Úrgangur
Stór þáttur í neikvæðum áhrifum mannsins á umhverfi sitt er sá úrgangur sem verður til við athafnir hans, hvort heldur er í atvinnustarfsemi, við heimilisrekstur eða í frístundum. Forvarnir gegn úrgangsmyndun felast í því að nýta auðlindir okkar sem best og að koma í veg fyrir framleiðslu eða notkun ónauðsynlegs varnings.
Langstærstan hluta af losun gróðurhúsalofttegunda frá meðhöndlun úrgangs má rekja til urðunar. Endurvinnslu fylgir almennt minni losun og endurvinnsla úrgangs krefst minni orkunotkunar en framleiðsla sömu hluta úr nýju hráefni. Það er því til mikils að vinna ef dregið er úr urðun úrgangs og endurvinnsla aukin.
Úrgangastefnan hér á landi miðar að því að draga úr úrgangi og að meðhöndlun hans skapi hvorki hættu fyrir menn né dýr, eða valdi umhverfinu skaða.
Sveitarstjórnir ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í hverju sveitarfélagi. Stefna á landsvísu er hins vegar sett af umhverfis- og auðlindaráðherra, en Umhverfisstofnun sér um eftirlit með framkvæmd laganna.
Úrgangsforvarnir fela í sér að draga úr magni úrgangs með breyttri notkun, endurnotkun eða með því að lengja líftíma vöru. Sömuleiðis er mikilvægt að minnka magn skaðlegra efnasambanda í efnum og vörum til að úrgangur valdi minni vanda. Úrgangsforvarnir snúast því öðrum þræði um sjálfbæra neyslu. Allir neytendur geta þannig lagt sitt af mörkum með því að staldra við og hugsa hvort ekki sé hægt að nýta hluti lengur, gera við þá eða gefa þá, svo þeir hljóti lengra líf. Á sama hátt geta framleiðendur og dreifingaraðilar lagt sitt af mörkum með því að markaðssetja vörur sem hafa langan endingartíma og mögulegt er að gera við.
Úrvinnslugjaldi, sem lagt er á ýmsa vöruflokka er ætlað að tryggja að þeir sem skapi úrgang með neyslu sinni greiði kostnaðinn við meðhöndlun hans. Úrvinnslusjóður annast umsýslu og ráðstöfun úrvinnslugjalds.
Lokatakmarkið er að enginn úrgangur myndist og að allar vörur sem eru framleiddar séu endurvinnanlegar að öllu leyti til að tryggja hringrás auðlinda.
Sjá einnig:
Útgefið efni
Áhugavert efni
Hringrásarhagkerfi
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.