hins vegar að í greinargerð komi skýrt fram hvort ákvæðið myndi leiða af sér víðtækari almannarétt heldur en núgildandi náttúruverndarlög kveða á um.

Fram kemur það sjónarmið hjá tveimur fundarmönnum að heppilegra sé að samráð um umhverfisákvæðið verði samhliða samráði um auðlindaákvæðið. Ekki er gert ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki fyrr en eftir áramót.

Fundarmenn eru sammála um að birting til samráðs eigi ekki að fara fram fyrr en um það sé samkomulag í hópnum.

Einn fundarmanna telur sig ekki geta stutt samráðsferli um einstök ákvæði fyrr en ljóst sé orðið að fram undan, til lengri tíma litið, sé heildarendurskoðun. Þetta þurfi að vera alveg skýrt og gagnsætt, enda hafi áður komið fram að þátttaka hans sé byggð á þeirri forsendu.

Rætt er um mismunandi sýn flokkanna á hvaða viðfangsefni séu mikilvægust, þá nálgun sem KJ hafi lýst og lagt hafi verið upp með í verkefninu sem og mismikið umfang fyrirliggjandi vinnu og umfjöllunar á vettvangi stjórnmálanna varðandi einstök atriði.

KJ telur rétt að líta svo á að næst liggi fyrir að fjalla um auðlindaákvæðið og þegar það sé komið í fullnægjandi horf verði ákvæðin tvö birt í Samráðsgáttinni. Með hliðsjón af umræðum á fundinum sé að vænta skriflegrar tillögu KJ varðandi áframhaldandi vinnslu verkefnisins.

3. Önnur mál
Ákveðið að UBK kanni möguleika á tímasetningu næsta fundar og sendi í þeim tilgangi út tvær dagsetningar.

Fleira ekki rætt.

Fundi slitið kl. 13.00.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta