Hoppa yfir valmynd

Fjármál sveitarfélaga

Sveitarstjórnir bera ábyrgð á fjárhag sveitarfélaga. Þeim ber að tryggja að ákvæðum laga um fjármál sveitarfélaga sé fylgt. Einvörðungu sveitarstjórn getur tekið ákvarðanir um málefni sem varða verulega fjármál sveitarfélagsins. Til slíkra málefna teljast m.a. eftirtalin atriði:

  1. staðfesting ársreiknings,
  2. fjárhagsáætlun næstkomandi árs,
  3. fjárhagsáætlun til fjögurra ára,  
  4. viðauki við fjárhagsáætlanir,
  5. lán, ábyrgðir eða aðrar fjárhagslegar skuldbindingar sveitarfélags,
  6. sala eigna sveitarfélagsins og annarra réttinda þess,
  7. álagning skatta og gjalda,
  8. ráðning eða uppsögn endurskoðanda.

Reikningsár sveitarfélaga er almanaksárið. Sveitarfélög, stofnanir þeirra og fyrirtæki eru bókhaldsskyld og gilda ákvæði laga um bókhald og laga um ársreikninga, svo og aðrar góðar bókhalds- og reikningsskilavenjur um bókhald og reikningsskil sveitarfélaga. Bókhaldi sveitarfélags skal hagað á skýran og aðgengilegan hátt og skulu reikningsskil gefa glögga mynd af rekstri, efnahag og sjóðstreymi.

Starfsemi sveitarfélaga skiptist í A-hluta og B-hluta sem saman mynda samstæðu sveitarfélagsins. A-hluti merkir aðalsjóð sveitarfélags auk annarra sjóða og stofnana sem sinna starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð af skatttekjum. Undir B-hluta falla stofnanir sveitarfélags, fyrirtæki og aðrar rekstrareiningar sem að hálfu eða meiri hluta eru í eigu sveitarfélags og eru reknar sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar.

Sveitarfélögum er heimilt eftir því sem leiðir af viðkomandi lagareglum að ákveða sér eðlilegan afrakstur af því fjármagni sem er bundið í rekstri stofnana þeirra og fyrirtækja. Sveitarstjórn ber að sjá til þess að rekstri, fjárfestingum og ráðstöfun eigna og sjóða sé ávallt þannig hagað að sveitarfélagið muni til framtíðar geta sinnt skyldubundnum verkefnum sínum. Framangreinda skyldu skal sveitarstjórn fullnægja m.a. með því að samanlögð heildarútgjöld til rekstrar vegna A- og B-hluta í reikningsskilum séu á hverju þriggja ára tímabili ekki hærri en nemur samanlögðum reglulegum tekjum, og heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum séu ekki hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum.

Ársreikningar sveitarfélaga

Samkvæmt 61. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, skulu sveitarfélög gera ársreikning fyrir sveitarsjóð, stofnanir sveitarfélagsins og fyrirtæki þess. Ársreikningar allra sveitarfélaga.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 30.8.2024
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta