A.13. Starfsþróun starfsfólks leik- og grunnskóla
Aðgerðinni er lokið | |
Fréttir af aðgerðinni
Október 2024 Fagháskólanám fyrir starfsfólk leikskóla á vegum HÍ og HA í samstarfi við sveitarstjórnir víða um land var komið á fót haustið 2023. Um er að ræða 60 ECTS eininga nám sem styrkir faglega hæfni starfsfólks og býr það undir frekara nám til fullra kennsluréttinda í leikskólum. Námið er bæði í staðlotum og í fjárnámi og fær starfsfólk stuðning vinnuveitenda, þ.e. þeirra sveitarfélaga sem gert hafa samning við háskólana, til þess að stunda námið með tilslökun frá vinnuskyldu. 89 nemendur voru skráðir í námið haustið 2024 og er ráðgert að fyrsti hópurinn útskrifist vorið 2025.
Janúar 2024 Fagháskólanám í leikskólafræðum hófst að nýju í september 2023 í samstarfi HÍ og HA. Námið er unnt að stunda óháð búsetu nemenda og voru 50 skráðir á haustönn. HÍ fékk 10 m.kr. styrk frá MRN í desember 2022 til að þróa og skipuleggja fagháskólanám í leikskólafræðum í samstarfi við HA. Stefnt er að því að námið verði í boði við báða háskólana árin 2023-2025 sem sameiginlegt námsframboð skólanna. Átak er í gangi um að fjölga kennurum og fagfólki af erlendum uppruna í kennslustörfum. Íslenskubrú er starfrækt og vinnustofur og aukin ráðgjöf eru í boði fyrir nemendur sem eru með annað heimamál en íslensku. MRN studdi einnig sérstaklega við Íslenskuþorpið með 1,5 m.kr. viðbótarframlagi.
27. janúar 2023 Samstarfshópur um framhaldsfræðslu hefur störf
12. janúar 2023 Yfir milljarði úthlutað til aukins samstarfs háskóla - Fagmenntuðu leikskólastarfsfólki fjölgað og fjarnám eflt
7. nóvember 2022 Ný tækifæri fyrir fólk með stutta skólagöngu
6. október 2022 Viljayfirlýsing um fagháskólanám í leikskólafræðum undirrituð
Tengiliðir
Ólafur Grétar Kristjánsson, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu - [email protected]
Hulda Anna Arnljótsdóttir, félags- og vinnumarkaðsráðuneytið - [email protected]
Aðgerðin
Markmið: Að fagháskólanámi í leikskólafræðum verði komið á fót og það fest í sessi í öllum landshlutum og íslenskukunnátta starfsfólks leikskóla sem ekki hefur íslensku að móðurmáli verði efld.
Stutt lýsing: Aðgerðin verði tvíþætt. Annars vegar að til að koma í veg fyrir kennaraskort og auka nýliðun verði starfsfólki leikskóla sem ekki uppfyllir inntökuskilyrði til há¬skóla¬náms boðið tækifæri til aðfaranáms að háskólanámi í leikskólafræðum sem jafnframt teldist vera fyrstu skref í háskólanámi. Áhersla verði lögð á að sveitarfélögin veiti sínu starfsfólki stuðning við upphaf námsins. Skoðað verði að koma á fót raunfærnimati til að fá inngöngu í nám í leikskólafræði. Hins vegar verði stefnt að því að starfsfólk leik- og grunnskóla sem ekki hefur íslensku að móðurmáli fái tækifæri til að efla íslenskukunnáttu sína svo að það nái færni B samkvæmt Evrópska tungumálarammanum.Námið verði sniðið að þörfum þess og hægt verði að stunda það jafnhliða starfi, m.a. með fjarnámi og stafrænu námsefni. Árangur aðgerðarinnar verði m.a. mældur í fjölda þeirra sem sækja námið.
- Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið
- Framkvæmdaraðili: Háskólar, sveitarfélög og fræðsluaðilar.
- Dæmi um samstarfsaðila: Mennta- og barnamálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands, Fjölmenningarsetrið og stéttarfélög ófaglærðra starfsmanna leik- og grunnskóla.
- Tímabil: 2022–2026.
- Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Menntastefna, þingsályktun um að efla íslensku sem opinbert mál, þingsályktun um barnvænt Ísland.
- Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 4.
- Tillaga að fjármögnun: Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið