Plast
Næstum allir hlutir sem almenningur á Vesturlöndum notar daglega eru gerðir að hluta eða öllu leyti úr plasti. Sem dæmi má nefna byggingar, bíla, raftæki, húsgögn, umbúðir, barnabílstóla, sjóntæki, fatnað og leikföng. Plast hefur reynst mikilvægur hluti tækniframfara. Framleiðsla á plasti að einhverju marki hófst um miðja síðustu öld og hefur hún síðan vaxið hratt og má nefna að árleg heimsframleiðsla á plasti nærri tvöfaldaðist milli áranna 2000 og 2017.
Plast er í raun samheiti yfir mörg efnasambönd, sem eru jafnan létt og sterkbyggð, en eru lengi að brotna niður í umhverfinu. Að líkindum tekur það plast fleiri hundruð ár að brotna niður að fullu. Niðurbrotið tekur lífniðurbrjótanleg efnasambönd hins vegar ekki nema nokkra daga eða vikur.
Um 40% af framleiddu plasti í heiminum eru notuð í umbúðir, 20% í byggingar, 10% í ökutæki, 6% í raftæki og 24% í annað, s.s. fatnað, húsgögn, lækningatæki og vörur til notkunar í landbúnaði
Plast sem endar í umhverfinu veldur umhverfisvá. Sjávardýr festast í plastúrgangi og hljóta af því sár eða drepast. Fuglar og önnur dýr taka plastúrgang fyrir fæðu og drepast úr vannæringu.
Á síðustu árum hafa plastvörur sem eru gerðar til að brotna niður með lífrænum hætti orðið áberandi á markaði. Flestar eiga það sameiginlegt að sérstakar aðstæður þarf til að þær brotni að fullu niður á skömmum tíma. Slíkar aðstæður finnast yfirleitt ekki annars staðar en í stórum jarðgerðarstöðvum. Ekki er því ástæða til að telja að þær valdi minni mengun en aðrar plastvörur ef þær berast út í umhverfið.
Sjá einnig:
Útgefið efni
Áhugavert efni
Plast
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.