Hoppa yfir valmynd

Úthlutun ársins 2019

Ævintýri og líf heima og í Kanada - endurminningar Guðjóns R. Sigurðssonar

Þórður Sævar Jónsson hlaut styrk að upphæð 750.000 kr.

Guðjón Runólfsson (tók sér ættarnafnið Sigurðsson) fæddist á Hömrum í Mýrarhreppi í Austur-Skaftafellssýslu. Nokkrum vikum eftir að hann fæddist fóru foreldrar hans, Runólfur Sigurðsson frá Svínafelli í Öræfum og Steinunn Jónsdóttir frá Odda á Mýrum, til Vesturheims með þrjú börn sín, en skildu hann eftir í fóstri hjá ömmu sinni og afa, Guðnýju Benediktsdóttur og Jóni Bjarnasyni, sem þá bjuggu á Odda á Mýrum. Síðar dvaldi hann hjá Ingunni móðursystur sinni og eiginmanni hennar, Einari Sigjóni Þorvarðarsyni, á Brunnhól á Mýrum, þar sem hann ólst að mestu leyti upp. Tvítugur flutti hann til Kanada þar sem hann bjó í 37 ár þar til fegurð heimahaganna dró hann aftur til Íslands 1961. Guðjón færði sögu sína til bókar árið 1981 og fékk Skjalasafn Austur-Skaftafellssýslu handritið að gjöf fyrir rúmum tíu árum. Markmið verkefnisins er að koma handritinu á rafrænt form og undirbúa útgáfu þess.

 

Rannsókn og miðlun á ævi og störfum Eymundar Jónssonar og Halldóru Stefánsdóttur í Dilksnesi í Nesjum

Þórbergssetur hlýtur styrk að upphæð 750.000 kr.

Saga Eymundar Jónssonar og Halldóru Stefánsdóttur í Dilksnesi í Nesjum, Hornafirði er afar áhugaverð. Bakgrunnur þeirra var ólíkur og ekki var sjálfgefið að þau mættu eigast og gætu gifst. Hún var dóttir alþingismannsins í héraðinu, hann sonur vinnukonu og fátækrar ekkju. En ástin og þrautseigja þeirra sigraði og hjónabandið varð langt og farsælt. Þau bjuggu við þröngan kost alla ævi, fluttu til Kanada í leit að betra lífsviðurværi, en komu heim aftur að fimm árum liðnum og settust að í sveitinni sinni, Nesjum í Hornafirði. Þau settu svip sinn á samfélag og sögu Austur-Skaftafellssýslu. Eymundur lagði hönd á plóg við mörg framfaramál í héraðinu og er óhætt að segja að framlag hans hafi átt þátt í að leggja grunn að nútíma samfélagi á Hornafirði. Halldóra stóð fyrir búinu og ól upp 16 börn þeirra.  Markmið verkefnis er að ná saman fjölbreyttum upplýsingum um ævi þeirra og störf og miðla þeim á ýmsan hátt svo sem með sýningum, fyrirlestrum, útgáfu, leikþáttum, vísnakvöldum eða margmiðlun.


Mælavörður á Breiðamerkursandi

Náttúrustofa Suðausturlands hlýtur styrk að upphæð 600.000 kr.

Allt frá fyrri hluta 20. aldar og fram til loka fyrsta áratugar 21. aldar, hlóðu jöklamælingamenn ár hvert vörður til þess að marka stöðu jökuljaðars Breiðamerkurjökuls hverju sinni. Sporðastaðan var mæld beggja vegna við Jökulsárlón, allt frá um 1930. Ábúendur á Kvískerjum, fyrst Björn Pálsson og síðar synir hans mældu jöklabreytingar á tveimur stöðum vestan Jökulsárlóns (Breiðárlón, Nýgræðukvíslar). Austan við lónið var einnig mælt út frá tveim stöðum; Stemmu og nærri Fellsfjalli. Um þær mælingar sáu bændur sem voru búsettir í Suðursveit. Eftir því sem tíminn leið og jökullinn hopaði mörkuðust mælilínur, byggðar á þessum vörðum. Þessar mælilínur og vörðurnar eru eini vitnisburðurinn um framlag ábúenda í héraðinu, til vísindalegrar gagnaöflunar, um hop jökulsins. Flestar vörðurnar, nema þær allra yngstu, eru nú fallnar og staðsetning margra gleymdar. Sumstaðar sést móta fyrir hvar þær voru reistar, en með tímanum hverfa þau ummerki með öllu, því ógerlegt verður að greina þær frá jökulaurnum. Nákvæm staðsetning þeirra var aldrei skráð af jöklamælingamönnum, enda voru tæki til slíks lengst af ekki fyrir hendi. Til þess að forða því að mælivörðurnar gleymist er ætlunin að staðsetja þær sem finnast með GPS tæki og skrá með hliðsjón af mælingum og athugasemdum sem Kvískerjabræður og Suðursveitungar skráðu hverju sinni. Síðar meir er ætlunin að gera þessari sögu skil í Skaftfellingi eða Jökli.

 

Varpárangur skúms á Breiðamerkursandi 2019

Náttúrustofa Suðausturlands hlýtur styrk að upphæð 1.000.000 kr.

