Baráttan við loftslagsbreytingar af mannavöldum er meðal þeirra viðfangsefna sem ber hvað hæst í umhverfismálum.
Helstu orsaka loftslagsbreytinga er að leita í aukningu svokallaðra gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpi jarðar. Styrkur koltvíoxíðs (CO2), einnig nefnt koltvísýringur, hefur aukist um þriðjung frá því við upphaf iðnbyltingar, en koltvíoxíð er sú gróðurhúsalofttegund sem mest er af. Aukning koltvíoxíðs stafar af bruna jarðefnaeldsneytis (þ.m.t. kola, jarðgass og olíu) sem er mest notaði orkugjafi mannkyns. Meðan losun gróðurhúsalofttegunda er ekki takmörkuð með einhverjum hætti mun magn þeirra í lofthjúpnum halda áfram að aukast.
Helstu áhrif loftslagsbreytinga eru m.a. breytingar á hitastigi jarðar, öfgar í veðurfari, bráðnun jökla, þurrkar og hækkun sjávarborðs. Jafnframt verða breytingar í höfum þar sem hafstraumar breytast, samhliða sýrustigi og seltu sem hafa mikil áhrif á búsvæði þeirra lífvera sem lifa í sjónum.
Ísland hefur sett sér skýr markmið í loftslagsmálum. Í júní 2024 var kynnt ný og uppfærð aðgerðaáætlun í loftslagsmálum með 150 aðgerðum.