Hoppa yfir valmynd

Líffræðileg fjölbreytni

Líffræðileg fjölbreytni nær yfir allar tegundir dýra, plantna, sveppa og annarra lífvera s.s. bakteríur og veirur sem finnast á jörðinni og þann breytileika sem er milli einstaklinga sömu tegundar og allt erfðaefni þeirra. Líffræðileg fjölbreytni fjallar einnig um búsvæði allra lifandi lífvera og þau vistkerfi og vistgerðir sem þær mynda og sjálfbæra nýtingu lifandi náttúru. Tilgangurinn með verndun líffræðilegrar fjölbreytni hér á landi er að styrkja og varðveita til framtíðar þær tegundir sem hafa frá upphafi skapað íslenska náttúru og þrifist hér á landi í árþúsundir og að koma í veg fyrir að tegundir deyi út af mannavöldum og hverfi, eins og geirfuglinn, um aldur og ævi jarðar.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni

Samningur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (Convention on Biological Diversity, CBD) var samþykktur á heimsráðstefnu um umhverfi og þróun í Rio de Janeiro árið 1992. Ísland undirritaði samninginn á ráðstefnunni og gekk hann í gildi hér á landi árið 1994. Markmið samningsins eru þrjú: að vernda líffræðilega fjölbreytni, stuðla að sjálfbærri nýtingu hennar og tryggja ráðstöfunarrétt ríkja yfir erfðaefni sínu og skiptingu hagnaðar af nýtingu þess. Samningurinn er mikilvægasta verkfærið til að varðveita líffræðilega fjölbreytni jarðar og náið samstarf og samráð er um framkvæmd hans og annarra alþjóðlegra náttúruverndarsamninga. Til þessa hafa 196 ríki gerst aðilar að samningnum um líffræðilega fjölbreytni. Auk samningsins eru tvær bókanir við hann sem fjalla um erfðabreyttar lífverur (Kartagena bókunin) og aðgang að erfðaefni til nýtingar og skiptingu hagnaðar af slíkri nýtingu (Nagoya bókunin) sem Ísland hefur ekki enn gerst aðili að.

Markmið

Árið 2022 samþykktu aðildarríki samningsins 23 heimsmarkmið í þágu líffræðilega fjölbreytni til ársins 2030, undir ramma svokallaðra Global Biodiversity Framework. Samkvæmt þeim á meðal annars að vera búið að koma upp neti verndaðra svæða til verndunar svæða sem teljast mikilvæg eru fyrir líffræðilega fjölbreytni eða viðkvæm vistkerfi. Er þar miðað við að 30% lands- og 30% hafsvæða verði friðuð. Þá taka markmiðin á endurheimt 30%  allra raskaðra vistkerfa, sjálfbæra nýtingu auðlinda svo sem við fiskveiðar, landbúnað og skógrækt, sem og afnámi styrkja sem hafa neikvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni og virkjun alþjóðlegra fjármálakerfa fyrir líffræðilega fjölbreytni, deilingu afkasta og samstarfs ríkja við að auka þekkingu almennings á gildi líffræðilegrar fjölbreytni og þess sem fólk getur gert til þess að varðveita hana og styrkja. Samfélagsleg markmið einblína á jafnrétti kynja og minnihlutahópa sem og að virkja almenning til að skilja rétt sinn í samband við náttúruvernd og taka þátt í að vernda sitt umhverfi.

Skuldbindingar

Aðildarríki samningsins skuldbinda sig meðal annars til þess að greina og vakta ýmsa þætti í lífríki landsins svo sem hvað þarfnast verndar og hvaða þættir hafa skaðleg áhrif á líffræðilega fjölbreytni. Þá ber okkur meðal annars að koma upp kerfi verndarsvæða, stýra og stjórna auðlindum sem mikilvægar eru fyrir verndun líffræðilegrar fjölbreytni, endurbyggja og lagfæra spillt vistkerfi og koma í veg fyrir að fluttar séu inn erlendar tegundir sem ógna vistkerfum, búsvæðum eða tegundum. Ríkjum ber að setja ýmis ákvæði samningsins inn í lög landsins og er það að stórum hluta gert í lögum um náttúruvernd, lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur og nokkrum öðrum lögum.

Stefna Íslands og framkvæmd

Ríkisstjórn Íslands samþykkti stefnu í líffræðilegri fjölbreytni árið 2008 og framkvæmdaáætlun fyrir hana árið 2010 að tillögu umhverfisráðherra. Unnið er að endurnýjun stefnunnar með hliðsjón af 2020 markmiðum samningsins.

Grænbók um líffræðilega fjölbreytni íslenskra vistkerfa var kynnt árið 2022. Í byrjun árs 2024 var skipaður stýrihópur til að undirbúa nýja stefnumótun og framkvæmdaáætlun fyrir líffræðilega fjölbreytni hér á landi til næstu ára, sem jafnframt á að styðja við framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni. Stefnt er að því að drög að stefnu Íslands verði tilbúin sumarið 2025.

Sjá einnig:

Áhugavert

Árið 2008 kom út stefnumörkun Íslands um framkvæmd samningsins um líffræðilega fjölbreytni.

Síðast uppfært: 16.1.2025
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta