Hoppa yfir valmynd

Fáni Íslands

Gerð fánans

Hinn almenni þjóðfáni

Íslenski fáninnAf lýsingu þjóðfánans í 1. gr. fánalaganna kemur eftirfarandi fram: Bláu stangarreitirnir eru ferningar, þ.e. allar hliðar þeirra jafnlangar og ytri bláu reitirnir eru jafnbreiðir ferningunum tveimur, en tvöfalt lengri. Rauði krossinn á að vera í miðjum hvíta krossinum, en við það myndast jafnbreiðar hvítar rendur meðfram rauða krossinum. Breidd rauða krossins á að vera 1/9 af breidd fánans, en breidd hvítu randanna helmingi minni, þ.e. 1/18 af breidd fánans.

Í fánalögunum segir að fánalitirnir séu „heiðblár", „eldrauður" og „mjallhvítur“. Til að taka af vafa að því er snertir litina er nú miðað við alþjóðlega litastaðla eins og fram kemur í auglýsingu forsætisráðuneytisins.

Í auglýsingu um liti íslenska fánans kemur fram að upplýsingar um fánaliti veitir forsætisráðuneytið og erlendis sendiráð Íslands. Ennfremur skal fáninn í réttum litum og hlutföllum vera til sýnis í Þjóðminjasafni Íslands og hjá lögreglustjórum landsins.

Ríkisfáninn

Rikisfáninn

Ríkisfáninn (tjúgufáninn) er hinn almenni þjóðfáni klofinn að framan. Hann er að því leyti frábrugðinn hinum almenna þjóðfána, að ytri reitir hans eru þrefalt lengri en stangarreitirnir og klauf er upp í hann að framan, skorin eftir beinum línum, sem dregnar eru frá ytri hornum fánans inn að miðlínu hans á þann hátt að þær skera innjaðra ytri reitanna, þar sem saman koma 4/7 ytri og 3/7 innri hluta lengdar þeirra. Þar sem nefndar línur nema við arm rauða krossins er hann þverskorinn.

Fáni forseta Íslands

Fáni forseta Íslands er hinn íslenski ríkisfáni (tjúgufáni), en þar sem armar krossanna mætast í fánanum er skjaldarmerki Íslands og skjaldberar á hvítum ferhyrndum reit.

Tollgæslufáni

Tollgæslufáni er ríkisfáninn með upphafstéi (T) í miðjum efri stangarreit. Téið er silfurlitt. Hæð tésins er helmingur af breidd fánareitsins.

Smáfánar

Smáfánar

Um borðfána, bílfána og aðra smáfána fer, að því er varðar liti og stærðarhlutföll reita og krossa, samkvæmt almennum reglum um þjóðfánann, ákvæðum fánalaga og auglýsingu um fánaliti.

Aðeins forsætisráðherra, forseti sameinaðs Alþingis og forseti Hæstaréttar geta notað fánann á bílum, þegar þeir ferðast í embættiserindum. 

Fánaveifur, fánaborðar o.fl.

Hinar almennu reglur um þjóðfánann gilda ekki um fánaveifur og fánaborða að öðru leyti en því, að ætíð skal nota rétta fánaliti. Breidd hvítu randarinnar skal vera helmingur af breidd hinnar rauðu.

Öllum er frjálst að nota fánaveifur og fánaborða.

Rísi ágreiningur um gerð eða notkun á fánaveifum, fánaborðum eða öðrum fánamerkjum, skal leita leiðbeininga forsætisráðuneytisins.

Lög og stjórnvaldsfyrirmæli

Hlutföll fánans

Hlutföll hins almenna þjóðfána: Hlutföll fánans
Hlutföll ríkisfánans: Hlutföll ríkisfánans
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta