18. fundur um stjórnarskrármál
Fundur formanna stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi, um stjórnarskrármál, haldinn föstudaginn 1. nóvember 2019, kl. 13.00-15:00, í Ráðherrabústaðnum að Tjarnargötu.
Fundargerð
Mætt eru: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra (VG), Bjarni Benediktsson (Sjálfstæðisflokki), Helgi Hrafn Gunnarsson (Pírötum), Logi Einarsson (Samfylkingu), Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (Miðflokki) og Sigurður Ingi Jóhannsson (Framsóknarflokki).
Inga Sæland (Miðflokki) og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (Viðreisn) eru forfallaðar. Þá situr fundinn Unnur Brá Konráðsdóttir, verkefnisstjóri stjórnarskrárendurskoðunar, og Oddur Þorri Viðarsson, lögfræðingur í forsætisráðuneytinu, sem ritar fundargerð. Gestir fundarins eru Guðbjörg Andrea Jónsdóttir og Jón Ólafsson (2. liður).
1. Fundargerð síðasta fundar
Fundargerð síðasta fundar er samþykkt.
2. Rökræðukönnun – kynning á framkvæmd
Guðbjörg Andrea Jónsdóttir kynnir dagskrá rökræðukönnunar sem fram fer helgina 9.-10. nóvember nk. Kynningarefni fyrir þátttakendur hefur verið unnið á íslensku og ensku í samvinnu við James S. Fishkin, prófessor við Stanford-háskóla. Fishkin mun jafnframt taka að sér þjálfun umræðustjóra. Fram kemur að kynningarefnið sé í lokafrágangi. Rætt er um möguleikann á því að forsætisráðherra opni fundinn og slíti honum. Þá eru formenn annarra flokka hvattir til að mæta og fylgjast með.
Heildarfjöldi þátttakenda er nú í kringum 280 manns en gert er ráð fyrir nokkrum afföllum. Verið er að vinna úr kynja- og aldursskekkju í þýðinu en ólíklegt er að takist að jafna út skekkju á menntunarstigi og búsetu. Til að fá fleiri þátttakendur utan höfuðborgarsvæðisins hefur verið ákveðið að hækka styrki vegna ferðakostnaðar.
Jón Ólafsson fer yfir skipulag fundarins. Hver umræða mun hefjast í umræðuhópum í 75 mínútur og í kjölfarið hafa þátttakendur tækifæri til að bera álitaefni undir sérfræðinga. Markmiðið er að kanna hvernig skoðanir hvers þátttakanda breytast eftir umræðuna. Það mun taka nokkurn tíma að vinna úr niðurstöðunum en nú er gert ráð fyrir að skýrsla verði tilbúin í lok janúar. Þó er ekki útilokað að einhverjar niðurstöður verði ljósar fljótlega eftir fundinn.
Í umræðum koma fram vangaveltur um hugsanlegar niðurstöður rökræðufundarins og hvernig þær geti nýst í framhaldinu. Þá geti aðferðafræðin hugsanlega nýst við ákvarðanatöku í öðrum málum.
3. Landsdómur og ráðherraábyrgð
UBK fer yfir stöðu málsins að því er varðar aðkomu sérfræðings að gerð lagafrumvarps. Í umræðum kom fram að sérfræðingi verði ekki falið að taka afstöðu til pólitískra álitaefna á borð við það hvort sérstakur Landsdómur verði áfram starfandi, aðkomu þingsins, o.s.frv. Svörin við slíkum spurningum verði ekki tekin frá Alþingi. Hins vegar sé unnt að fela sérfræðingi, einum eða fleiri, að vinna yfirlit um kosti og galla mismunandi leiða og gera í kjölfarið tillögur um útfærslu þeirrar leiðar sem ákveðið verður að fara.
4. Verklagið á komandi misserum
Forsætisráðherra kallaði eftir sjónarmiðum um forgangsröðun atriða sem tekin verða til skoðunar á þessu kjörtímabili og hvort önnur mál geti hugsanlega bæst við dagskrána. Nefnd hafa verið nefnd málefni á borð við dómstóla, vægi atkvæða, sveitarstjórnir og ákvæði um íslenska tungu.
Ákveðið er á næsta fundi verði lagt fram yfirlit yfir stöðu þeirra málefna sem fara á yfir á þessu kjörtímabili miðað við upphaflega áætlun áður en frekari ákvarðanir verði teknar um að bæta við málefnum.
5. Umhverfisákvæði með breytingum eftir samráð
UBK kynnir breytingar á ákvæðinu eftir yfirferð umsagna sem hafa borist. Ákveðið var að boða Aagot V. Óskarsdóttur, lögfræðing, á fund en hún vann að ákvæðinu og kom að yfirferð athugasemda í samvinnu við forsætisráðuneytið.
6. Önnur mál
Ákveðið að næsti fundur verði föstudaginn 6. desember kl. 12-14.
Fleira ekki rætt.
Fundi slitið kl. 14:15.