Verkefni friðlýsingaátaksins
Stefnumót við náttúruna
Kynningarátak sem miðar að því að hvetja landsmenn til að heimsækja friðlýst svæði á Íslandi. Friðlýstu svæðin eru fjölmörg og þar geta gestir upplifað ólíkar hliðar íslenskrar náttúru, allt frá viðkvæmum gróðri og skordýrum til stórbrotinna fjalla, landslags og útsýnis sem á engan sinn líka. Fjölbreytt þjónusta er í boði á mörgum svæðanna þar sem landverðir veita fræðslu og upplýsingar og traustir innviðir á borð við göngustíga, útsýnispalla, tjaldstæði og nútímaleg salerni eru innan seilingar. Sjá nánar um kynningarátakið.
Aðkallandi friðlýsingar
Tilgangur verkefnisins er að vinna að friðlýsingum á svæðum sem þarfnast aukinnar verndar, s.s. vegna aukinnar ferðamennsku, gegn orkuvinnslu (í verndarflokki Rammaáætlunar), vegna þess að þau eru á náttúruverndaráætlunum sem Alþingi hefur samþykkt, o.s.frv. Friðlýsingarnar eru unnar í samráði við sveitarfélög, landeigendur og aðra hagaðila. Verkefnið er samstarfsverkefni umhverfis- og auðlindaráðuneytis og Umhverfisstofnunar og er í vinnslu.
Talning ferðamanna
Tilgangur og markmið verkefnisins er að hafa yfirsýn yfir fjölda ferðamanna sem koma á friðlýst svæði á Íslandi og búa yfir upplýsingum um fjölda ferðamanna á svæðunum sem þannig geta hjálpað til við skipulagningu og stýringu ferðamanna. Verkefnið er samstarfsverkefni umhverfis- og auðlindaráðuneytis og Umhverfisstofnunar og er í vinnslu.
Hagræn áhrif friðlýstra svæða
Rannsökuð voru 12 svæði vítt og breitt um Ísland með það að markmiði að meta efnahagsleg áhrif friðlýstra svæða á nærsamfélög þeirra og á atvinnulíf á svæðinu. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að efnahagsleg áhrif friðlýstra svæða á Íslandi eru ótvírætt jákvæð. Verkefnið var unnið í samstarfi við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og var rannsóknin og helstu niðurstöður hennar kynnt á Umhverfisþingi í nóvember 2018.
Verkefninu lauk með skýrslunni Áhrif friðlýstra svæða á framleiðslu og atvinnu í næsta umhverfi
Náttúruvernd og efling byggða
Samfélagsáhrif friðlýstra svæða voru skoðuð og hvernig friðlýsingar geta haft áhrif á þróun byggða. Í ársbyrjun 2020 kom út skýrsla Hagfræðistofnunar HÍ um efnið sem unnin var í samstarfi við Rannsóknamiðstöð ferðamála, Rannsóknarsetur HÍ á Hornafirði og Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri. Samhliða hefur umhverfis- og auðlindaráðuneytið samið við þrjú landshlutasamtök sveitarfélaga um greiningu á tækifærum og áhrifum friðlýstra svæða.
Landbúnaður og náttúruvernd - LOGN
Íslenskir bændur eru almennt jákvæðir í garð náttúruverndar og telja að hægt sé að vinna að náttúruvernd samhliða landbúnaði. Þetta eru meðal niðurstaðna fyrsta áfanga verkefnis þar sem kannaðir voru möguleikar á samþættingu landbúnaðar og náttúruverndar. Verkefnið er samstarfsverkefni Bændasamtaka Íslands og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Var Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins falið að gera úttekt á möguleikum til samþættingar landbúnaðar og náttúruverndar. Í öðrum hluta verkefnisins er hafið samstarf við áhugasama bændur um að huga að náttúruvernd við búskap undir leiðsögn Ráðgjafarmiðstöðvarinnar.
Friðlýsingar
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.