Stjórn og skipulagsskrá
Stjórn Kvískerjasjóðs
Árni M. Mathiesen, formaður
Dagný Arnarsdóttir
Þuríður H. Aradóttir Braun
SKIPULAGSSKRÁ
fyrir Kvískerjasjóð
1. gr.
Kvískerjasjóður er stofnaður af umhverfisráðuneytinu, kt. 571189-1519, 15. janúar 2003 til heiðurs Kvískerjabræðrum, þeim Flosa Björnssyni, Hálfdáni Björnssyni, Helga Björnssyni og Sigurði Björnssyni fyrir framlag þeirra til öflunar þekkingar og rannsókna á náttúru og sögu Austur-Skaftafellssýslu. Varsla og dagleg umsýsla sjóðsins heyrir undir ráðuneyti umhverfismála. Sjóðurinn starfar á grundvelli laga um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988. Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun, en mun ekki hafa með höndum rekstur. Heimilisfang sjóðsins er í Reykjavík.
2. gr.
Hlutverk sjóðsins er að stuðla að og styrkja rannsóknir á náttúru og sögu, þ.m.t. menningarminjum, í Austur-Skaftafellssýslu. Markmiðum sjóðsins skal ná með veitingu rannsóknarstyrkja til stofnana, félagasamtaka og einstaklinga.
3. gr.
Ráðherra umhverfismála skipar sjóðnum þriggja manna stjórn til fjögurra ára í senn og skal einn þeirra skipaður formaður sjóðsins. Ráðherra menningarmála tilnefnir einn stjórnarmann, en hinir eru skipaðir án tilnefningar. Stjórnin skipar sér gjaldkera og ritara. Formaður kemur fram fyrir hönd sjóðsins og er forsvarsmaður hans á opinberum vettvangi. Gjaldkeri ber ábyrgð á fjárvörslu, færslu reikninga og skýrslugerð til endurskoðunar skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 19/1988. Ritari annast færslu fundargerða og varðveislu þeirra gagna og skjala sem sjóðnum berast.
Stjórnin skal veita sjóðnum forstöðu og ber ábyrgð á fjárvörslu hans. Stjórnin tekur ákvarðanir á fundum sínum og skal haldin gerðabók um alla fundi og bóka skilgreinilega þær ákvarðanir sem teknar eru.
4. gr.
Stofnfé sjóðsins eru 25 milljónir króna sem greiðast af umhverfisráðuneytinu við stofnun sjóðsins svo og frekari fjárveitingar sem kunna að verða ákveðnar í fjárlögum til Kvískerjasjóðs. Af stofnfé sjóðsins er óskerðanlegt stofnfé ein milljón króna.
Sjóðnum er heimilt að taka við gjöfum og fjárframlögum frá einstaklingum, fyrirtækjum og eða öðrum sem veita vilja markmiðum hans brautargengi.
Eigi síðar en 30. júní ár hvert skal stjórnin senda Ríkisendurskoðun reikninga sjóðsins fyrir næst liðið ár ásamt skýrslu um hvernig fé sjóðsins hefur verið varið.
5. gr.
Framlög úr sjóðnum skulu veitt samkvæmt ákvörðun stjórnar í fyrsta sinn árið 2004. Á hverju ári er stjórninni heimilt að veita allt að 10% af uppreiknuðum höfuðstól sjóðsins í árslok undangengins almanaksárs, þó ekki af óskerðanlegu stofnfé sbr. 4. gr, til sérstakra verkefna á sviði náttúru og sögu í Austur-Skaftafellssýslu.
Stjórn sjóðsins er heimilt að skilyrða veitingu fjár úr sjóðnum fyrirfram og ákveða hámarks- og lágmarksfjárhæð einstakra styrkja.
6. gr.
Fjármuni sjóðsins skal ávaxta með tryggum hætti. Stjórninni er heimilt að fela löggiltu verðbréfafyrirtæki eða viðskiptabanka að sjá um þennan þátt en ávallt skal þó fjárfestingastefna borin undir stjórn til samþykktar fyrirfram.
Stjórn sjóðsins skal velja einn löggiltan endurskoðanda/skoðunarmann til að endurskoða reikninga sjóðsins.
7. gr.
Stjórn sjóðsins er heimilt að gera breytingar á skipulagsskrá sjóðsins ef þjóðfélagshættir og aðstæður hafa breyst svo mjög frá því skipulagsskráin var staðfest að markmiðum hennar verður ekki náð að öðrum kosti, en eingöngu í samráði við stofnanda sjóðsins. Slíkar breytingar skal eingöngu gera að allir stjórnarmenn séu sammála þeim. Bera skal allar breytingar skriflega undir embætti sýslumannsins á Norðurlandi vestra. Komi til niðurlagningar sjóðsins skal hreinni eign hans varið til markmiðanna sem greint er frá í 2. gr. hér að ofan eða skyldra markmiða.
8. gr.
Leita skal staðfestingar sýslumannsins á Norðurlandi vestra á skipulagsskrá þessari.
Við staðfestingu á skipulagsskrá þessari fellur úr gildi eldri skipulagsskrá nr. 199/2003.
Samþykkt af umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra 8. júní 2023.
Staðfest af sýslumanninum á Norðurlandi vestra 14. júní 2023.
Kvískerjasjóður
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.