Skúmurinn er einn af einkennisfuglum Suðausturlands enda verpir um 75% íslenska stofnsins á jökulsöndunum sunnan Vatnajökuls. Á Breiðamerkursandi einum verpti um helmingur íslenskra skúma þegar heildarvarpstofn Íslands var síðast metinn á níunda áratug síðustu aldar. Upp úr aldamótum fór þó að bera á að skúm væri að fækka á svæðinu, meðal annars var það Hálfdán Björnsson frá Kvískerjum sem benti á það, og staðfestist sá grunur sumarið 2018 þegar Fuglaathugunarstöð Suðausturlands, ásamt Náttúrustofu Suðausturlands, kortlagði skúmshreiður á Breiðamerkursandi. Þá fundust í allt 175 hreiður sem sýnir mikla fækkun frá 1984 og 1985 þegar metið var að 2820 pör verptu á sandinum. Síðar um sumarið 2018 var farið um sama svæði og skúmsungar merktir, þá fundust einungis 83 ungar. Í kjölfar niðurstaðna kortlagningarinnar og annarra vísbendinga um fækkun á öðrum svæðum var skúmur færður á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands haustið 2018 þar sem hann er skráður í bráðri hættu. Ástæður fækkunar eru að mestu óþekktar en líklegt er talið að það megi m.a. rekja til minnkandi varpárangurs á svæðinu en litlar sem engar upplýsingar eru til um slíkt utan athugana Hálfdáns Björnssonar. Markmið verkefnisins er að skoða varpárangur skúms á Breiðamerkursandi sumarið 2019. Varpárangur skúms á Íslandi hefur lítið verið skoðaður og gefur því verkefnið nýjar og mikilvægar grunnupplýsingar um viðkomu skúmsins. Aukin þekking á stöðu skúmsins getur líka gefið upplýsingar um ástand annarra lífvera því skúmur er ofarlega í fæðukeðjunni og gefur ástand hans vísbendingar um stöðu neðar í keðjunni.

 

Hlutverk loðvíðis í íslenskum vistkerfum

Þóra Ellen Þórhallsdóttir og Kristín Svavarsdóttir hljóta styrk að upphæð 750.000 kr.

Austur Skaftafellssýsla er líklega sá hluti Íslands sem mest hefur breyst á síðastliðnum 20 árum. Frá 1995 hafa jöklar hopað á Íslandi en hvergi eins hratt og í suðurhlíðum Vatnajökuls. Þar hefur nýtt land komið undan jökli og sum þessara svæða gróa hratt upp. Á ofanverðum Skeiðarársandi hafa orðið gríðarlegar breytingar á tuttugu árum, m.a. með landnámi loðvíðis og birkis. Víða um land má merkja aukna útbreiðslu víðitegunda undanfarin ár. Það hefur verið rakið til breyttrar landnýtingar, einkum minnkandi sauðfjárbeitar, og til hlýnandi loftslags. Líklegt er að gulvíðir og loðvíðir hafi verið afar útbreiddir hér á landi fyrir landnám. Víðir er eftirsótt beitarplanta og nánast alls staðar þar sem sauðfé gengur að ráði heldur beitin víðirunnum niðri. Þar sem búfjárbeit er aflétt spretta stundum víðirunnar upp mjög fljótlega og þá væntanlega af gömlum plöntum sem hjarað hafa í sverðinum en haldið þannig niðri af beit að þær hafa verið lítt sýnilegar. Eftir að búfjárbeit var aflétt í Skaftafelli hafa gulvíðir og loðvíðir breiðst þar mjög út, m.a. í gömlum túnum á Skaftafellsheiðinni. Markmið verkefnisins er að skilja betur hlutverk loðvíðis (Salix lanata) í íslenskum vistkerfum.

 

Handverk og hannyrðir Kvískerjasystra

Marta Sigurðardóttir hlýtur styrk að upphæð 500.000 kr.

Markmið verkefnisins er að halda störfum Kvískerjasystra á lofti. Tekið verður saman rit um handverk og hannyrðir þeirra systra í rituðu sem og myndrænu máli. Fjallað verður meðal annars um hvernig ullin var unnin, hvernig hún var lituð og unnir úr henni hinir ýmsu hlutir sem og fatnaður á mismunandi hátt. Einnig verður fjallað ýtarlega um lítt þekkta prjónaaðferð á dúkum, bæði í máli og myndum.

Endurgerð sögulegra ljósmynda af jöklum í Austur-Skaftafellssýslu

Hrafnhildur Hannesdóttir hlýtur styrk að upphæð 800.000 kr.

Sögulegum ljósmyndum af jöklum landsins hefur verið safnað á síðastliðnum árum í mörgum verkefnum á vegum Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar Háskólans, Náttúrustofu Suð-austurlands, og rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði. Við gerð fræðsluvefs um jökla- og loftslagsbreytingar (https://www.vatnajokulsthjodgardur.is/is/svaedin/horfandi-joklar) sem unnin var í samstarfi ofangreindra stofnana auk Vatnajökulsþjóðgarðs, var kerfisbundið safnað ljósmyndum af skriðjöklum Vatnajökuls. Vefurinn er hluti af verkefninu Jöklar Íslands, lifandi kennslustofa í loftslagsbreytingum, einnig kallað Hörfandi jöklar. Markmið verkefnisins, sem er hluti af sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum, er að auka vitund fólks um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á jökla á Íslandi sem og annars staðar á jörðinni. Áhersla var lögð á að gera efni fræðsluvefsins aðgengilegt fyrir almenning og ferðafólk með skýringarmyndum, kortum og fjölda ljósmynda, bæði á ensku og íslensku. Endurgerðarljósmyndun er ein áhrifamesta miðlunaraðferðin til þess að vekja athygli á hlýnun jarðar og bráðnun jökla. Þetta verkefni er mikilvægur liður í því að skrásetja þær breytingar sem hafa orðið á suðurhluta Vatnajökuls og varðveita og gera aðgengilegar ljósmyndir allt frá aldamótunum 1900 og munu vera mikilvæg viðbót við ofangreindan fræðsluvef um jökla- og loftslagsbreytingar.


Síðast uppfært: 20.5.2019
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta