Hoppa yfir valmynd

Friðlýsingarflokkar

Íslenskir friðlýsingaflokkar eru níu talsins og taka mið af flokkunarkerfi Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN) fyrir vernduð svæði. Þannig eru friðlýst svæði á Íslandi samanburðarhæf við verndarsvæði í öðrum löndum og auðvelt að leggja mat á árangur verndar.

Flokkun IUCN grundvallast á því hver markmiðin eru með stjórn svæðanna en fleiri þættir skipta einnig máli, t.d. einkenni svæðanna og sérstaða þeirra. Svæði geta raunar fallið undir fleiri en einn flokk. Þannig geta mismunandi svæði innan þjóðgarða verið skilgreind í ólíka verndarflokka. Flokkuninni er ætlað að hjálpa til við skipulagningu verndaðra svæða, stjórn framkvæmda og stuðla að bættum upplýsingum um svæðin.
Í greinum íslensku náttúruverndarlaganna um friðlýsingarflokkana er jafnan gerð grein fyrir forsendum fyrir vernd og markmiði með friðlýsingunni.

Tilgangurinn er að vernda náttúruleg þróunarferli, vistkerfi, fjölbreytni eða ákveðnar tegundir og/eða jarðfræðileg fyrirbæri sem eru viðkvæm, sérstök eða einstök á lands- eða heimsvísu eða í Evrópu. Friðlýsingin miðar að því að standa vörð um náttúrulegt ástand svæðisins og þróun þess eftir eigin lögmálum. Náttúruvé geta verið viðmiðunarsvæði fyrir vísindarannsóknir og vöktun.

Surtsey er dæmi um friðlýst svæði sem myndi flokkast sem náttúruvé skv. núgildandi náttúruverndarlögum. Eyjan var upphaflega friðlýst sem friðland þar sem ekki var búið að skilgreina náttúruvætti sem friðlýsingarflokk í lögum þegar friðlýsingin var undirrituð árið 1965.

Landsvæði þar sem ummerkja mannsins gætir lítið sem ekkert og náttúran þróast án álags af mannlegum umsvifum. Skulu vera a.m.k. 25 km2 að stærð og að jafnaði í a.m.k. 5 km fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum.  Miðar að því að varðveita einkenni svæðisins og tryggja að núlifandi og komandi kynslóðir geti notið þar einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja. 

Stór náttúrusvæði sem eru lítt snortin og hafa að geyma sérstætt eða dæmigert lífríki, jarðminjar og/eða landslag. Einnig skal líta til mikilvægis svæðisins í menningarlegu eða sögulegu tilliti. Miðar að því að vernda heildstæð náttúruleg vistkerfi, jarðminjar, landslag og menningarminjar sem einkenna svæðið og tryggja aðgang almennings að því til útivistar og til þess að kynnast náttúru og sögu svæðisins.

Þrjú svæði eru friðlýst sem þjóðgarðar á Íslandi, Þjóðgarðurinn á Þingvöllum, Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull og Vatnajökulsþjóðgarður.

Einstakar náttúrumyndanir sem ástæða þykir til að varðveita sökum fræðilegs gildis, fegurðar eða sérkenna. Geta t.d. verið fossar, eldstöðvar, hellar og drangar, svo og fundarstaðir steingervinga, sjaldgæfra steinda, bergtegunda og berggerða, eða lífræn fyrirbæri sem eru einstök og skera sig úr umhverfinu. Friðlýsingin skal jafnframt ná til svæðis kringum náttúrumyndanirnar svo sem nauðsynlegt er til þess að þær fái notið sín. 

Fossinn Dynjandi í Arnarfirði er dæmi um friðlýst náttúruvætti á Íslandi.

Markmiðið er að vernda tilteknar vistgerðir og búsvæði og styrkja verndun tegunda lífvera sem eru sjaldgæfar eða í hættu samkvæmt útgefnum válistum eða til að vernda lífríki sem er sérstaklega fjölbreytt eða sérstætt. Heimilt að kveða á um aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að hlúa að og mæta þörfum tegunda sem verndin beinist að eða til að viðhalda búsvæðum eða vistgerðum.

Dæmi um friðland á Íslandi er Miklavatn

Landslag sem þykir sérlega verðmætt vegna fagurfræðilegs og/eða menningarlegs gildis, talið er sérstætt eða fágætt á svæðis-, lands- eða heimsvísu eða skipar mikilvægan sess í vitund þjóðarinnar. Ef um er að ræða svæði þar sem hefðbundnar nytjar eru forsenda fyrir því að varðveita einkenni landslagsins skal tryggja þær áfram. Halda má áfram starfsemi sem stunduð er á svæðinu en gæta að það hafi ekki áhrif á sérkenni og einkenni þess.

Hluti Þjórsárdals er dæmi um svæði sem friðlýst hefur verið sem landslagsverndarsvæði.

Friðlýsa má landsvæði til verndar vistkerfum og búsvæðum ásamt þeim menningarlegu gildum sem tengjast þeim og hefðbundnum nytjum náttúruauðlinda. Viðmið um friðlýsingu slíkra svæða skal vera að þau séu stór, að mestu leyti náttúruleg en hluti þeirra nýttur á sjálfbæran hátt.

Markmið með verndun svæða samkvæmt grein þessari er hófsamleg og sjálfbær nýting náttúruauðlinda sem ekki er iðnvædd og samrýmist náttúruvernd.

Verndun svæðisins miðar að því að auðvelda almenningi aðgang að náttúru og tengdum menningarminjum í nánd við þéttbýli til útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu. Umhverfisstofnun annast undirbúning stofnunar fólkvangs í samvinnu við viðkomandi sveitarfélag eða sveitarfélög. Landsvæði fólkvanga skulu vera í eigu sveitarfélags nema sérstakar ástæður mæli með öðru og um það náist samkomulag milli sveitarfélags og landeigenda. 

Glerárdalur ofan Akureyrar er dæmi um svæði sem friðlýst hefur verið sem fólkvangur.


Svæði sem falla í verndarflokk Rammaáætlunar sem Alþingi hefur samþykkt skal friðlýsa gagnvart orkuvinnslu. Friðlýsingin felur í sér að orkuvinnsla og orkurannsóknir eru óheimilar á viðkomandi svæði. 

Jökulsá á Fjöllum er dæmi um svæði í verndarflokki Rammaáætlunar sem friðlýst hefur verið gagnvart orkuvinnslu.


Svæðið má ekki hafa verið flokkað í nýtingarflokk Rammaáætlunar. Miðar m.a. að því að varðveita vatnslindir til framtíðar, tryggja náttúrulega ferla og vatna- og vistfræðilega samfellu á tilteknu vatnasviði og standa vörð um ásýnd og vistfræðilegt þjónustuhlutverk vatnasviða.

Svæði sem sett eru undir stranga vernd í þeim tilgangi að varðveita líffræðilega fjölbreytni og mögulega einnig jarðminjar/jarðmyndanir. Umferð manna, nýting og inngrip sem áhrif geta haft á svæðin eru háð ströngum skilyrðum og takmörkunum í því skyni að varðveita verndargildi svæðisins. Þessi svæði geta haft ómetanlegt gildi sem viðmiðunarsvæði fyrir vísindarannsóknir og vöktun.

Svæði í flokki Ib eru venjulega stór land- eða hafsvæði sem eru lítt eða ekki mótuð af manninum og haldið hafa sínum náttúrulegu eiginleikum og áhrifum. Þar er ekki varanleg eða umtalsverð búseta. Verndun og stjórnun svæðanna miðar að því að varðveita náttúrulegt ástand þeirra.
Verndarsvæði sem falla í flokk II eru stór náttúruleg eða lítt snortin svæði sem afmörkuð eru til verndar heildstæðum vistfræðilegum ferlum og þeim tegundum og vistkerfum sem einkenna svæðið. Jafnframt skapa svæðin margvíslega möguleika til andlegrar upplifunar, vísindaiðkunar, fræðslu, útivistar og afþreyingar fyrir ferðamenn af því tagi sem samrýmist menningu og umhverfissjónarmiðum.
Svæði í þessum flokki eru afmörkuð til að vernda sérstakar náttúruminjar sem geta verið landslagsfyrirbæri, neðansjávarfjöll, neðansjávarhellisskútar, jarðminjar, svo sem hellar, eða jafnvel lifandi fyrirbæri eins og gamall skógarlundur. Þetta eru jafnan einkar lítil verndarsvæði og hafa oft mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn.
Markmiðið með vernd svæða í flokki IV er að vernda tilteknar tegundir eða búsvæði og stjórnun svæðanna endurspeglar þá forgangsröðun. Mörg svæði í þessum flokki þarfnast reglubundinnar íhlutunar til að mæta þörfum tiltekinnar tegundar eða til að viðhalda búsvæðum en þetta er þó ekki skilyrði verndarflokksins.
Hér er um að ræða verndarsvæði þar sem samspil manns og náttúru í gegnum tíðina hefur skapað svæðinu sérstöðu sem byggir á vistfræðilegu, líffræðilegu, menningarlegu og sjónrænu gildi þess. Jafnframt er varðveisla þessa samspils nauðsynleg til verndunar og viðhalds svæðisins og þeirra náttúrufarslegu gilda og annarra gilda sem svæðið hefur.
Þessi svæði miða að verndun vistkerfa og búsvæða ásamt menningarlegu gildum sem tengjast þeim og hefðbundnum nytjum náttúruauðlinda. Yfirleitt stór og að mestu leyti náttúruleg en hluti þeirra nýttur á sjálfbæran hátt. Litið svo á að hófsöm nýting náttúruauðlinda, sem ekki er iðnvædd og samrýmist náttúruvernd, sé eitt aðalmarkmiðið með verndinni.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta