Hoppa yfir valmynd

Úthlutun ársins 2021

Endurhönnun Kvískerjavirkjunar

Kvísker ehf. hlaut styrk að upphæð 700.000 kr.

Árið 1927 var sett upp heimarafstöð í Bæjargilinu á Kvískerjum. Hún var síðan færð á hentugri stað árið 1955 og síðan endurbyggð í núverandi mynd tólf árum síðar á nýjum stað þar sem nýta mætti fallorkuna mun betur. Núverandi eigendur Kvískerja hafa haldið stöðinni gangandi og framleiðir hún rafmagn til hitunar hússins að Kvískerjum. Kominn er tími til að aðlaga stöðina að nútímanum og er markmið þessa verkefnis að vinna að hönnunargögnum og mælingum sem þarf til að stíga næstu skref varðandi framkvæmdir við virkjunina.

Kortlagning Jökulsárlóns með fjölgeisladýptarmælingum

Jón Ólafsson, Helgi Björnsson, Finnur Pálsson, Andri Gunnarsson og Einar Björn Einarsson hljóta styrk að upphæð 700.000 kr.

Hópurinn hefur unnið að ýmsum rannsóknum á Breiðamerkurjökli og Jökulsárlóni. Einn mikilvægur verkþáttur áframhaldandi rannsókna er kortlagning á lögun botns lónsins. Um þriðjungur lónsins hefur þegar verið mældur með fjölgeislamæli. Fjölgeisla dýptarmælingar veita mun ítarlegri upplýsingar en eingeisla mælingar með venjulegum dýptarmælum. Þær geta leitt í ljós áður óþekkt fyrirbrigði og veitt mönnum nýja og ítarlega sýn á lögun botnsins.

Markmið þessa verkefnis er að ljúka botnkortlagningu lónsins síðsumars 2021 og birta nýtt kort 2022. Auk fræðslugildis verður kortið mikilvægt við túlkun annara gagna sem þegar hefur verið aflað um orku-, efna- og vatnsbúskap lónsins. Kortið mun einnig nýtast öðrum sem t.d. stunda rannsóknir á lífríki vatnsins.

Landnám lífs við hörfandi jökla og fyrstu vísar að samfélögum plantna og örvera

Kristín Svavarsdóttir, Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Kristinn Pétur Magnússon og Hlynur Steinsson hljóta styrk að upphæð 800.000 kr.

Árið 2009 var sett upp rannsóknaverkefni við sex skriðjökla milli Skeiðarársands og Hornafjarðar:  Morsárjökul, Skaftafellsjökul, Fjallsárjökul, Breiðamerkurjökul, Skálafellsjökul og Svínafellsjökul eystri, sem meðal annars sneri að  landnámi plantna á fyrsta áratug eftir jökulhörfun. Áherslan í verkefninu var á plöntur og plöntusamfélög en jarðvegslíf og samspil ferla ofan og neðanjarðar eru ekki síður mikilvæg í þróun vistkerfa. Safnað var viðamiklum gögnum framan við alla jöklana, í reitum sem merktir voru með GPS hnitum. Einnig voru skráðar og teknar saman upplýsingar um allar æðplöntur (jafna, elftingar, byrkninga, blómplöntur) í tilteknum radíus út frá hverjum jökli. Þótt aðeins sé um áratugur liðinn frá því þessi rannsókn fór fram, hafa orðið gríðarlegar breytingar á tækni við mat á örveruflóru (sveppum og bakteríum). Nú er hægt með miklu einfaldari hætti en áður að greina helstu hópa sveppa og baktería.

Ætlunin er að útvíkka fyrri rannsókn til að varpa ljósi á samspil örveruflóru og landnáms gróðurs á fyrstu stigum framvindu framan við hörfandi jökla. Rannsökuð verða fjögur af sex fyrri svæðum: Morsárjökull, Skaftafellsjökull, Fjallsárjökull og Breiðamerkurjökull og verður rannsóknin meistaraverkefni Hlyns Steinssonar.

Stafafura (Pinus contorta) í Austur-Skaftafellssýslu – mat á ágengni

Náttúrufræðistofnun Íslands hlýtur styrk að upphæð 600.000 kr.

Stafafura er hraðvaxta og skammlíf barrtrjátegund sem ættuð er frá vesturhluta Norður-Ameríku. Hún hefur mjög breytt vistfræðilegt þolsvið og er gróðursett víða um Ameríku, Evrópu og Nýja Sjáland til skógræktar og landgræðslu. Rannsóknir sem gerðar hafa verið víðs vegar um heiminn sýna greinilega að stafafura getur breytt uppbyggingu gróðursamfélaga og náttúrulegum eldferlum og haft neikvæð áhrif á innlendar plöntutegundir með því að draga úr auðgi, útbreiðslu og fjölbreytni þeirra.

Stafafura (ættuð frá Skagway) er ein vinsælasta skógræktartegundin á Íslandi og hefur verið gróðursett um allt land. Einn slíkur lundur er í Suðursveit, skammt frá Staðarfjalli þar sem fyrstu stafafururnar voru gróðursettar árið 1959. Fyrstu skráðu ummerkin um sjálfsáðar furur á svæðinu ná aftur til ársins 1985. Rannsóknir á útbreiðslu stafafuru í Steinadal árið 2010 sýndu  stóraukna útbreiðslu sjálfsáðra  stafafuruplantna  og bentu til  neikvæðra  áhrifa á  líffræðilega  fjölbreytni svæðisins. Sambærileg könnun í Steinadal á síðasta ári leiddi  í ljós  að  sjálfsáð stafafura dreifist  víða á  svæðinu og  hefur aukið  bæði  útbreiðslu sína  og  þekju  umtalsvert  á síðastliðnum áratug. Þessar niðurstöður benda til þess að stafafuran gæti verið ágeng á svæðinu.

Ekki er vitað til þess að kerfisbundnar rannsóknir hafi verið gerðar á Íslandi til að meta ágengni stafafuru. Markmið verkefnisins er að kortleggja nákvæmlega  útbreiðslu  stafafuru í  Steinadal  og reikna  aukningu hennar á svæðinu, prófa þá tilgátu að aukin þekja stafafuru dragi úr auðgi, útbreiðslu og fjölbreytni tegunda á svæðum sem hún hefur numið land, kortleggja útbreiðslu stafafuru í Austur-Skaftafellssýslu og meta ágengni hennar á svæðinu.

Kortlagning undirdjúpanna

Náttúrustofa Suðausturlands hlýtur styrk að upphæð 500.000 kr.

Hve djúp eru jökullónin við sunnanverðan Vatnajökul? Hvar eru þau dýpst og hvernig lítur botn þeirra út? Þetta eru á meðal spurninga sem Náttúrustofa Suðausturlands og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands leita svara við. Markmið verkefnisins „kortlagning undirdjúpanna“ er að fjölgeislamæla nokkur stór jökullón, sem eru framan við skriðjökla á Suðausturlandi og draga upp nákvæma mynd af botni þeirra. Sumarið 2021 er fyrirhugað að hefja kortlagningu Breiðárlóns, Jökulsárlóns og Heinabergslóns. Úr gögnunum verða útbúin landlíkön (dýptarmyndir) þar sem fram kemur lögun og landslag botnsins í lónstæðunum. Líkönin gera kleift að rekja breytingar á þeim hluta jökulsins sem hvílir í lónunum og bera saman við breytingar sem orðið hafa á þurru landi. Líkönin hafa umtalsvert rannsóknagildi en eru einnig áhugaverð viðbót til að kynna og fræða gesti í Vatnajökulsþjóðgarði um þetta ósýnilega land (botn lónanna), sem jafnframt eru á heimaslóðum Kvískerjasystkina.

Skúmanjósnir – hvað étur skúmurinn og hver étur skúminn?

Náttúrustofa Suðausturlands hlýtur styrk að upphæð 500.000 kr.

Skúmurinn er einn af einkennisfuglum Suðausturlands enda svæðið afar mikilvægt fyrir tegundina þar sem um 75% íslenska stofnsins verpir á jökulsöndunum sunnan Vatnajökuls. Þegar heildar varpstofn á landinu var síðast metinn, á níunda áratug síðustu aldar, verpti um helmingur íslenskra skúma á Breiðamerkursandi einum. Upp úr aldamótum fór þó að bera á að skúm væri að fækka á svæðinu og var sá grunur staðfestur sumarið 2018 þegar einungis fundust 175 skúmshreiður á Breiðamerkursandi. Í kjölfar þessara athugana var skúmur skráður sem tegund í bráðri hættu á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands. Ástæður fækkunar eru óljósar en líklegt að megi rekja til minnkandi varpárangurs á svæðinu þó litlar upplýsingar séu til um slíkt.

Árið 2019 hlaut Náttúrustofa Suðausturlands styrk úr Kvískerjasjóði til að meta varpárangur skúms á Breiðamerkursandi og er það verkefni á lokastigi. Ágætis varpárangur náðist hjá skúmum sem fylgst var með í því verkefni, og því ljóst að ekki fást einhlít svör um afdrif fuglsins með stöku verkefni. Því er nauðsynlegt að kafa dýpra í lífshætti hans til að átta sig á stöðunni.

Nánast engar rannsóknir hafa verið gerðar á fæðuvali skúms á Íslandi og fátt vitað umfram það sem er vitað út frá rannsóknum erlendis. Markmið þessa verkefnis er að sjá hvaða fæðu fullorðnir skúmar bera í unga sína og mögulega sjá hvaða afræningjar herja á skúminn.

Tröllasmiður – kortlagning útbreiðslu

Náttúrustofa Suðausturlands hlýtur styrk að upphæð 500.000 kr.

Tröllasmiður (Carabus problematicus) er eitt stærsta skordýr á Íslandi og hefur einungis fundist frá Hoffelli suður og austur fyrir Almannaskarð í Hornafirði. Íslenski tröllasmiðurinn er sérstök undirtegund, C.p. islandicus, og því er Hornafjörður í raun eini staðurinn í heiminum þar sem þessa tegund er að finna. Vegna sérstöðu tegundarinnar hefur verið lögð til friðlýsing bæði á henni sem og búsvæðum hennar. Tröllasmiðurinn íslenski hefur þó nánast ekkert verið rannsakaður og staða tegundarinnar í þeim hröðu breytingum sem hafa átt sér stað í náttúrunni er óljós. Í þessu verkefni verður kortlögð útbreiðsla og skrásettur fjöldi tröllasmiðs á þekktum fundarstöðum, samkvæmt upplýsingum frá Náttúrufræðistofnun Íslands, og ef færi gefst verða einnig heimsótt svæði nærri sem talin eru líklegir fundarstaðir. Kortlagningin er afar nauðsynleg til að að afla grunnþekkingar á þessari einstöku tegund.

GPS merking á helsingja

Náttúrustofa Suðausturlands hlýtur styrk að upphæð 510.000 kr.

Helsingjar hafa verpt á Suðausturlandi frá árinu 1988. Fyrir þann tíma hafði helsingi aðeins staldrað við á Íslandi og safnað orku fyrir áframhaldandi farflug á milli varpstöðva á Austur-Grænlandi og vetrarstöðva á Bretlandi. Á síðustu árum hefur varppörum fjölgað mikið Fjöldinn sem nýtir svæðið sýnir að Suðausturland er orðið helsingjum mun mikilvægara en einungis viðkomustaður til skamms tíma. Um leið verður svæðið því mikilvægt rannsóknarsvæði hvað varðar helsingjann.

Undanfarin fjögur ár hafa verið merktir rúmlega 900 helsingjar á Breiðamerkursandi og í Vestur-Skaftafellssýslu. Þetta hefur gefið mikilvægar upplýsingar um ferðir og dvalarstaði helsingjanna. Árið 2020 voru GPS/GSM sendar settir á fimm helsingja en með slíkum sendum fást miklu ítarlegri upplýsingar um ferðir og dvalarstaði þeirra. Þannig koma sendarnir upp um hvar farleiðir fuglanna liggja, hvar þeir eyða vetrinum, og auk þess með að skrásetja ferðir þeirra fást upplýsingar um hvernig gróðurlendi þær sækja á mismunandi tímum árs og hvert þær leita í náttstað. Helsingjar halda sig saman í hópum þar sem jafnvel fjölskylda kemur saman. Slíkt leiðir til þess að sendarnir gefa ekki einungis upplýsingar um einn fugl heldur getur gefið upplýsingar um hegðun fjölda fugla. Mikilvægt er að merkja fleiri fugla og er markmið verkefnisins að setja GPS/GSM senda á tvo helsingja í Kvískerjalandi sumarið 2021. Áætlað er að helsingjarnir sem merktir verða hljóti nafn eftir Kvískerjasystkinum Hálfdáni og Guðrúnu eldri.

Breiðamerkurjökull – landslagsþróun á komandi öld

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði hlýtur styrk að upphæð 900.000 kr.

Breiðamerkurjökull er fjórði stærsti skriðjökull Vatnajökuls og sá þeirra sem hraðast hefur hopað frá lokum litlu ísaldar fyrir um 130 árum. Hörfun jökulsins fór hægt af stað, eins og sjá má af því að ekki tók að votta fyrir Jökulsárlóni fyrr en um 1930. Hraði hopsins hefur stöðugt verið að aukast; þannig hefur 2/3 af massatapi jökulsins átt sér stað á sl. 60-70 árum. Ef svartsýnustu spár um hraða hopsins ganga eftir verður Breiðamerkurjökull – eins og við þekkjum hann í dag – nánast horfinn árið 2121.

Markmið verkefnisins er að kanna leiðir til þess að miðla vísindalegri þekkingu um hop Breiðamerkurjökuls frá 2021-2121 með nýstárlegum sjónrænum aðferðum, þannig að þessi mikilvæga vitneskja eigi sem greiðustu leið að almenningi um heim allan.

Hrútsfjallstindar: Remote sensing geological survey of the flank and interior of Öræfajökull volcano

Robert A. Askew og Catherine R. Gallagher hljóta styrk að upphæð 350.000 kr.

Verkefnið beinist að suðurhlíðum Hrútfjallstinda í Öræfum. Þetta tilkomumikla svæði, sem er hluti af Öræfajökulseldstöðinni, gefur lóðrétta opnu í jarðsögu svæðisins. Vegna þess hve óaðgengilegar hlíðarnar eru, einkum efri hluti þeirra, er sú saga þó lítt þekkt. Verkefnið miðar að því að kortleggja alla hlíðina og taka sýni af lykileiningum innan hennar til að bæta skilning á eldfjalla- og jöklunarsögu svæðisins. Við kortlagninguna verður notast við dróna, auk hefðbundnari aðferða á aðgengilegum svæðum.

Niðurstöður verkefnisins verða meðal annars settar fram í þrívíddarlíkönum af jarðfræði suðurhlíða Hrútfjallstinda. Verkefnið mun bæta þekkingu á gossögu Öræfajökuls, hvernig eldfjallið hefur byggst upp og samspil þess við jarðgrunn svæðisins. Einnig mun það varpa ljósi á það hvernig jökullinn mótar það landslag sem eldfjallið byggir upp undir honum, stuðlar að bættum skilningi á samspili kviku og íss, og sýnir mögulega óstöðug svæði, þar sem aukin hætta er á skriðuföllum. Það síðastnefnda getur meðal annars nýst við mat á náttúruvá.

Í ríki Vatnajökuls

Sjónhending ehf. hlýtur styrk að upphæð 800.000 kr.

Gerð heimildakvikmyndar í þremur þáttum þar sem Vatnajökull er í aðalhlutverki nú á tímum loftslagshamfara. Farið verður í rannsóknaleiðangra með vísindamönnum, sveitungar verða spurðir út í nábýlið og ógnarmáttur og kraftur jökulsins fundinn í smiðju listamanna.

Eitt af megin markmiðunum við gerð “Í ríki Vatnajökuls” er að vekja landsmenn og umheiminn til umhugsunar um mikilvægi þess að vernda og varðveita verðmæt landsvæði á Íslandi um ókomna framtíð, jafnt Íslendingum sem og öðrum til yndisauka. Ennfremur að kynna jöklarannsóknir svo að bregðast megi við jöklabreytingum á komandi árum af skilningi og þekkingu.

Endurminningar Guðjóns R. Sigurðssonar

Þórður Sævar Jónsson hlýtur styrk að upphæð 500.000 kr.

Guðjón R. Sigurðsson fæddist á Hömrum í Mýrdalshreppi í A-Skaftafellssýslu og var nokkurra vikna gamall þegar hann var skilinn eftir í fóstri hér á landi er foreldrar hans fluttu búferlum til Vesturheims með þrjú af börnum sínum. Hann flutti síðan tvítugur til Kanada og bjó þar í tæp 40 ár þar til fegurð heimahaganna dró hann aftur til Íslands 1961. Guðjón færði sögu sína til bókar og er handritið í eigu Skjalasafns Austur-Skaftafellssýslu. Þórður Sævar hlaut styrk úr Kvískerjasjóði 2019 til að koma handritinu í rafrænt form og undirbúa fyrir útgáfu. Nú liggur fyrir samkomulag við útgefanda um útgáfu á verkinu og er hér um að ræða framhaldsstyrk til að ljúka 

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta