C.12. Kynning og innleiðing áfangastaðaáætlana
Aðgerðinni er lokið | |
Tengiliður Sigríður Valgeirsdóttir, menningar- og viðskiptaráðuneytinu
[email protected]
Guðný Hrafnkelsdóttir, Ferðamálastofu
[email protected]
Samantekt við lok verkefnis
Ferðamálastofu var falin framkvæmd á aðgerð C.12 Kynning og innleiðing áfangastaðaáætlana í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið lagði til fjármögnun að upphæð 30 millj. kr. sem skiptust á tvö ár, 2018 og 2019. Upphæðinni var skipt í sjö hluta. Markaðsstofur á Vesturlandi, Vestfjörðum, Austurlandi, Suðurlandi og Reykjanesi fengu 4.285.000 hver í sinn hlut og Markaðsstofa Norðurlands fékk tvo hluta, eða 8.570.000, enda nær sú markaðsstofa yfir bæði Norðurland vestra og eystra. Höfuðborgarstofu stóð sami styrkur til boða en hefur ekki birt áfangastaðaáætlun og hækkaði framlag annarra sem því nam.
Við upphaf verkefnis fékk Ferðamálastofa frá markaðsstofunum tímasettar tillögur að kynningu og innleiðingu áfangastaðaáætlana ásamt kostnaðaráætlun. Dæmi um aðgerðir voru hönnun og umbrot á áfangastaðaáætlunum, fundir með sveitarstjórnum og hagaðilum og opnir íbúafundir. Í apríl 2019 sendu markaðsstofurnar Ferðamálastofu stöðuskýrslur þar sem kom fram hvernig verkefnið var unnið. Framgangur verkefnisins var einnig ræddur á stöðufundum markaðsstofanna og Ferðamálastofu vorið 2019.
Umfjöllun á vef Ferðamálastofu
Verkefnið
Verkefnismarkmið: Að stýra uppbyggingu og þróun ferðamannastaða.
Gert verði átak í að kynna og innleiða áfangastaðaáætlanir sem verði heildstætt ferli þar sem litið verði til skipulags og samhæfingar í þróun og stýringu allra þeirra þátta sem geta haft áhrif á upplifun ferðamanna á viðkomandi svæði/áfangastað, þ.m.t. þarfir gesta, heimamanna, fyrirtækja og umhverfis. Landshlutarnir vinni sameiginlega stefnulýsingu sem hafi það markmið að stýra uppbyggingu og þróun svæðis yfir ákveðinn tíma, skilgreina hlutverk hagsmunaaðila, tiltaka beinar aðgerðir sem hver og einn beri ábyrgð á og hvaða bjargir/auðlindir þeir hyggist nýta við þá vinnu. Gerð áætlananna ljúki vorið 2018 og verði þær kynntar vel í landshlutunum og gerðar aðgengilegar fyrir haghafa. Þá verði unnið markvisst að því í samvinnu við sveitarfélög að áætlanirnar séu í samræmi við aðalskipulagsáætlanir og landsáætlun um uppbyggingu innviða.
- Ábyrgð: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
- Framkvæmdaraðili: Markaðsstofur landshluta.
- Dæmi um samstarfsaðila: Ferðamálastofa, sveitarfélög, haghafar á svæðunum, Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun.
- Tímabil: 2018.
- Tillaga að fjármögnun: 30 millj. kr. úr byggðaáætlun.